Kannanir um fylgi flokka í þeim pólitísku átökum sem nú eiga sér stað á Íslandi eru alvörumál því þær eru bæði skoðanamyndandi og hafa mikil áhrif á þá sem kjósa taktíst, til dæmis eftir því fylgi sem þær spá flokkum og/eða blokkum.
Ábyrgð könnunaraðilanna er því mikil og algert lykilatriði að greinargóðar upplýsingar fylgi niðurstöðum kannana sem birtar eru opinberlega hvað varðar aðferð við gagnasöfnun, hvernig úrtökin eru valin og hvernig er spurt.
Svarhlutfall (þátttökuhlutfall) skiptir miklu máli og hvernig svörin skiptast nákvæmlega - ekki bara á flokka - heldur einnig hversu margir vilja ekki gefa upp afstöðu til flokka. Hver er fjöldi óákveðinna og auðvitað hvernig sjálfar spurningarnar eru bornar upp - því oftast er þráspurt um Sjálfstæðisflokkinn - og mikilvægt að geta borið saman hvernig það er gert eða ekki gert í mismunandi könnunum.
Á þessu er töluverður misbrestur en það er okkar sem fylgjumst með að krefjast svara sem auðveldar samanburð á niðurstöðum kannana svo hægt sé að draga af þeim raunhæfar ályktanir.
Það hlýtur að vera áhugaverðast í yfirstandandi kosningabaráttu að skoða fylgi Miðflokksins í niðurstöðum kannana frá MMR og Félagsvísindastofnun sem birtar voru síðastliðinn fimmtudag og laugardag. Niðurstöður Þjóðarpúlsins sem líka komu á laugardag eru „old news“, frá 15. september (til 28. september). Þjóðarpúlsinn er gæðakönnun en mælir ekki skammtímasveiflur í fylgi flokka en er fínn baksýnisspegill, sem hægt er að nota þegar pælt er í þróun mála í stórum dráttum eftir á, eins og til dæmis um næstu áramót eða svo.
Flestir virðast misskilja tímasetningarnar á þessum tveimur könnunum því MMR könnunin er nefnilega nýrri! Hún er gerð 26. - 28. september, - en sú „nýja“ frá Félagsvísindastofnun 25. - 28. september - þannig að þar vigta svör frá 25. september töluvert, en það var daginn eftir að Sigmundur Davíð lýsti yfir framboði og rétt byrjaður að stimpla sig inn í alvöru.
Við skulum samt hafa í huga að MMR setur sínar niðurstöður á netið strax kl. 15.35 þann 28. september, þannig það eykur muninn á tímasetningunum lítillega. Sigmundur var í Kastljósinu um kvöldið 28.september, en Félagsvísindastofnun hefur varla fengið nema lítið brot, ef nokkuð, af svörunum, seinna það kvöld. Munurinn á þessum tveimur könnunum liggur í tímasetningu þeirra, þar sem könnunardagur Félagsvísindastofnunnar þann 25. september vegur að öllum líkindum þyngst í að niðurstöðurnar eru mismunandi.
Staðan nú er mjög óviss og enginn raunhæfur samanburður til sem hægt er nota til að lesa úr þróun á fylgi flokka milli einhverra tveggja eða fleiri kannana eins og oftast, því Miðflokkurinn hefur hrist verulega upp í fylginu. Þessi „nýja“ könnun frá Félagsvísindastofnun er ekki samanburðarhæf við þá sem stofnunin gerði dagana 19. - 21. september, þrátt fyrir að aðferðin sé sú sama, því þá var enginn Miðflokkur.
MMR og Félagsvísindastofnun beita mismunandi aðferðum við framkvæmd nýju kannananna, sem er nýjung – því oftast standa kannanir beggja fyrirtækjanna yfir í sjö daga og eingöngu gerðar í viðhorfshópum, sem byggðir eru upp með eins eða mjög áþekkum aðferðum. Þannig ef tímasetningar kannana frá þessum fyrirtækjum eru á svipuðu róli og báðar gerðar í panel væri mjög einnkennilegt ef niðurstöðurnar væru ólíkar.
„Ábyrgð könnunaraðilanna er því mikil og algert lykilatriði að greinargóðar upplýsingar fylgi niðurstöðum kannana.“
MMR könnunin nú - er eins og venjulega - eingöngu gerð með tölvusamskiptum - en nú á þremur dögum (eða nánar tiltekið 2,5) í stað sjö.
Félagsvísindastofnun gerir sína könnun á fjórum dögum en notar bæði síma og net við öflun svara og er úrtaknu skipt í tvennt - þannig að 1000 manns eru spurðir á netinu og úrtakið valið úr viðhorfshópnum þeirra og 1000 manns spurðir í síma og úrtakið handahófsvalið úr Þjóðskrá. Svarhlutfallið (þátttökuhlutfallið) í símahluta kannanarinnar er uppgefið sem 41,3 prósent, eða 413 svarendur, sem er fremur slappt (Fréttablaðið nær oftast 60-65 prósent svarshlutfalli í símakönnunum) og 53,9 prósent á netinu sem eru 539 svarendur og samtals byggir því könnunin á 952 svörum. Hversu margir voru óvissir eða vildu ekki gefa upp afstöðu er sundurliðað sem heild en ekki eftir þátttöku í síma eða netkönnun. Ef til dæmis 15 prósent aðspurðra í símahlutanum er óviss og önnur 15 prósent gefa ekki upp afstöðu (hvortveggja algengt í símakönnun) og svarhlutfall eins og áður sagði einungis 41 prósent er þessi hluti kannaninnar töluvert gallaður. Auðvitað eiga þessar upplýsingar að vera aðgengilegar þannig að ekki þurfi að beita getgátum.
