Í land ásamt Írlandi, Lúxemborg, Möltu, Noregi, Slóveníu og Spáni hafa fordæmt nýjustu löggjöf Ísraels gegn Palestínuflóttamannaaðstoðinni, UNRWA, þar á meðal aðgerðir til að loka fyrir vatn, rafmagn og fjarskipti til starfsstöðva stofnunarinnar. Ísrael lagðist í slíkar aðgerðir á gamlársdag.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir: „Slíkar aðgerðir grafa undan umboði Sameinuðu þjóðanna, brjóta í bága við alþjóðalög og ganga gegn niðurstöðum Alþjóðadómstólsins, en hætta er á alvarlegum mannúðarlegum afleiðingum fyrir palestínska borgara og flóttamenn.“
Við skorum einnig á Ísrael að tryggja að alþjóðlegum frjálsum félagasamtökum verði áfram heimilt að starfa á Gaza og að öllum afskráningum verði hætt. Frjálsum félagasamtökum er verulegur hluti af allri mannúðarþjónustu og sérstaklega heilbrigðisþjónustu á Gaza og Vesturbakkanum.“

Þau segja starf SÞ, sér í lagi UNRWA, ásamt öðrum mannúðarstofnunum og frjálsum félagasamtökum, nauðsynlegt „til að takast á við hörmulegar mannúðaraðstæður og veita lífsnauðsynlega aðstoð og nauðsynlega þjónustu til borgara á Gaza, hernumdu palestínsku svæðunum og svæðinu í heild.“
Þá segir í tilkynningunni: „Við undirstrikum skylduna til að tryggja fulla, örugga og óhindraðan aðgang að mannúðaraðstoð og gera mannúðaraðgerðum Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðila þeirra kleift að halda áfram starfsemi sinni, í samræmi við mannúðarrétt og viðeigandi alþjóðlegar lagalegar skuldbindingar.
Virðing fyrir forréttindum og friðhelgi Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum mannúðarlögum er nauðsynleg.“
Fordæma landtökubyggðir
Er þetta þriðja yfirlýsing Íslands er varðar málefni Palestínu á tveimur vikum. Á jóladag birtist yfirlýsing sextán ríkja sem fordæma nítján fyrirhugaðar landnámsbyggðir á Vesturbakka.
Þar segir: „Við minnum á að slíkar einhliða aðgerðir, sem eru hluti af víðtækari hernaði landnemabyggðarstefnu á Vesturbakkanum, brjóta ekki aðeins gegn alþjóðalögum heldur geta einnig kynt undir óstöðugleika. Þær geta grafið undan framkvæmd heildrænu áætlunarinnar fyrir Gaza [e. Comprehensive Plan for Gaza] nú í kjölfar þeirrar viðleitni sem hefur ríkt til að komast á 2. áfanga [áætlunarinnar] og skaðað áform um langvarandi frið og öryggi á svæðinu.“
Í nýrri skýrslu segir mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna að „kerfisbundin mismunun“ gegn Palestínumönnum á hernumdu palestínsku svæðunum hafi „versnað verulega“ á undanförnum árum. Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur nú í fyrsta sinn lýst framferði Ísraela sem aðskilnaðarstefnu.
Þungar áhyggjur af borgurum
Í lok árs tók Ísland þátt í yfirlýsingu ellefu ríkja þar sem alvarlegum áhyggjum vegna alvarlegs mannúðarástands á Gaza var lýst yfir.
„Nú þegar vetur gengur í garð standa óbreyttir borgarar á Gaza frammi fyrir hræðilegum aðstæðum með mikilli úrkomu og lækkandi hitastigi. 1,3 milljónir manna þurfa enn á skjóli að halda. Meira en helmingur heilbrigðisstofnana er aðeins að hluta til starfhæfur og stendur frammi fyrir skorti á nauðsynlegum læknisbúnaði og vistum. Hreinlætisinnviðir hafa algjörlega hrunið og eru 740.000 manns því í viðkvæmri stöðu vegna eiturefnaflóða,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.














































Athugasemdir