Píratar í Reykjavík samþykktu á félagsfundi í dag að veita stjórn félagsins umboð til að hefja viðræður um sameiginlegt framboð til borgarstjórnar í kosningunum vorið 2026. Ákvörðunin var samþykkt einróma.
Í tilkynningu segir að markmiðið með viðræðunum sé að kanna grundvöll fyrir samstarf í komandi borgarstjórnarkosningum. Formaður Pírata, Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns, segir flokkinn hafa skýra sýn á framtíð borgarinnar.
„Píratar eru rödd mannréttinda, lýðræðis og grænnar borgar. Við höfum gjörbylt þjónustu borgarinnar við íbúa og fært hana inn í nútímann svo eftir er tekið á alþjóðavísu. Við höfum framtíðina ávallt að leiðarljósi og ég er bæði spennt og fyllt vonar til þessara næstu skrefa í sögu Pírata í Reykjavík,“ segir hán.
Ekki kemur fram í tilkynningunni við hvaða aðila Píratar hyggjast ræða um sameiginlegt framboð, né hvenær viðræður hefjast. Líklegt verður þó að teljast að það sé Vor til vinstri, nýtt framboð Sönnu Magdalenu Mörtudóttur sem situr í borgarstjórn fyrir Sósíalistaflokk Íslands. Hún kallaði eftir samtali við aðra flokka þegar hún kynnti nýja framboðið.









































Athugasemdir