Evrópuþingið samþykkti í gær markmið Evrópusambandsins um minnkun kolefnislosunar fyrir árið 2040 og studdi þar með í stórum dráttum þá vandasömu málamiðlun sem aðildarríkin náðu í síðustu viku.
Þingmenn í Brussel greiddu atkvæði með 379 gegn 248 og samþykktu 90 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda miðað við árið 1990 – sem er lykiláfangi á leið 27 ríkja sambandsins að kolefnishlutleysi um miðja öldina.
Í samræmi við það sem umhverfisráðherrar ESB samþykktu eftir maraþonviðræður í síðustu viku, skildu þeir þó eftir svigrúm fyrir breytingar og bættu við ýmsum ívilnunum sem umhverfissinnar hafa gagnrýnt harðlega.
„Þetta loftslagsmarkmið er 90 prósenta samdráttur í kolefnismengun á pappírnum eingöngu og fullt af svo mörgum glufum og fyrirvörum að það mun líklega skila mun minni árangri,“ sagði Eva Corral, baráttukona Greenpeace ESB í loftslagsmálum.
Frá og með árinu 2036 verður leyfilegt að alþjóðlegar kolefniseiningar telji með allt að fimm prósentum af 2040-markmiðinu, að sögn þingsins, sem gæti dregið úr hlutfalli samdráttar innanlands.
Þingmenn studdu að fresta um eitt ár, til 2028, innleiðingu á viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir eldsneytisbrennslu í byggingum og vegasamgöngum, þekkt sem ETS2 – kerfi sem Norðurlöndin styðja en Pólland og Ungverjaland eru andsnúin.
Þeir sögðu einnig að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætti að meta framvindu í átt að losunarmarkmiðinu á tveggja ára fresti og leggja til breytingar ef nauðsyn krefur, þar á meðal á markmiðinu sjálfu.
Þingið þarf nú að semja við aðildarríkin um endanlega útgáfu textans.
ESB er á eftir Kína, Bandaríkjunum og Indlandi hvað varðar losun, en hefur verið gengið lengst af stóru mengunarvöldunum í skuldbindingu til aðgerða í loftslagsmálum. ESB hefur þegar dregið úr losun um 37 prósent miðað við árið 1990.
Ísland stefnir að því að minnka „samfélagslosun“ um 41% fyrir lok þessa áratugar, miðað við árið 2005, eftir leiðréttingu umhverfisráðherra á markmiði Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu, en áður hafði verið miðað við 55% minnkun fyrir misskilning.













































Athugasemdir