Dóttir mín varð tólf ára í lok sumars. Í loftinu lá að hún eignaðist snjallsíma við tímamótin. Við foreldrarnir höfðum að vísu aldrei gefið henni slíkt loforð. Það virtist einfaldlega til siðs hjá skólafélögum hennar hér í London, þar sem við búum, að börn fengju síma í síðasta lagi tólf ára. Fannst okkur við ekki geta annað en gert eins og hinir.
Ég sat og las mér til um hvernig takmarka mætti skaðlegt efni á símum barna – óhugnanleg YouTube-myndbönd og mannskemmandi samfélagsmiðlafærslur – þegar ég rakst á viðtal við bandaríska félagssálfræðinginn Jonathan Haidt. Haidt er höfundur metsölubókarinnar „The Anxious Generation“ sem kom út í fyrra og fjallar um skaðsemi stafrænnar æsku. Samkvæmt Haidt var meinvaldurinn hins vegar annar en ég hafði talið.
Haidt heldur því fram að það sé ekki efnið á snjallsímum sem valdi börnum mestum skaða heldur þvert á móti síminn sjálfur. „Allir einblína á innihaldið og segja: „Ef við getum bara hreinsað til efnið þá verður þetta allt í lagi,““ sagði Haidt. „En þetta snýst um miðilinn en ekki innihaldið,“ sagði Haidt – eða „miðillinn er merkingin,“ eins og faðir fjölmiðlafræðinnar, Marshall McLuhan, komst að orði sextíu árum fyrr er hann sagði miðlana sjálfa móta manninn og samfélagið meira en inntak efnisins sem þeir flyttu.
En símanotkun er ekki eina svið mannlífsins þar sem okkur yfirsést skaðsemi miðilsins því við erum svo upptekin við að gapa yfir inntakinu.
Raunverulegi skaðvaldurinn
Landsþing breska Verkamannaflokksins fór fram í Liverpool á Englandi í vikunni. Það voru þó ekki stefnumál flokksins sem voru í forgrunni þingsins. Nafn Nigel Farage, formanns popúlistahreyfingarinnar Reform, var á allra vörum, en samkvæmt nýrri skoðanakönnun gæti hann orðið næsti forsætisráðherra Bretlands.
Fjármálaráðherra Verkamannaflokksins gagnrýndi stefnu Reform í innflytjendamálum og sagði Farage, sem gjarnan er uppnefndur ódýr eftirprentun af Donald Trump, „stærstu ógnina sem steðjaði að lífsháttum“ í Bretlandi.
Ekki er þó langt síðan Verkamannaflokkurinn daðraði sjálfur við aðferðafræði popúlismans.
Í maí tilkynnti Keir Starmer, formaður flokksins og forsætisráðherra, í ræðu að hann hygðist stemma stigu við innflutningi fólks til landsins því Bretland væri að breytast í „eyland ókunnugra“. Orðavalið olli hneykslun en það þótti minna á umdeilda ræðu breska þjóðernissinnans Enoch Powell frá árinu 1968 þar sem hann spáði því að hvítum Bretum liði senn sem þeir væru „ókunnugir í eigin landi“ vegna fjölda innflytjenda.
Eins og landsþing Verkamannaflokksins ber vitni um ná popúlistar nú víða dagskrárvaldinu. Þeir setja tóninn þegar kemur að umræðunni og henda ítrekað fram orðasprengjum um málefni á borð við innflytjendur, trans fólk, stöðu kvenna og loftslagsmál.
Mörgum kann að finnast málflutningur þeirra óviðfelldinn. En getur verið að inntak orða þeirra sé ekki meginskaðvaldurinn þegar kemur að popúlisma heldur þvert á móti aðferðafræðin sjálf?
Samkvæmt Jonathan Haidt veldur snjallsíminn börnum kvíða, þunglyndi, svefntruflunum og samskiptavanda. Að auki skaðar tækið svo athyglisgáfu þeirra að hann spáir því að senn myndist samfélagsleg gjá milli fólks sem geti einbeitt sér og fólks sem geti ekki einbeitt sér vegna snjallsímanotkunar í æsku.
Rétt eins og foreldri, sem er svo upptekið við að finna út úr því hvernig hreinsa megi burt ógeðfellt efni af snjallsíma barnanna að það missir sjónar á skaðsemi símans sjálfs, yfirsést okkur nú meginhættan sem stafar af popúlistum. Stefnumál popúlista sveiflast með vindi. Sú aðferð sem þeir nota til að komast til áhrifa er hins vegar alltaf sú sama: Að sá sundurlyndi – eða eins og það hefur kallast öldum saman: Deila og drottna.
Svo andvaralaus erum við þegar kemur að aðferðafræði popúlismans að rótgróin stjórnmálaöfl færa sér hana nú í nyt.
Nýr formaður Græningjaflokksins í Bretlandi kallar sig stoltur „umhverfis-popúlista“ og hefur það að yfirlýstu markmiði að há stjórnmálabaráttu að fyrirmynd Nigel Farage.
Á meðan foreldrar einblína á innihald YouTube-myndbanda og Instagram-færslna njóta tæknifyrirtækin góðs af því að okkur yfirsést skaðinn sem miðillinn sjálfur veldur – þau geta haldið áfram að selja síma og forrit. Á meðan samfélagið rífst um nýjustu yfirlýsingu háværasta popúlistans yfirsést okkur skaðinn sem hlýst af aðferðafræðinni sjálfri, skipulagðri skautun sem er forsenda þess að popúlistar komist til valda.
Ég sá í gegnum snjallsímann og keypti gamaldags Nokia-farsíma handa dóttur minni. Ég komst að því að æ fleiri foreldrar gera nú slíkt hið sama.
Óskandi væri að við færum einnig að sjá í gegnum popúlistana.
Athugasemdir