„Ég býð því öllu félagshyggjufólki til fundar á nýju ári,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi í nýju myndbandi. Sanna, sem hefur verið fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, boðar nú nýtt félagshyggjuframboð fyrir komandi borgarstjórnarkosningar 16. maí. Hún ætlar þó að halda áfram að vera félagi í Sósíalistaflokki Íslands og bíður í von um nýja stjórn.
Framboð Sönnu heitir Vor til vinstri. Hún listar upp helstu mál á nýrri vefsíðu sinni. Þar segir hún að heimili fólks hafi verið markaðsvætt, sjálfsögð þjónusta við fólk of dýr og það þurfi „borg sem er einföld, þægileg og ódýrari fyrir okkur öll“.
Sanna vill leggja útsvar á fjármagnstekjur, en sem stendur eru þær eingöngu skattlagðar með 22% fjármagnstekjuskatti sem rennur í ríkissjóð. „Það gengur ekki að þau tekjuhæstu og ríkustu greiði nánast ekkert til nærsamfélagsins. Þetta grefur undan getu borgarinnar til að veita öfluga þjónustu og bæta lífsgæði,“ segir Sanna.
Ný könnun Maskínu sýndi að af öllum borgarfulltrúum þótti fólki Sanna standa sig best. Þrátt fyrir það hefur orðið rof milli hennar og flokks hennar, Sósíalistaflokks Íslands. Eftir að Sanna varpaði vafa á hvort hún myndi bjóða sig fram fyrir annað framboð sendi framkvæmdastjórn flokksins frá sér yfirlýsingu um að hún ætti að yfirgefa hann.
„Ég starfa fyrir grasrótina og fólkið í borginni,“ segir Sanna og situr sem fastast í flokknum. „Þess vegna ætla ég ekki að segja mig úr flokknum, þrátt fyrir þrýsting frá nýrri stjórn. Ég trúi því að á næsta aðalfundi taki fólk við stjórn sem hefur skýra sýn, heiðarleika og stuðning meirihluta félaga.“
„Getum við lagt flokkana aðeins til hliðar?“ spyr Sanna í framboðsmyndbandinu.
„Ný stjórn hefur skapað óvissu og togstreitu meðal félaga, bæði innan sem utan flokks. Fjöldi fólks hefur áhyggjur af því hvert flokkurinn stefnir. Ég skil þær áhyggjur mjög vel. En ég er sannfærð um að þessi tímabundna óvissa verði stuttur kafli í sögu flokksins,“ segir Sanna á nýrri framboðssíðu sinni, Vor til vinstri.
Því virðist ekki verða af þeirri hugmynd að Sanna sameinist með Vinstri grænum og Pírötum um vinstra framboð í borginni.











































Athugasemdir