Spjallþáttur Jimmy Kimmel, sem ABC tók óvænt af dagskrá í síðustu viku eftir að bandarísk stjórnvöld hótuðu sjónvarpsstöðvum sem sendu út þáttinn, snýr aftur á þriðjudag. Þetta kemur fram í tilkynningu Disney, eiganda ABC í dag.
ABC stöðvaði framleiðslu þáttanna óvænt eftir að íhaldsmenn kvörtuðu yfir athugasemdum sem Kimmel lét falla í kjölfar morðsins á kristna aktívistanum og áhrifavaldinum Charlie Kirk.
„Síðasta miðvikudag ákváðum við að stöðva upptökur á þættinum til að forðast að magna upp spennu á viðkvæmum tíma fyrir þjóðina,“ sagði í yfirlýsingu fyrirtækisins. „Við töldum að sum ummælin hefðu verið óheppileg og þar með óviðeigandi. Við höfum átt yfirvegaðar samræður við Jimmy síðustu daga og í framhaldi af þeim ákváðum við að endurræsa þáttinn á þriðjudag.“
Óvænt brotthvarf Kimmels af skjánum, sem virtist koma í kjölfar þrýstings stjórnvalda á dreifingaraðila ABC, vakti reiði meðal frjálslyndra í Bandaríkjunum. Gagnrýnendur sögðu Kimmel hafa verið skotmark vegna þess að hann væri harður gagnrýnandi Donalds Trump forseta. Trump fagnaði banninu og kallaði það „góðar fréttir fyrir Ameríku.“
Andstæðingar töldu málið nýjasta dæmið um vaxandi stjórn ríkisins á tjáningarfrelsi, sem er hornsteinn bandarísks lýðræðis í hugum margra og stjórnarskrárvarinn réttur. Jafnvel sumir íhaldsmenn, þar á meðal Ted Cruz öldungadeildarþingmaður og sjónvarpsmaðurinn Tucker Carlson, lýstu efasemdum.
Á föstudag hélt Trump áfram að kvarta yfir gagnrýnni fjölmiðlaumfjöllun og sagði hana „ólöglega.“
Hótanir frá FCC
Ummæli Kimmels sem deilan hverfist um féllu í kjölfar morðsins á Kirk, nánum bandamanni Trumps, sem var skotinn til bana á háskólasvæði í Utah. Saksóknarar hafa ákært 22 ára gamlan mann, Tyler Robinson, og ekki talið þörf á að leita annarra gerenda.
Í upphafi þáttarins síðasta mánudag sagði Kimmel að „MAGA-hópurinn“ reyndi af örvæntingu að reyna að lýsa þessum dreng sem einhverjum öðrum en sínum eigin.
Hann sýndi síðan upptöku af Trump sem vísaði spurningu um áhrif dauða Kirk frá sér með því að monta sig af nýju veislusal sem hann er að láta byggja í Hvíta húsinu. Ummæli Kimmels fengu hlátur frá í sal.
„Svona syrgir ekki fullorðinn maður vin sem er myrtur. Þetta er svona eins og fjögurra ára barn syrgir gullfisk,“ sagði Kimmel.
Tveimur dögum síðar hótaði Brendan Carr, formaður Fjarskiptanefndar (FCC), að svipta ABC-stöðvar leyfum til útsendinga ef þær héldu áfram að sýna þáttinn. Stuttu síðar tilkynnti fjölmiðlarisinn Nexstar, sem á margar ABC-stöðvar og er í miðju samrunaferli sem þarf samþykki FCC, að fyrirtækið myndi fjarlægja þáttinn úr dagskrá stöðva sinna. ABC fylgdi í kjölfarið og dró hann af skjánum á landsvísu.
Stjörnur Hollywood bregðast við
Áður en Disney tilkynnti að þátturinn kæmi aftur á dagskrá skrifaði fjöldi kvikmyndastjarna undir opið bréf þar sem ákvörðunin var sögð „dökk stund fyrir tjáningarfrelsi í landinu, stjórnarskrárbrot og óamerísk.“
„Ríkisvaldið er að hóta einkafyrirtækjum og einstaklingum sem forsetinn er ósammála. Við megum ekki láta þessa ógn við frelsi okkar óátalda,“ sagði í bréfinu sem American Civil Liberties Union (ACLU) stóð að.
Meðal undirritaðra voru Pedro Pascal, Tom Hanks, Jennifer Aniston, Meryl Streep og Robert De Niro.
Athugasemdir