Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að Bandaríkin væru „velkomin með“ í umræðu um fjárfestingu og innviðauppbyggingu, ásamt Færeyjum, Grænlandi og Kanada.
Þetta segir hún í svari við óundirbúnni fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á Alþingi í dag, þar sem hann þrýsti á nánari samskipti við Donald Trump Bandaríkjaforseta og lagði til að Kristrún styrkti sambandið við hann með því að bjóða honum í golf eða í opinbera heimsókn.
Kristrún segist hafa hitt Trump tvisvar. „Við höfum ekki ennþá átt tvíhliða formlegan fund með Bandaríkjaforseta. Ég hef hins vegar hitt Bandaríkjaforseta í tvö skipti og átt í svona stuttum samræðum við forseta og nefnt þar sérstaklega áhuga okkar á frekari samskiptum, frekari viðskiptum, frekari fjárfestingu og styrkja varnarinnviði hér. Skilaboðin sem hafa komið frá íslenskri stjórnsýslu og líka pólitíkinni, ef við tökum þessi samtöl með, hafa verið mjög skýr. Þau hafa verið að við viljum áfram starfa mjög náið með Bandaríkjamönnum og það að við séum að starfa náið með þjóðum sem eru í Evrópu, þjóðum sem eru utan Evrópusambandsins, eins og Noregi, útilokar einmitt ekki þessi samskipti við Bandaríkin.“
Sigmundur fagnaði aðkomu Bandaríkjanna að vopnahléssamningum í Palestínu og sagði að Ísland væri í einstakri stöðu í sambandi við Bandaríkin, sem hefðu aftur fest sig í sessi sem „leiðandi ríki í alþjóðamálum“. Hann spurði með hvaða hætti forsætisráðherra hyggðist efla tengslin við Bandaríkin „og styrkja samstarf við þau í sessi“.
„Mér skilst að hæstvirtur forsætisráðherra hafi ekki enn leitast við að ná beinu talsambandi við forseta Bandaríkjanna. Verður forseta Bandaríkjanna jafnvel boðið til Íslands? Hér á Íslandi eru margir áhugaverðir golfvellir. Á sumrin er hægt að spila miðnæturgolf. Og ég held það færi vel á því að bjóða Bandaríkjaforseta til Íslands. Veita honum kannski einhver verðlaun og efla og styrkja samstarf þessara ríkja, ekki veitir af að hafa öfluga bandamenn þegar við horfum upp á vandræðagang vina okkar í Evrópu.“
Mælti gegn ásælni Trumps í Grænland
Kristrún var einn þeirra forsætisráðherra Norðurlandanna sem andmæltu ásælni Donalds Trump í Grænland í maí síðastliðnum, sem hann hefur neitað að útiloka að tekið verði með valdi og innlimað í Bandaríkin.
„Ísland er rétt fyrir neðan Grænland. Við erum lítið land,“ sagði hún. „Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að það séu sterk skilaboð frá svæðinu um að alþjóðalögum sé fylgt og að afl komi ekki í stað laga og réttar,“ sagði hún.
Í kjölfarið hafa bein samskipti NATO-þjóða óháð Bandaríkjunum færst í aukana. Kristrún vísaði til þess. „Við höfum mikinn hug á því að efla tengslin líka hér á svæðinu, sem eru okkar bakgrunnur, norðurslóðir, og þess vegna hef ég verið í virku sambandi við Færeyinga, við Grænlendinga, átti nú síðast tvíhliða fund með forsætisráðherra Kanada, þar sem við vorum einmitt að ræða möguleika þess að fá fleiri lönd inn í fjárfestingar og innviðauppbyggingu á svæðinu og Bandaríkin eru velkomin þar með,“ sagði Kristrún.

„Skortur á veruleikatengingu“
Sigmundur sagði „það ekki duga að segja að Bandaríkin séu velkomin að vera með ef þau vilja.“ Hann sakaði Kristrúnu um firringu frá raunveruleikanum.
„Það virðist vera einhver skortur á veruleikatengingu hjá þessari ríkisstjórn, sem boðaði það nýverið að Ísland ætti að vera leiðandi í varnarmálum á norðurslóðum. Er ekki orðið tímabært að ná raunveruleikatengingu hjá þessari ríkisstjórn? Gera sér grein fyrir því að Bandaríkin hafa jú aftur fest sig í sessi með fyrri hætti sem leiðandi afl á alþjóðavísu. Voru kannski dalandi sem slíkt um tíma, en hafa rækilega stimplað sig inn aftur. Og þá dugar ekki að spjalla við menn sem menn hitta á göngunum á alþjóðafundum eða halda lyftufund og segja að Ísland vilji gjarnan vilja vinna vel með Bandaríkjunum.“
Bað um fund með Trump
„Við erum vinir Bandaríkjanna. Ég hef ekkert á móti sterkari og öflugri samskiptum við Bandaríkin. Öll samskipti hafa átt sér stað á öllum lögum íslenskrar stjórnsýslu hafa verið jákvæð gagnvart Bandaríkjunum,“ sagði Kristrún í andsvari við áeggjan Sigmundar.
Hún sagði langt síðan forsætisráðherra Íslands hefði átt tvíhliða fund með forseta Bandaríkjanna. „Símtal?“ kallaði Sigmundur tvisvar inn í framsögu Kristrúnar, sem sagði „mjög jákvætt að eiga í samskiptum við þau“ og bætti við: „Við munum efla þau nánar.“
„Með símtali?“ spurði Sigmundur og svaraði Kristrún því til að beiðni lægi fyrir um fund með Bandaríkjaforseta. „Við fylgjum því fast eftir.“
Athugasemdir (2)