Splunkuný bókmenntagrein sækir nú í sig veðrið. Upp úr síðustu aldamótum hófst blómatími svo kallaðra „young adult“-bókmennta, eða ungmennabókmennta, með vinsældum skáldsagna á borð við Hungurleikana og vampírusagnabálksins „Twilight“. Nú líta hins vegar dagsins ljós það sem kallað er „new adult“-bókmenntir, eða nýfullorðinsbókmenntir.
Ólíkt ungmennabókum, sem ætlaðar eru lesendum á aldrinum 12-18, eru nýfullorðinsbækur stílaðar inn á lesendur á bilinu 18-30 ára.
Nýfullorðinsbækur rjúka nú upp vinsældarlista víða um heim. En þótt fréttir af auknum lestraráhuga ungs fólks séu fagnaðarefni á nýjungin sér skuggahliðar.
„Eldri borgarar aldrei haft það betra“
Nýverið kynnti Kolbeinn H. Stefánsson, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands, frumniðurstöður rannsókna sinna á kjörum eldri borgara.
Í fyrirsögn á Heimildinni mátti lesa: „Eldri borgarar aldrei haft það betra: Staða ungs fólks alvarlegt umhugsunarefni.“ Benda gögn til þess að hlutfall fólks á eftirlaunaaldri undir lágtekjumörkum hafi aldrei verið lægra. Á sama tíma hafi kjör ungs fólks hins vegar snarversnað.
Opinberunin olli skiljanlegu uppþoti. Vandlæting hinna háværu var þó ekki helguð þeim hópi sem bar skarðan hlut frá borði. Enginn stökk til varnar unga fólkinu. Fjölmargir sáu hins vegar ástæðu til að gagnrýna fullyrðingar um lífskjör eldri borgara, sem sagðar voru „hæpnar“ og stangast á við „upplifun“. Voru þeir sem flögguðu niðurstöðunni sakaðir um að vera „pikkfastir í meðaltölum“ eins og einn komst að orði í ummælakerfi.
Niðurlæging unga fólksins
Það kann að koma spánskt fyrir sjónir að fólk á aldrinum 18-30 ára þurfi sína eigin bókmenntagrein. Hvers vegna geta þau ekki gert sér að góðu sömu bækur og við hin?
Ástæðan blasir við í rannsókn Kolbeins Stefánssonar.
Efnistök nýfullorðinsbókmennta endurspegla þann nýja veruleika sem ungt fólk býr við um þessar mundir. Þær fjalla um hrakfarir fólks sem reynir að fóta sig á ótraustum og ófyrirsjáanlegum vinnumarkaði, skakkaföll í ástarmálum þegar fullorðið fólk býr ennþá heima hjá pabba og mömmu því það er svo dýrt að leigja, niðurlæginguna við að sjá ekki fram á að geta nokkurn tímann eignast sitt eigið heimili og óttann við að hafa ekki efni á að eignast börn.
Sharmaine Lovegrove, breskur umboðsmaður nýfullorðinsbókmennta, segir bækurnar fjalla um „fullorðinsár sem slegið sé á frest.“ Hér áður fyrr hefði 18 ára unglingur átt lítið sameiginlegt með þrítugri manneskju en nú búi báðir aðilar oft við svipaðar aðstæður í foreldrahúsum. Lovegrove segir að þetta flókna tímabil, þegar við finnum okkur farveg í lífinu, kaupum húsnæði og stofnum fjölskyldu, hafi áður fyrr tekið um fimm ár. „Núna er um að ræða fimmtán ára tímabil.“
Lífi slegið á frest
Kolbeinn Stefánsson sagðist í viðtali við Heimildina telja að „heilt yfir sé framtíðin björt þegar kemur að lífskjörum eldra fólks“. Hann sagði aftur á móti umhugsunarefni hvað staða ungs fólks hefði versnað. „Sá hópur sem hefur dregist aftur úr í efnahagslegu tilliti er aldurshópurinn 25 til 35 ára. Það hefur aldrei verið erfiðara að koma sér þaki yfir höfuðið, þessi hópur á að vera að festa sig í sessi á atvinnumarkaði, eignast börn og svo framvegis. En hópurinn virðist eiga erfitt með að festa almennilegar rætur, og það getur haft mikil áhrif á bæði þjóðarhag og velferðarkerfið,“ sagði Kolbeinn.
Ungt fólk dvelur nú margt í samfélagslegum hreinsunareldi, fast milli himnaríkis og helvítis, hvorki börn né fullorðin, í foreldrahúsum eða saggafullum leigukjallara, að lifa lífi sem slegið hefur verið á frest.
Hvar er vandlætingin þegar kemur að aðstæðum unga fólksins? Hvar eru dólgslegar upphrópanirnar í ummælakerfum internetsins? Skammirnar til stjórnvalda? Hvar er samkenndin?
Kynslóð fólks leitar nú á náðir skáldskapar í von um að henda reiður á eigin veruleika. Tími er kominn til að við hin hættum að líta á veruleika þeirra sem skáldskap.
Það var bara hvorki skrifað né talað það í þann tíð