„Löng og sársaukafull martröð er nú á enda,“ sagði Donald Trump Bandaríkjaforseti í ávarpi sínu á ísraelska þinginu, Knesset, í dag.
Ísraelskir þingmenn stóðu upp og fögnuðu Bandaríkjaforseta innilega áður en hann hóf ávarp sitt. Trump hafði milligöngu um vopnahlé á milli Ísrael og Hamas.
Hann var í fylgd með sérstökum sendiherra sínum, Steve Witkoff, tengdasyni sínum, Jared Kushner, og dóttur sinni, Ivönku Trump.
Endalok stríðs, hryðjuverka og dauða
„Við komum saman á degi mikillar gleði og aukinnar vonar,“ sagði forsetinn í erindi sínu eftir að hafa þakkað þinginu fyrir móttökurnar.
„Þetta er ekki einungis endalokin á stríði. Þetta eru endalok tímabils hryðjuverka og dauða og upphaf tímabils trúar, vonar og Guðs. Þetta er upphaf mikils og varanlegs samhljóms fyrir Ísrael og allar þjóðir þessa svæðis sem brátt verður sannarlega stórkostlegt. Ég trúi því staðfastlega,“ sagði Trump.
Þá sagði forsetinn að staðan í dag væri „dögun nýrra Mið-Austurlanda.“
Athugasemdir