Evrópusambandið reynir að taka forystu í alþjóðaviðskiptum

„Móð­ir allra fríversl­un­ar­samn­inga,“ seg­ir Modi, for­sæt­is­ráð­herra Ind­lands, um nýj­an fríversl­un­ar­samn­ing við ESB, sem reyn­ir líka að koma á fríversl­un við Suð­ur-Am­er­íku, til að mæta vopn­væð­ingu Banda­ríkj­anna á við­skipt­um.

Evrópusambandið reynir að taka forystu í alþjóðaviðskiptum
Fulltrúar tveggja milljarða manna Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, fagna sögulegum fríverslunarsamningi í „hættulegri heimi“. Mynd: X / Ursula von der Leyen

Stórt skref var tekið í dag í tilraunum Evrópusambandsins (ESB) til að kúpla sig frá Bandaríkjunum og minnka berskjöldun gagnvart Kína, í kjölfarið á vopnvæðingu Donalds Trump Bandaríkjaforseta á tollum og vaxandi yfirburða Kína í iðnframleiðslu.

Evrópusambandið kynnti í dag nýjan fríverslunarsamning við Indland sem hefur verið 20 ár í vinnslu. Það gerist nokkrum dögum eftir að samkomulag náðist um fríverslunarsamning við Suður-Ameríkuríki, svokallaðan Mercosur-samning, sem Evrópuþingið tók síðan afstöðu gegn með því að vísa honum fyrir Evrópudómstólinn, með þeim afleiðingum að hann frestast líklega um marga mánuði eða jafnvel ár.

Búist er við tvöföldun útflutnings ESB til Indlands vegna samningsins.

Samningur við Suður-Ameríku frystur

Evrópusambandinu hefur verið legið á hálsi að vera svifaseint og þar af leiðandi máttlítið vegna regluverks og valddreifingar, sem tryggja á áhrif meðlimaríkjanna, á meðan Kína og Bandaríkin geta hreyft sig hratt og beitt áhrifum sínum hindrunarlítið vegna valdasamþjöppunar.

Vendingar í alþjóðaviðskiptum virtust hafa breytt þessu, þegar ESB náði að loka samningum við Mercosur-ríkin eftir 25 ára viðræður í síðustu viku. „Við völdum fríverslun fram yfir tolla, við völdum ábatasamt samstarf fram yfir einangrun,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, af því tilefni.

Forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Antonio Costa, vísaði þá beint til þess að þetta væri svar við því að „viðskipti væru notuð sem alþjóðlegt vopn“. Hann sagði samninginn „skilaboð um vörn frjálsra viðskipta, byggðra á reglum, um fjölhliða nálgun og alþjóðalög sem grundvöll samskipta milli ríkja og svæða.“

Samningurinn við Indland

Indland og Evrópusambandið tilkynntu í dag um „samning aldarinnar“, gríðarstóran viðskiptasamning sem skapar tveggja milljarða manna markað, eftir tveggja áratuga samningaviðræður.

Leiðtogar ESB og Narendra Modi forsætisráðherra vonast til að samningurinn muni verja þá gegn áskorunum frá tveimur stærstu hagkerfum heims, Bandaríkjunum og Kína. Modi kallaði samninginn „móður allra fríverslunarsamninga“.

Samningurinn mun lækka eða fella niður tolla á næstum 97 prósent af evrópskum útflutningi, sem sparar allt að 4 milljarða evra (4,75 milljarða dala) árlega í tollum, að sögn sambandsins sem telur 27 ríki.

„Samningur aldarinnar,“ sagði Modi í höfuðborginni Nýju Delí, þar sem hann hitti Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Antonio Costa, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins.

„Þessi samningur mun færa 1,4 milljörðum Indverja og mörgum milljónum íbúa ESB fjölmörg tækifæri,“ sagði Modi og bætti við að samningurinn „stæði fyrir um 25 prósent af vergri landsframleiðslu heimsins og þriðjungi af heimsviðskiptum“.

Indland framtíðarmarkaður

ESB hefur litið á Indland – fjölmennasta ríki heims – sem mikilvægan framtíðarmarkað.

„Evrópa og Indland skrifa söguna í dag,“ sagði von der Leyen í yfirlýsingu, degi eftir að hún og Costa voru heiðursgestir á lýðveldisdagshátíð Indlands.

„Við höfum skapað fríverslunarsvæði tveggja milljarða manna, þar sem báðir aðilar munu hagnast.“

Ísland er nú þegar með fríverslunarsamning við Indland í gegnum EFTA, sem Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, undirritaði fyrir hönd Íslands 10. mars 2024. Samningurinn tryggir „fullt tollfrelsi eða umtalsverða tollalækkun“ fyrir helstu útflutningsvörur Íslands, en í innflutningi er „að stærstum hluta um að ræða landbúnaðarafurðir sem ekki eru framleiddar á Íslandi, svo sem ýmsar tegundir grænmetis, kornmetis, matarolíu, bauna, sælgætis og drykkjarvara.“ 

„Sífellt óöruggari heimur“ 

Embættismenn ESB sögðu samninginn vera þann metnaðarfyllsta sem Indland hefði nokkru sinni gert og að evrópsk fyrirtæki myndu njóta góðs af svokölluðu „frumkvöðlaforskoti“.

Lykilgreinar Evrópu í landbúnaði, bílaiðnaði og þjónustu munu hagnast, að þeirra sögn.

Kjósa
7
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár