Íslendingar tala íslensku. Þeir lesa texta sem skrifaður var fyrir þúsund árum eða svo, njóta hans og skilja hann. Þegar þá vantar ný orð og hugtök ganga þeir í fjársjóð þessa gamla tungumáls og smíða upp úr honum nothæf nýyrði.
Þetta segjum við með stolti við erlenda gesti og uppskerum aðdáun og virðingu. Við hrósum okkur líka af því að gefa út flestar bækur í heimi miðað við höfðatölu og segjum að hér fái nánast hvert mannsbarn bók í jólagjöf. Þetta hefur svosem allt verið satt og rétt, svona um það bil. En það er ekki þar með sagt að það verði alltaf svona.
Ástæðan fyrir því að íslenskan hefur lítið breyst í tímans rás er ekki bara einangrunin hér úti í reginhafi, heldur ekki síður það að hér fór fólk óvenju snemma að skrifa á móðurmáli sínu og að lestrarkunnátta varð almenn. Ritmálið er límið sem hélt tungumálinu saman. Ritmál er flóknara og fjölbreyttara en talmál og í því býr bæði formfesta og sköpunarkraftur. Sem talmál gæti íslenskan lifað um hríð og nýst til hversdaglegra samskipta, en hún dygði lítt til flókins rökstuðnings, heimspekilegra pælinga eða skáldlegs hugarflugs. Ef við hættum að lesa og skrifa á íslensku eru dagar hennar taldir.
Dauði tungumáls er ekkert einsdæmi. Fjöldi tungumála hverfur á hverju ári. Þau eru langflest talmál sem fáir kunna og því deyja þau þegar notendurnir þagna. En við höfum val. Við getum valið að láta íslenskuna lifa og meira að segja að láta hana eflast og dafna. En við þurfum að fara að ákveða hvort við nennum að gera eitthvað í málinu.
Æi, er þetta nú ekki bara eintómt svartagallsraus? spyr lesandi sig eflaust. Er ekki allt í sóma og blóma? Börnin ganga jú í skóla og læra að lesa á samviskusamlega prófuðum, skráðum og skilgreindum hraða. Þetta hlýtur að vera allt önder kontról, eða hvað?
Einu sinni var vissulega oft nóg að kenna börnunum tæknina við að breyta táknum á blaði í hljóð og orð. Svo fóru þau bara að lesa. Það var einfaldlega ekki margt annað sem stóð til boða þegar ekki viðraði til útiveru. Þau höfðu tíma og þau skildu orðin sem þau lásu, orðin sem veittu þeim skemmtun, spennu, tilbreytingu. Það þarf ekki að fjölyrða um breytta tíma hvað afþreyingarmöguleikana snertir. En málskilningurinn er líka á undanhaldi. Við heyrum af börnum sem kunna ekki að nefna litina á íslensku við upphaf skólagöngu og börnum sem frekar kjósa ensku en móðurmálið í samskiptum sín á milli.
„Ef okkur er annt um að halda lífi í íslensku máli þurfum við því að lesa fyrir börn og fá þau til að lesa.“
En er ekki bara fínt hvað krakkarnir eru orðin klár í ensku? má þá spyrja. Rannsóknir sýna að góður grunnur í móðurmálinu er undirstaða alls tungumálanáms. Kunnátta í nýju tungumáli verður varla meiri eða dýpri en kunnátta í fyrsta málinu. Það tungumál sem numið er í fangi foreldranna liggur líka nær hjartastað en orðin sem lærast af skjánum, því tungumál er svo miklu meira en bara merking orða.
Þeir sem læra ekki að meta bóklestur á barnsaldri lesa sjaldnast mikið á fullorðinsaldri. Ef okkur er annt um að halda lífi í íslensku máli þurfum við því að lesa fyrir börn og fá þau til að lesa. Til þess að svo megi verða þarf að skrifa og gefa út bækur. Fullt, fullt af alls konar bókum. Bókum sem eru svo spennandi og skemmtilegar að það er ómaksins virði að lesa þær; sem eru betri en það sem skjárinn býður upp á með minni fyrirhöfn. En barnabókaútgáfa á Íslandi er á hröðu undanhaldi nú þegar hún ætti að vera helsta vopn tungumálsins.
Eru þá einhverjar leiðir færar til að snúa vörn í sókn? Jú, vissulega. Vonandi verður eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að setja virðisaukaskatt af bókum niður í núllið og stuðla þannig að lækkun bókaverðs. En það má gera ýmislegt fleira. Það lifir enginn íslenskur rithöfundur af því að skrifa fyrir börn. Sérmerkja mætti hluta starfslauna barna- og unglingabókahöfundum til að létta þeim róðurinn sem vilja helga sig þessu starfi. Yfirvöld gætu líka farið að fyrirmynd Norðmanna og keypt ákveðinn eintakafjölda af nýjum íslenskum barna- og unglingabókum og dreift til bókasafna. Allt þetta gæti orðið til þess að fjölga útgáfu barnabóka á ný og halda góðum höfundum við efnið.
Bætt og aukið aðgengi að góðum barnabókum er brýn nauðsyn. Það er líka nauðsynlegt að breyta áherslum í læsismálum í skólakerfinu. Tæknin er ekki það eina sem til þarf, því það er hægt að lesa hátt og skýrt á ljóshraða án þess að skilja baun eða tengja sig við lesefnið á nokkurn hátt. Lestur þarf að hafa tilgang og vera skemmtilegur. Ég er ekki í vafa um að bætt menntun bæði kennaranema og starfandi kennara varðandi skapandi notkun barnabóka í kennslu myndi auka lestrargleði barnanna okkar og málskilning. Efling skólasafnanna er líka mjög áhrifarík leið til úrbóta. Vonandi mun nýr menntamálaráðherra halda vel á málum hvað þetta varðar.
Úrbæturnar sem ég nefndi kosta peninga og eru á valdi þeirra sem halda um budduna fyrir okkur öll. Stjórnmálamenn, sem gjarnan mæra íslenskan menningararf og tungu í ræðum sínum, eru oft tregir til að leggja aurana á borðið þegar kemur að menntun og menningu. En hver þeirra myndi vilja kannast við að vera sama um afdrif íslenskrar tungu? Fyrsta skrefið er að horfast í augu við þá staðreynd að við þurfum að gera eitthvað í málinu áður en það er um seinan. Við þurfum líka, hvert og eitt, að líta í eigin barm. Væri ekki ráð að slökkva aðeins oftar á snjalltækjunum og taka sér bók í hönd, lesa fyrir börnin og með þeim, ræða saman um orðin og innihaldið, hlæja svolítið, gráta jafnvel aðeins og undrast hvernig orð á blaði getur flutt okkur í nýja heima? Lestur er nefnilega málið ...
Athugasemdir