Stærsta einstaka útgerðarfélag landsins, Brim hf, hefur gert samkomulag um að kaupa allt hlutafé í Lýsi hf. Virði Lýsis í viðskiptunum er 30 milljarðar. Samkvæmt tilkynningu Brims til Kauphallarinnar dragast vaxtaberandi skuldir upp á 5,3 milljarða frá kaupverðinu, sem verður greitt annars vegar í reiðufé og hins vegar í hlutabréfum í Brimi.
Eigendur Lýsis verða bæði milljarðamæringar og meðal stærstu einstöku hluthafanna í Brimi eftir viðskiptin. Brim eignast ekki bara lýsisbyrgðir sem eru milljarða virði heldur eignarhluti í fjölda fyrirtækja í alls ótengdum atvinnugreinum.
Fimm milljarðar inn á reikning
Lýsi er, samkvæmt nýjustu aðgengilegu upplýsingum, í eigu átta einstaklinga. Katrín Pétursdóttir, forstjóri fyrirtækisins, er þó langstærsti hluthafinn með um 41 prósenta hlut í gegnum fjárfestingafélagið Ívar, hluta sem hún á í eigin nafni og afar lítinn hlut í gegnum Fiskafurðir-umboðssölu. Erla Katrín Jónsdóttir á svo 26 prósenta hlut og Gunnlaugur S. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Lýsis, á um 24 prósenta hlut.

Athugasemdir