Dómsmálaráðuneytið hefur enn ekki orðið við beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um að afhenda nefndinni öll gögn í málum Róberts Downey og Hjalta Sigurjóns Haukssonar, kynferðisbrotamanna sem fengu uppreist æru í fyrra.
Upplýsingabeiðnin var send þann 20. október síðastliðinn á grundvelli 51. gr. þingskaparlaga. Samkvæmt ákvæðinu ber stjórnvaldi að verða við beiðni fastanefndar á Alþingi „eins skjótt og unnt er og eigi síðar en sjö dögum frá móttöku beiðninnar“. Enn hefur ekkert svar borist þótt liðnir séu 16 virkir dagar síðan beiðnin var send.
Farið var fram á öll gögn, minnisblöð og önnur skjöl sem tilgreind eru á lista yfir málsgögn í málum Róberts Downey, Hjalta Sigurjóns Haukssonar og mannsins sem dró umsókn sína um uppreist æru til baka eftir að dómsmálaráðherra hafði látið málið liggja óafgreitt um nokkurra vikna skeið.
Jafnframt var farið fram á öll tiltök gögn er varða ákvörðun dómsmálaráðherra um að veita ekki fleiri einstaklingum uppreist æru og öll gögn um ákvörðun dómsmálaráðherra um að hefja endurskoðun á lögum um uppreist æru.
Loks var óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun ráðherra að fylgja ekki reglum um skráningu samskipta í Stjórnarráði Íslands nr. 320/2016 þegar hún upplýsti Bjarna Benediktsson símleiðis um meðmæli föður hans fyrir kynferðisbrotamanninn Hjalta Sigurjón Hauksson.
„Ég er gáttuð á því að ráðuneytið skuli ekki afhenda þingnefndinni umbeðin gögn. Þetta er til marks um að leyndarhyggja sé enn við lýði í dómsmálaráðuneytinu þrátt fyrir að fráfarandi ríkisstjórn hafi verið felld í kosningum og nýtt Alþingi sé að taka við,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, í samtali við Stundina.
Beiðnin var send að frumkvæði hennar með stuðningi Svandísar Svavarsdóttur, þingkonu Vinstri grænna, og Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata. „Auðvitað er það áhyggjuefni ef dómsmálaráðuneytið telur sér ekki skylt að fylgja lögum og fer í kringum þau í aðdraganda kosninga og meðan stjórnarmyndunarviðræður standa yfir,“ segir Þórhildur.
Athugasemdir