Ég ákvað bara í morgun að koma með börnin hingað,“ segir fylgdarkona leikskólabarna sem eru fyrst á flugvöllinn í Nuuk til að bíða komu Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra grænlensku landstjórnarinnar, ásamt fjölda alþjóðlegra blaðamanna. Börnin bíða spennt í umferðarvestum og sum með fána meðan blaðamenn frá öllum heimshornum stilla upp upptökuvélum og fylgjast með komu flugvélarinnar frá Kaupmannahöfn. Smám saman tínist inn fleira og fleira fólk, allt þar til það er orðið stappað á flugvellinum. Blaðamenn og ljósmyndari Heimildarinnar eru á staðnum.
Líkt og kunnugt voru Motzfeldt og Lars Lykke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, fulltrúar Grænlands í síðustu viku á fundi í Washington ásamt varaforseta Bandaríkjanna, JD Vance og utanríkisráðherranum Marco Rubio, þar sem rætt var um Grænland vegna ásælni bandarískra yfirvalda.
En nú er Vivian að koma heim með dönsku vélinni, frá Bandaríkjunum og Brussel, líka búin að funda með varnarmálaráðherrum Norðurlandanna og framkvæmdastjóra Atlandshafsbandalagsins.
Vanmáttur einkennir fámennt samfélag í kastljósi alþjóðlegrar umræðu um framtíð landsins, óvissan er orðin daglegt brauð, sem er bæði óvænt og reynir á almenning. Því virðist fólki umhugað um að tjá þakklæti sitt.
„Ég er hér til að bjóða Vivian Motzfeldt velkomna,“ segir Helene Heime sem er alin upp á norður Grænlandi, grænlensk en með danskan ríkisborgararétt. Hún bíður á flugvellinum ásamt tveimur vinkonum sínum. Hún segist vera áhyggjufull, líkt og svo margir nú.
„Ég kom hingað til að sýna utanríkisráðherra okkar að við erum hér til staðar. Það er allt svo undarlegt sem er nú að gerast í kringum Grænland,” segir brosmild kona, Najak Halmen – ef nafnið er rétt stafað, hávaðinn á flugvellinum truflar upptökuna. Hún tekur fram að þau hafi aldrei upplifað eins mikla athygli og nú. „Við vitum ekkert hvað gerist næst en hún er að vinna gott starf.”




























Athugasemdir