Maðurinn sem stöðvaði hryðjuverkamann í miðri skotárás á gyðinga, sem fögnuðu jólahátíðinni hanukkah á Bondi Beach í Sydney, er 43 ára gamalla, tveggja barna faðir og múslimi.
Ahmed al Ahmed, sem rekur ávaxtabúð í Sutherland Shire í suðurhluta Sydney, er hylltur sem hetja eftir að hafa afvopnað einn árásarmannanna.
Árásin, sem átti sér stað um klukkan 18:47 að staðartíma í Archer Park við Bondi Beach, kostaði 16 manns lífið og átti sér stað meðan um þúsund manns héldu upp á fyrsta dag hanukkah-hátíðarinnar. Lögreglan í Nýja Suður-Wales rannsakar nú hvort þriðji árásarmaðurinn hafi einnig átt þátt í ódæðinu.
Hafði enga þjálfun í meðferð skotvopna
Myndskeið frá vettvangi sýnir Ahmed, klæddan í hvíta stuttermabol, hraða sér beint að einum árásarmanninum sem hélt á rifflinum og beindi honum að mannfjöldanum á ströndinni. Ahmed hendir sér á hann, tekur af honum vopnið og beinir því síðan að árásarmanninum sem hörfar í átt að brú þar sem annar skotárásarmaður var staðsettur.
Að sögn frænda hans, Mustafu, sem ræddi við ástralska fjölmiðla fyrir utan sjúkrahús í Sydney, hafði Ahmed enga reynslu af skotvopnum. „Hann var bara í heimsókn á Bondi þegar árásin hófst – hann ákvað að bregðast við,“ sagði Mustafa.
Ahmed hlaut skotsár á handlegg og hönd þegar annar árásarmaðurinn, staðsettur á brúnni, skaut í áttina að honum. Hann gekkst undir aðgerð að kvöldi sunnudags og er á batavegi. „Við vonum að hann verði í lagi,“ sagði Mustafa. „Hann er hetja, hundrað prósent.“
Netanyahu: „Múslimi bjargaði gyðingum“
Ísraelski forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu vísaði til hetjudáða Ahmeds á ríkisstjórnarfundi í dag.
„Við sáum verk hugrakkar manneskju – og í ljós kemur að það var múslimi, hugrakkur múslimi – sem stöðvaði einn þessara hryðjuverkamanna frá því að drepa saklausa gyðinga,“ sagði Netanyahu.
Hann bætti við að hann hefði varað ástralska starfsbróður sinn, Anthony Albanese, við því að stefna stjórnvalda þar í landi „kveikti elda gyðingahaturs“.
Hetjudáð sem snertir heim allan
Eftir að hafa tryggt að árásarmaðurinn væri afvopnaður lagði Ahmed riffilinn upp að tré og rétti hendur sínar upp – líklega til að sýna lögreglu og öðrum á vettvangi að hann væri ekki hluti af árásinni.
Hálfum sólarhring síðar streymdu þúsundir skilaboða á samfélagsmiðla þar sem Ahmed var hylltur fyrir hugrekki sitt. Margir lýstu honum sem manni sem „valdi að hlaupa ekki í burtu, heldur í átt að hættunni“.
Lögreglan staðfesti að einn árásarmannanna hefði verið skotinn til bana og annar væri lífshættulega særður. Rannsókn stendur enn yfir.
Ahmed al Ahmed liggur nú á sjúkrahúsi í Sydney, með skotsár á hönd.
Hann fékk meira að segja hrós frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem hrósaði manninum sem afvopnaði byssumanninn og sagðist bera „mikla virðingu“ fyrir honum, en Trump hefur boðað bann á innflutning fólks frá ýmsum múslimalöndum.
„Þetta var mjög, mjög hugrakkur maður, sem réðst beint á einn skotmannanna og bjargaði mörgum mannslífum,“ sagði bandaríski forsetinn og bætti við að maðurinn „er núna á spítala, nokkuð alvarlega særður.“
Anthony Albanese forsætisráðherra hyllti hann og aðra sem „hetjur“, líkt og Chris Minns, fylkisforsætisráðherra Nýja-Suður-Wales, fylkisins þar sem Bondi Beach er staðsett.
„Í allri þessari illsku, í allri þessari sorg, eru enn til dásamlegir, hugrakkir Ástralir sem eru reiðubúnir að hætta lífi sínu til að hjálpa ókunnugum,“ sagði Minns á blaðamannafundi í dag.









































Athugasemdir