Vísitala neysluverðs í september hækkar um 0,11% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkar hins vegar um 0,13% frá því í ágúst.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni í morgun.
Föt og skór hækkuðu um 2,9%og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, það er reiknuð húsaleiga, hækkaði um 0,9%. Verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði hins vegar um 15,4%.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,1% og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,2%.
Verðbólga á ársgrundvelli mældist 3,8% í ágúst og hefur hún því þokast upp á við.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sagði við síðustu stýrivaxtaákvörðun að skýr merki þyrftu að sjást um að verðbólga væri á niðurleið áður en vextir mundu lækka á ný.
Næsta stýrivaxtaákvörðun verður kynnt 8. október.
Athugasemdir