Áhyggjur fólks af spillingu af völdum Sjálfstæðisflokksins snúast um atburði eins og þá sem lýst var í þættinum Kveik á Rúv í kvöld.
Í þættinum greindi hæstaréttardómari, sem var vinur formanns Sjálfstæðisflokksins þegar hann var skipaður dómari fram yfir aðra umsækjendur sem metnir voru honum hæfari, frá því að hann hefði reynt að „koma í veg fyrir“ að Hæstiréttur refsaði öðrum vini þeirra tveggja, aðila tengdum Sjálfstæðisflokknum, Baldri Guðlaugssyni ráðuneytisstjóra, sem forðaði 192 milljónum króna undan efnahagshruninu með sölu á hlutabréfum sínum í Landsbankanum, rétt eftir fund um alvarlega stöðu bankans.
Dómarinn, Jón Steinar Gunnlaugsson, hafði lýst sig vanhæfan í málinu vegna vinskapar við Baldur, en það kom ekki í veg fyrir að hann kom ítrekað á skrifstofu annarra hæstaréttardómara og reyndi að sannfæra þá um að sýkna vin hans. Hann afhenti dómurunum skjal með rökstuðningi fyrir sýknu vinar síns. Jón Steinar hefur gleymt allri aðkomu sinni að málinu, eins og gjarnan hendir.
Sjálfsvernd klíkunnar
Svona atvikaðist þetta:
1. Klíkumeðlimur B er skipaður í Hæstarétt á kostnað annarra hæfari
2. Klíkumeðlimur C fremur innherjasvik þegar hann selur persónuleg hlutabréf upp á 192 milljónir króna eftir að hafa fengið innherjaupplýsingar í krafti stöðu sinnar sem ráðuneytisstjóri í ráðuneyti undir forræði klíkunnar.
3. Klíkumeðlimur A, sem var forsætisráðherra en nú ritstjóri stærstu ritstjórnar landsins, skrifar um að rannsóknin á innherjasvikum klíkumeðlims C sé „grátleg“.
4. Klíkumeðlimur B beitir sér innan æðsta dómsvalds landsins til þess að koma í veg fyrir að klíkumeðlimi C sé refsað fyrir að hafa notfært sér persónulega aðstöðu sína sem hann naut í krafti starfs fyrir hönd almennings.

Formaður endurreisnarinnar seldi líka
Í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar henti ítrekað að menn væru skipaðir dómarar, fram yfir aðra hæfari, sem voru með tengsl við flokkinn eða hann. Meira að segja sonur Davíðs var tekinn fram yfir aðra og gerður dómari. Líka frændi hans.
Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sem átti að stýra uppbyggingu og endurmati flokksins, seldi einnig hlutabréfin sín eftir að hafa komið að málefnum bankans sem hann átti viðskipti með í krafti stöðu sinnar. Það sem fór fram á milli hans og bankastjóra Glitnis er ekki vitað, að öðru leyti en að ríkisstjórnin taldi þá, án þess að látið hefði verið uppi um það, að leita þyrfti lausna á vanda bankans. Fundur Bjarna Benediktssonar með Lárusi Welding bankastjóra var beinlínis haldinn undir þeim formerkjum að leiða í ljós „með hvaða hætti ríkisstjórnin getur komið að lausn vanda bankanna“, vanda sem var ekki þekktur með sama hætti í opinberri umræðu.
Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins beitti sér sérstaklega fyrir því að komast í aðstöðu sem kjörinn fulltrúi þar sem hann gæti fengið innherjaupplýsingar. Hann hefur ítrekað sagt ósatt í tengslum við umfjöllun þeirra mála og beitt óheiðarlegum aðferðum til að grafa undan trúverðugleika þeirra sem fjölluðu um mál hans.
Klíkumeðlimur A skrifaði harðorðan leiðara í blaðið sem hann ritstýrir vegna málsins. Hörðu orðin beindust ekki að viðskiptunum eða viðskiptasiðferðinu, eða stjórnmálasiðferðinu, eða mismunun fjárfesta á markaði, heldur fjallaði leiðarinn um að þeir fjölmiðlar sem fjölluðu um viðskiptin væru „sorprit“ sem gerðu „árásir“ á formann Sjálfstæðisflokksins.
Og Hæstiréttur framdi „dómsmorð“ á klíkumeðlimi C, samkvæmt klíkumeðlimi B.
Því klíkan ver sig ekki bara með því að sjá um sig og sína, heldur þarf hún að skjóta niður þá sem vinna ekki með henni.
Þetta eru bara brot af ástæðunni fyrir því að nýr stjórnmálaflokkur, eins og Píratar, og eldri flokkur eins og Samfylkingin, telja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi ekki að fara með völd. Þetta er líka ástæðan fyrir því að Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, skrifaði kjósendum bréf, þar sem hann skoraði á þá að gera uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn og stjórnarhætti hans - og kjósa Vinstri græn í staðinn: „Okkur gefst nú einstakt tækifæri til að sýna í verki hver skoðun okkar er á stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur meira eða minna haldið um valdataumana síðustu áratugi og skapað þá menningu samtryggingar og leyndarhyggju sem við getum nú gengið á hólm við.“
Athugasemdir