Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, mun ekki bjóða sig aftur fram til formanns á næsta landsfundi flokksins sem verður haldinn á næsta ári. Hún segir ákvörðunina persónulega og að hún hafi tekið hana „af yfirvegun eftir samtöl og umhugsun.“
Þessu greinir hún frá í færslu á Facebook.
„Síðustu tuttugu ár hef ég helgað líf mitt stjórnmálum og baráttunni fyrir betra og réttlátara samfélagi. Sú barátta heldur áfram. Það hafa verið forréttindi að starfa í þágu almennings og fá að vera í framlínu stjórnmálanna allan þennan tíma,“ skrifar hún.
Svandís segir hafa fulla trú á hlutverki Vinstri grænna. „Og mun leggja mitt af mörkum til að rödd hreyfingarinnar heyrist skýrt í komandi kosningum. Mannúð, réttlæti og ábyrgð gagnvart náttúrunni hafa aldrei verið brýnni.“
Svandís var kjörin formaður Vinstri grænna á landsfundi í október 2024 og tók hún við af Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra. Flokkurinn datt út af þingi í alþingiskosningunum fyrir rétt rúmu ári og mælist enn utan þings.











































Athugasemdir