Greiða átti atkvæði um tillögu stjórnarformanns á fundi stjórnar RÚV þess efnis að Ísland yrði ekki með í Eurovision. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri upplýsti hins vegar stjórnina á fundinum að framkvæmdastjórn hefði ákveðið í gær að taka ekki þátt í keppninni á næsta ári. Tillaga stjórnar var því óþörf.
Ísland er fimmta landið til að ákveða að sniðganga Eurovision sem mun fara fram í Vín í Austurríki á næsta ári.
„Einfaldlega út af því að það er enginn friður eða gleði í tengslum við þessa keppni eins og staðan er núna,“ sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri við blaðamenn að loknum fundi stjórnar. Á þeirri forsendu hafi verðið ákveðið að draga sig í hlé. Að hans sögn tók stjórn RÚV því vel.
„Fyrir mína hönd segi ég: Til hamingju Ísland,“ sagði Stefán Jón Hafstein, stjórnarformaður RÚV, að fundinum loknum. Að hans mati væri niðurstaðan farsæl.
Dagskrárlegar forsendur
Útvarpsstjóri skýrði að ákvörðunin hefið verið tekin á dagskrárlegum forsendum. Þegar viðburður vekur ekki gleði og sameinar ekki þjóðina lengur sé ástæða til að hugsa sinn gang. „Það er augljóst að þessi keppni er ekki að sameina okkur með sama hætti og verið hefur undanfarin ár af ástæðum sem blasa við öllum og þess vegna er þessi ákvörðun tekin.“ Í henni fælust ekki pólitísk skilaboð af hálfu RÚV.
Stjórnarformaður RÚV sagði aðspurður að það hefði „alls ekki“ verið einhugur meðal stjórnarmanna um þessa niðurstöðu. „En hún fékkst og það var alveg nægur meirihluti fyrir því innan stjórnarinnar að afturkalla þátttöku í Eurovision.“
Eurovision verður enn send út, sem og atriði Ísraels. „Við erum ekki í neinni ritskoðun hér,“ segir útvarpsstjóri.
Alvarlegar athugasemdir við morð á fréttamönnum
Grunnur ákvörðunarinnar er staðan á Íslandi. „Það er erfitt að fá listamenn til þátttöku í þessu verkefni,“ sagði útvarpsstjóri. Hann hefði enn fremur komið því á framfæri við Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) að framferði Ísraelsmanna á Gaza gagnvart fjölmiðlamönnum væri með þeim hætti að ekki væri annað hægt en að gera mjög alvarlegar athugasemdir. „Það er eitthvað sem við getum gert og beitt okkur fyrir á vettvangi EBU í þessu samhengi og það höfum við gert.“
Stefán Jón greip þá keflið og sagði að um fjölmiðlapólitíska stefnumótun væri að ræða. „Sem felst í því að mótmæla því að eitt aðildarríki beiti fréttabanni, ritskoðun og morðum á fréttamönnum. Það eru aðferðir sem EBU eiga ekki að líða þátttökuríki.“ Þrátt fyrir að átökunum hefði linnt á Gazasvæðinu væri það enn ótrúlega slæmt. „Þetta er ekki vopnahlé í þeim skilningi sem við höfum.“













































Athugasemdir