Viðreisn tapaði 15 milljónum króna í fyrra eftir hagnað upp á rúma 41 milljón árið áður. Ástæðan var óvæntar Alþingiskosningar en 29 milljónir í fjárframlög komu frá einstaklingum fyrirtækjum, mikið til frá stórum aðilum í atvinnulífinu.
Yfirdráttur og aðrar skammtímaskuldir í lok árs voru greiddar í upphafi árs 2025, að því segir í ársreikningi Viðreisnar vegna 2024 sem samþykktur hefur verið af Ríkisendurskoðun. Eigið fé flokksins var tæpar 8 milljónir í lok árs.
„Breytingin á eigin fé og rekstrarniðurstöðu skýrist að mestu af kostnaði vegna alþingiskosninga í lok nóvember 2024, í kjölfar þingrofsbeiðni forsætisráðherra í október sama ár,“ segir í ársreikningnum. „Eftir kosningarnar var Viðreisn þriðji stærsti flokkur landsins. Hann hlaut 15,8% atkvæða í kosningunum og 11 þingsæti, sem var fjölgun um 6 þingsæti. Þetta er í fyrsta sinn sem Viðreisn hefur þingmann í öllum kjördæmum. Í desember myndaði Viðreisn ríkisstjórn með Samfylkingu og Flokki fólksins og fer nú með ráðuneyti utanríkismála, fjármála, atvinnuvega og dómsmála.“
„Breytingin á eigin fé og rekstrarniðurstöðu skýrist að mestu af kostnaði vegna alþingiskosninga“
Fram kemur að starfsmenn flokksins hafi verið tveir allt árið, sem er fjölgun frá árinu 2023 þegar einn starfsmaður var fyrstu átta mánuðina. Skýrir þetta hækkun á launakostnaði á árinu.
„Kostnaður vegna Alþingiskosninga var alls 67.096.209 kr. á árinu 2024,“ segir í ársreikningnum. „Til samanburðar var kostnaður vegna Alþingiskosninga 2021 um 85 m.kr.“
Framlög frá stórum aðilum í atvinnulífinu
Viðreisn fékk 61 milljón króna í fjárframlög úr ríkissjóði eins og í fyrra, tæpar 11 milljónir frá Alþingi og rúmar 3 frá sveitarfélögum.
Fjárframlög lögaðila námu 15 milljónum í fyrra og fjárframlög einstaklinga 14 milljónum. Stærstu styrktaraðilar Viðreisnar voru ferðaþjónustufyrirtækið Kynnisferðir, útgerðin Brim, fiskeldið Kaldvík, heildsalan Egilsson, eignarhaldsfélagið Sigtún, HS Orka og Hofgarðar, sem er félag í eigu eins af stofnendum Viðreisnar, Helga Magnússonar. Öll styrktu Viðreisn um 550.000 kr. Aðrir lögaðilar sem styrktu um háar upphæðir voru Arion banki, Kvika, Ölgerðin, Stoðir, Mókollur, Lindaberg og sjávarútvegsfyrirtækin Síldarvinnslan og Þorbjörn.
Af einstaklingum gáfu Bárður G Halldórsson og Gunnlaugur A Jónsson báðir hámarksupphæð, 550.000 kr., en kjörnir fulltrúar flokksins voru á meðal annarra áberandi einstaklinga.













































Athugasemdir