Fyndið hvað maður gerir sér stundum undarlega mynd af sjálfum sér.
Að ég segi ekki kolvitlausa.
Áðan var ég úti að hjóla í Nörrebro, sem mér sýnist að sé mitt hverfi hér í Kaupmannahöfn.
Svo fór mig að langa í sterkt kaffi og fór að svipast um eftir krá eða kaffihúsi til að setjast inn á svolitla stund.
Í hálfgerðu bakhverfi hjólaði ég fram á stað sem greinilega var einhvers konar stúdentakaffi.
Inni var hávær músík, þarna var fullt af ungu fólki og margir sátu við borð úti á gangstétt.
Og stúdentarnir voru eins og stúdentar eiga að vera: Frjálslegir í fasi og klæðum, glaðlegir að sjá og forvitnir, málgefnir og með eitt gramm af ungæðishroka í svipnum.
Staður við mitt hæfi, hugsaði ég kátur, steig af appelsínugula reiðhjólinu mínu og ætlaði inn.
En þá rann allt í einu upp fyrir mér að allt þetta glaða unga fólk var svona 30 og uppí 40 árum yngra en ég.
Af hverju átti ég að fara að þvælast á þeirra stað?
Væri mér ekki nær að fara bara á gömlu dansana? hugsaði ég nú strangur með sjálfum mér.
Appelsínugula reiðhjólið hjólaði burt.
Niðrá Kolatorgi voru reyndar gömlu dansarnir í gangi, eins og sjá má af myndinni hér efst.
Ég skellti mér samt ekki í dansinn.
Athugasemdir