Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, er talin hafa staðið sig best allra borgarfulltrúa í Reykjavík, samkvæmt niðurstöðum könnunar Maskínu.
Sanna er hins vegar orðin utangarðs í Sósíalistaflokknum og hefur ný framkvæmdastjórn, sem tók yfir í maí, hvatt hana til að „segja sig úr Sósíalistaflokki Íslands“.
Í könnuninni velur fjórðungur, eða 24% Sönnu Magdalenu, sem er svipað og síðasta ár. Næst flestir, eða 21%, velja Hildi Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og hækkar hún úr 17% frá því í ágúst og úr 14% fyrir ári.
Alls telja 9% að Einar Þorsteinsson í Framsóknarflokknum standi sig best og 8% Dóra Björt Guðjónsdóttir, sem hvarf frá formannsframboði í Pírötum nýlega.

Framkvæmdastjórnin kvaddi Sönnu
Ný framkvæmdastjórn tók við í Sósíalistaflokki Íslands í maí, samfara harðvítugum deilum.
Sanna hætti sem pólitískur leiðtogi Sósíalista eftir það. Stjórn flokksins leitaði skýrra svara frá henni um framhaldið.
Í september sagði Sanna Magdalena að hún íhugaði að bjóða sig fram fyrir annað framboð. „Það er ekkert launungarmál að ný stjórn Sósíalistaflokksins hefur ekki staðið heilshugar að baki borgarstjórnarflokknum,“ sagði hún í samtali við RÚV.
Í kjölfarið sendi stjórn Sósíalistaflokksins frá sér yfirlýsingu, þar sem hún var meðal annars sökuð um endurtekin ósannindi.
„Sanna Magdalena Mörtudóttir hefur lengst af á sinni starfsævi unnið sem atvinnustjórnmálakona sem kjörinn fulltrúi Sósíalistaflokksins. Af ummælum hennar að dæma um mögulegt framboð með öðrum flokki virðist hún horfa frekar til eigin frama í stjórnmálum en hag síns eigin flokks og framgang félagshyggju á Íslandi,“ sagði í ályktun framkvæmdastjórnarinnar.
„Eftir margra mánaða umleitanir fékkst hún loks á fund með framkvæmdarstjórn en neitaði að hitta framkvæmdarstjórn einsömul líkt og aðrir borgarfulltrúar flokksins höfðu þá þegar gert. Ekki var að merkja nokkurn samstarfsvilja af hálfu Sönnu Magdalenu á þeim fundi,“ sagði ályktunin.
Þá kvaddi framkvæmdastjórnin hana. „Óskar framkvæmdarstjórn Sönnu velfarnaðar í öllu því sem hún ákveður að taka sér fyrir hendur.“












































Athugasemdir