Ísland sniðgengur Eurovision

„Til ham­ingju Ís­land,“ sagði Stefán Jón Haf­stein, stjórn­ar­formað­ur RÚV, eft­ir fund þar sem út­varps­stjóri kynnti ákvörð­un fram­kvæmda­stjórn­ar um að sleppa þátt­töku í söngv­akeppni evr­ópskra sjón­varps­stöðva.

Ísland sniðgengur Eurovision
Stjórnarformaður Stefán Jón Hafstein lagði fram tillögu þess efnis að Ísland tæki ekki þátt ef Ísrael væri með í Eurovision. Mynd: Víkingur

Ísland mun ekki taka þátt í Eurovision á næsta ári. Þetta var tilkynnt eftir fund stjórnar RÚV núna síðdegis. Síðasti dagur til að staðfesta þátttöku í keppninni var í dag. 

„Ljóst er miðað við opinbera umræðu hér á landi og viðbrögð við ákvörðun EBU sem tekin var í síðustu viku að hvorki mun ríkja gleði né friður um þátttöku RÚV í Eurovision. Það er því niðurstaða RÚV að tilkynna EBU um það í dag að RÚV taki ekki þátt í Eurovision á næsta ári,“ segir í fréttatilkynningu frá RÚV. Ekki liggur fyrir hvort haldin verði söngvakeppni á næsta ári. 

„Fyrir mína hönd segi ég: Til hamingju Ísland,“ sagði Stefán Jón Hafstein, stjórnarformaður RÚV, að fundinum loknum. Að hans mati væri niðurstaðan farsæl.

Til stóð að stjórnin myndi kjósa um þátttökuna, en ekki kom til atkvæðagreiðslu, þar sem útvarpsstjóri kynnti stjórn að framkvæmdastjórn RÚV hefði ákveðið að taka ekki þátt.

Dagskrárlegar forsendur

Útvarpsstjóri skýrði að ákvörðunin hefið verið tekin á dagskrárlegum forsendum. Þegar viðburður vekur ekki gleði og sameinar ekki þjóðina lengur sé ástæða til að hugsa sinn gang. „Það er augljóst að þessi keppni er ekki að sameina okkur með sama hætti og verið hefur undanfarin ár af ástæðum sem blasa við öllum og þess vegna er þessi ákvörðun tekin.“ Í henni fælust ekki pólitísk skilaboð af hálfu RÚV.

Stjórnarformaður RÚV sagði aðspurður að það hefði „alls ekki“ verið einhugur meðal stjórnarmanna um þessa niðurstöðu. „En hún fékkst og það var alveg nægur meirihluti fyrir því innan stjórnarinnar að afturkalla þátttöku í Eurovision.“

Eurovision verður enn send út, sem og atriði Ísraels. „Við erum ekki í neinni ritskoðun hér,“ segir útvarpsstjóri. 

Alvarlegar athugasemdir við morð á fréttamönnum

Grunnur ákvörðunarinnar er staðan á Íslandi. „Það er erfitt að fá listamenn til þátttöku í þessu verkefni,“ sagði útvarpsstjóri. Hann hefði enn fremur komið því á framfæri við Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) að framferði Ísraelsmanna á Gaza gagnvart fjölmiðlamönnum væri með þeim hætti að ekki væri annað hægt en að gera mjög alvarlegar athugasemdir. „Það er eitthvað sem við getum gert og beitt okkur fyrir á vettvangi EBU í þessu samhengi og það höfum við gert.“

Stefán Jón greip þá keflið og sagði að um fjölmiðlapólitíska stefnumótun væri að ræða. „Sem felst í því að mótmæla því að eitt aðildarríki beiti fréttabanni, ritskoðun og morðum á fréttamönnum. Það eru aðferðir sem EBU eiga ekki að líða þátttökuríki.“ Þrátt fyrir að átökunum hefði linnt á Gazasvæðinu væri það enn ótrúlega slæmt. „Þetta er ekki vopnahlé í þeim skilningi sem við höfum.“

Áður en fundurinn hófst sagði Stefán Jón Hafstein, stjórnarformaður RÚV, að hann legði til að Ísland tæki ekki þátt ef Ísrael yrði með og að hann ætti von á góðri niðurstöðu fyrir Ísland. Diljá Ámundadóttir Zöega, varaformaður stjórnar, sagði einnig fyrir fundinn að hún vonaðist til þess að Ísland tæki ekki þátt í keppninni.

Hávær krafa hefur verið um að Ísland dragi sig úr þátttöku í Eurovision æ síðan Ísrael réðst inn á Gaza undir lok árs 2023. Fjöldi mótmælenda var saman kominn fyrir utan RÚV áður en stjórnin fundaði til að hvetja til sniðgöngu keppninnar.

Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, sagði fyrr í vikunni að hann teldi rétt að sniðganga Eurovision í ljósi þátttöku Ísraels. 

Fleiri lönd sniðganga

Fulltrúar evrópskra sjónvarpsstöðva samþykktu að leyfa Ísraelum að taka þátt í keppninni á næsta ári sem verður haldin í Vín í Austurríki. Í kjölfarið tilkynntu nokkur lönd að þau hygðust ekki taka þátt í keppninni. Þar á meðal eru Holland, Spánn, Írland og Slóvenía. Belgía hafði áður tilkynnt að hún ætlaði ekki að taka þátt ef Ísrael yrði leyft að keppa en ríkissjónvarp landsins sneri ákvörðuninni.

Þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem kallað er eftir sniðgöngu Eurovision vegna þátttöku tiltekinna þjóða, líkt og Guardian fjallaði um á dögunum.

Það var Spánn sem var tilefnið að fyrsta sniðgöngukallinu í sögu keppninnar. Eftir að Spánn sigraði keppnina árið 1968 og hélt hana árið eftir var kallað eftir því að hún yrði sniðgengin vegna stjórnar Franco á landinu.

Varaformaður stjórnar mætir á fundStjórnarmenn RÚV funduðu klukkan 15 í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Kjósa
6
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Viðar Eggertsson skrifaði
    Réttara er: Ákvörðunin var framkvæmdastjórnar RÚV, en ekki stjórnar RÚV.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Sagði sig úr skólaráði þegar Ársæll var ráðinn „af pólitískum ástæðum“
2
Stjórnmál

Sagði sig úr skóla­ráði þeg­ar Ár­sæll var ráð­inn „af póli­tísk­um ástæð­um“

Kenn­ari og fyrr­ver­andi formað­ur Kenn­ara­sam­bands Ís­lands sagði sig úr skóla­ráði Borg­ar­holts­skóla þeg­ar Ár­sæll Guð­munds­son var skip­að­ur skóla­meist­ari. Sagði hann eng­an í ráð­inu hafa tal­ið hann hæf­ast­an um­sækj­enda og full­yrti að ráðn­ing­in væri póli­tísk. Ár­sæll seg­ist rekja það beint til Ingu Sæ­land að hafa ekki feng­ið áfram­hald­andi ráðn­ingu.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár