Zohran Mamdani var í nótt kjörinn nýr borgarstjóri í New York. Hann sigraði með 50,4 prósent atkvæða en meira en milljón borgarbúa greiddu honum atkvæði. Enginn borgarstjóri hefur fengið jafn mörg atkvæði síðan árið 1969. Óvenju góð kjörsókn var í kosningunum í ár en tvöfalt fleiri greiddu atkvæði nú en síðast.
„Ég er ungur, þrátt fyrir allar mínar tilraunir til að eldast,“ sagði Mamdani í sigurræðu sinni fyrir framan fullan sal stuðningsmanna sinna og uppskar hlátur. „Ég er múslimi. Ég er lýðræðissinnaður sósíalisti. Og það sem verst er af öllu: ég neita að biðjast afsökunar á neinu af þessu.“
Sigur Mamdani var afgerandi. Andrew Cuomo, helsti andstæðingur Mamdani, hlaut 41,6 prósent atkvæða. Hann hafði áður tapað fyrir Mamdani í forvali Demókrataflokksins en bauð sig fram sem óháður frambjóðandi, utan flokka. Repúblikaninn, Curtis Sliwa, fékk 7,1 prósent atkvæða.
Mamdani mætti harðri andstöðu innan eigin flokks og þótti ólíklegur sigurvegari þegar hann bauð sig fyrst fram. Hann er yfirlýstur sósíalisti og var það dregið fram í auglýsingum sem fjármagnaðar voru af milljarðamæringum á borð við Bill Ackman og fyrrverandi borgarstjórans Michael Bloombergs.
Samkvæmt New York Times safnaði stuðningsfólk Cuomo meira en 40 milljónum dollara, á meðan stuðningsmenn Mamdani söfnuðu um 10 milljónum til að verja til kosningabaráttunnar. Samkvæmt gögnum kosningastjórnari eyddu sjálfstæðu kosningasamtökin Fix the City - svokallað super-pac - rúmlega 29 milljónum í að efla Cuomo og ráðast á andstæðinga hans. Það dugði þó ekki til.













































Athugasemdir