„Svona ákvarðanir eru alltaf mjög erfiðar. Þær hafa áhrif á starfsfólk sem kveður og þau sem eftir verða og sjá á eftir góðum vinnufélögum,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair í tilkynningu sem var send á fjölmiðla. Icelandair sagði upp 38 starfsmönnum frá ýmsum deildum í dag. Flest starfsfólkið vann hjá skrifstofu félagsins í Hafnarfirði.
Bogi segir að þetta sé liður í hagræðingaraðgerðum félagsins.
„Undanfarin misseri höfum við verið að velta við öllum steinum til þess að snúa rekstri félagsins við. Það er nauðsynlegt til þess að Icelandair geti tekist á við sveiflur í síbreytilegu umhverfi flugrekstrar, til að tryggja samkeppnishæfni og bæta afkomu félagsins til framtíðar. Einn liður í þessari vegferð er einföldun skipulags og fækkun verkefna sem leiðir því miður til breytinga í starfsmannahópnum sem við tilkynntum starfsfólki okkar í dag. Ég vil þakka öllu því góða fólki sem nú lætur af störfum fyrir þeirra framlag til Icelandair og óska þeim alls hins besta.“
Í tilkynningu segir að undanfarin misseri hafi félagið gripið til fjölmargra aðgerða og má þar nefna aðlögun leiðakerfisins að markaðsaðstæðum, fækkun flugvéla í rekstri um tvær og að hætta rekstri breiðþotna á næsta ári, auk ýmissa umbótaverkefna þvert á fyrirtækið sem hafa skilað sér í aukinni skilvirkni og sjálfvirknivæðingu, að því er segir í tilkynningu Icelandair.
Þrátt fyrir að dregið hafi úr samkeppni við Icelandair eftir að Play varð gjaldþrota fyrr í haust hefur tiltrú fjárfesta á flugfélaginu ekki aukist. Frá áramótum hefur gengi bréfa í Icelandair fallir um 44,25 prósent og stendur í sögulegri lægð.
Um miðjan október sendi Icelandair frá sér afkomuviðvörun þar sem kom fram að rekstrarhagnaður fyrstu níu mánaða ársins væri 74 milljónir dollara, samanborið við 83,5 milljónir á sama tíma í fyrra. Gengi bréfa í félaginu féll töluvert í kjölfar viðvöruninnar eftir að hafa tekið stökk uppávið í kjölfar falls Play.












































Athugasemdir