„Þegar spurðist út að við værum að selja Baulu fékk ég stundum viðbrögð frá fólki sem spurði: „Hvað um okkur?“ Þetta kom mér skemmtilega á óvart. Ég hafði aldrei hugsað út í það að einhver kynni að sakna okkar svona mikið,“ segir Kristberg Jónsson, veitingamaður í Baulu í Borgarfirði, sem hefur ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu Tómasdóttur, selt reksturinn og er hættur á langri vakt við Þjóðveg 1.
Kristberg, eða Kibbi í Baulu, hefur staðið vaktina við þjóðveginn í 18 ár. Hann þykir einstaklega litríkur og hafa spunnist um hann fjölmargar sögur, bæði sannar og ýktar. Hann er þéttur á velli og tattóveraður á handleggjunum. Ekki árennilegur, myndi einhver segja. En undir tattúinu og hörðum skrápnum leynist, að sögn þeirra sem best þekkja, hjarta úr gulli. Kibbi er maður sem segir hug sinn umbúðalaust og bregður þá sumum í brún. En það er gjarnan stutt í hláturinn og gleðina.
Athugasemdir