MMR byggir á 1012 svörum en gefur ekki upp hvað mörgum (úrtaksstærð) var boðin þátttaka, þannig að svarshlutfallið er óþekkt og aftur þarf að giska. Sennilega er það nálægt þessum 53 prósentum sem Félagsvísndastofnun fékk í nethluta sinnar könnunar. Til samanburðar má nefna að svarhlutfall upp á 65 prósent er algengt í sjö daga netkönnunum.
MMR er að mínu mati nær stöðunni í dag - en við verðum að bíða átektar - því við höfum ennþá ekki séð áhrifin af komu Sigmundar í Kastljós og öðru kynnigarstarfi hans síðustu daga, né viðbrögð þeirra sem hingað til hafa ætlað að kjósa Bjarta framtíð eða Viðreisn en hljóta að hugsa sinn gang og meta hvort þeir taki áhættuna á að sóa sínum athvæðum - en það eru einmitt áhrif kannana á þann hóp sem gera þær svo veigamiklar og setja mikla ábyrgð í hendur framkvæmdaaðila þeirra.
Hér fylgja spurningarnar úr könnununum og skipting þeirra sem ekki taka afstöðu til flokka í þeim báðum:
Svona spyr MMR:
„Lagðar voru allt að þrjár spurningar fyrir svarendur um stuðning þeirra við stjórnmálaflokka. Allir voru spurðir spurningar 1: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. Þeir sem svöruðu „Veit ekki/óákveðin(n)“ við spurningu 1 voru því næst spurðir spurningar 2: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“. Ef aftur var svarað „Veit ekki/óákveðin(n)“ þá voru þátttakendur að lokum spurðir spurningar 3: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“. Fjölda þeirra sem svaraði „einhvern hinna“ í spurningu 3 var skipt milli annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins í sama hlutfalli og fylgi þeirra var samkvæmt spurningum 1 og 2.“
Hér er MMR til fyrimyndar og lýsir nákvæmlega hvernig unnið er úr spurningunum.
Svona spyr Félagsvísindastofnun:
„Sameinaðar niðurstöður úr fjórum kosningaspurningum: Ef gengið yrði til kosninga í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? En hvaða flokk eða lista finnst þér líklegast að þú munir kjósa? En hvort heldurðu að sé líklegra, að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk eða lista? Og hvaða flokk eða lista kaust þú utankjörfundar í Alþingiskosningunum sem haldnar eru á þessu ári?“
Grunnspurningarnar eru eins, enda þessi þráspurningaraðferð ættuð úr HÍ.
Öfugt við MMR segir Félagsvísindastofnun ekkert um hvernig þeir fara með svörin, en hafa sennilega sama hátt á og MMR hvað varðar fyrstu þrjár spurningarnar. En fjórða spurningin? Hvernig er hún vigtuð? Það er ekki gefið upp, sem er bagalegt því í kosningasjónvarpi er alltaf spenningur þegar utankjörstaðaatkvæðin eru talin vegna þess að þau falla oftast öðruvísi en kjörstaðatkvæðin.
Hér fylgir tafla yfir hvernig þeir sem taka ekki afstöðu skiptast í báðum könnunum:
Samanlagður fjöldi þeirra sem er óákveðinn og þeirra sem vilja ekki svara er samanlagður mjög svipaður í báðum könnununum, en það sem vekur athygli er að fjöldi óákveðinna er minni hjá Félagsvísindastofnun en hjá MMR sem er ótrúverðugt því Félagsvísindastofnun fær næstum helming svaranna úr símahlutanum, en í úthringi könnunum er fjöldi óákveðinna alltaf meiri en í netkönnunum í viðhorfshópi.
Skýringin er fólgin í því sem þeir orða svona á heimasíðu sinni:
„Niðurstöður þessarar könnunar voru vigtaðar eftir gagnaöflunarleið, til þess að svör í síma vegi jafn þungt og þau sem bárust á netinu.“
Enn og aftur vantar upplýsingar, hvernig þetta er vigtað – sem er lykilatriði.
Niðurstaða þessara athugana er að Félagsvísindsstofnun þarf að bæta töluvert úr sinni upplýsingagjöf varðandi pólitískar kannanir og taka sér MMR til fyrirmyndar, en MMR skuldar okkur samt svarhlutfallið í sinni síðustu könnun.
MMR lýsir því yfir að þeir vinni samkvæmt siðareglum ESOMAR en þær taka líka til þess hvernig niðurstöður kannana eru framsettar og birtar. Félagsvísindastofnun gerir það ekki.
Athugasemdir