María Corina Machado, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, hlýtur friðarverðlaun Nóbels í ár. Um þetta var tilkynnt klukkan 9 í morgun. Verðlaunin fær hún fyrir lýðræðisbaráttu sína í Venesúela.
Machado var heiðruð „fyrir óþreytandi starf sitt við að stuðla að lýðræðislegum réttindum fólksins í Venesúela og fyrir baráttu sína til að ná fram réttlátum og friðsamlegum umskiptum frá einræði til lýðræðis,“ sagði Jørgen Watne Frydnes, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar í Ósló þegar hann tilkynnti um verðlaunahafann.
Frydnes hrósaði Machado þegar hann tilkynnti um verðlaunin og sagði að hún væri hugrökk og staðfastur talsmaður friðar sem „heldur loga lýðræðisins lifandi á tímum vaxandi myrkurs“.
Athugasemdir