Fólk gæti verið handtekið fyrir eftirfarandi fullyrðingu – ég ætla því að hafa hana eftir öðrum: „Ég stend gegn þjóðarmorði, ég styð Palestine Action“. Svo hljóðaði slagorð á mótmælaskilti aldraðra mótmælenda, sem handteknir voru í sumar og komu fyrir dóm í Lundúnum í vikunni.
Í júlí síðastliðnum skilgreindu bresk stjórnvöld aðgerðasinnahópinn „Palestine Action“, sem berst gegn framferði Ísraela í Palestínu, sem hryðjuverkasamtök. Var það gert í kjölfar þess að félagar hans brutust inn í herstöð breska flughersins í Oxfordskíri og unnu skemmdarverk á flugvélum með málningarúða.
Mörgum blöskraði aðgerðir stjórnvalda og kváðu þær misnotkun á hryðjuverkalögum. Sagði framkvæmdastjóri Amnesty International í Bretlandi þær ógn við almennt tjáningarfrelsi í landinu.
En þótt bannað sé með lögum að lýsa yfir stuðningi við hryðjuverkasamtök í Bretlandi þyrpist fólk nú í mótmæli til stuðnings samtökunum. Rúmlega 1600 manns hafa verið handteknir fyrir að ljá stuðning sinn við málstað samtakanna og almennt skoðanafrelsi.
Ekki eru þó allir ósáttir við framgöngu valdhafa. Douglaus Murray er breskur samfélagsrýnir og frjálshyggjumaður. Þótt hann sé þekktur fyrir baráttu sína fyrir hömlulausu tjáningarfrelsi er hann mótfallinn eigin prinsippi þegar kemur að „Palestine Action“. Murray er stuðningsmaður Ísraels. Ekki aðeins finnst honum rétt að hefta tjáningarfrelsi „Palestine Action“ heldur sagðist hann í nýlegu útvarpsviðtali leggja að jöfnu félaga aðgerðasinnahópsins, sem eyðilögðu herflugvélar, og fólk sem heldur á mótmælaskiltum til stuðnings samtökunum.
Douglaus Murray er sannarlega ekki einn um slíkan tvískinnung.
Flísin í auga náungans
Nigel Farage, formaður breska stjórnmálaflokksins Reform, er annar yfirlýstur málsvari tjáningarfrelsisins. Farage gerði sér ferð til Bandaríkjanna fyrr í mánuðinum þar sem hann bar vitni fyrir þingnefnd um tjáningarfrelsið.
Farage lýsti yfir áhyggjum af stöðu tjáningarfrelsisins í heimalandi sínu sem hann líkti við Norður Kóreu. Farage tiltók þó ekki handtökur stuðningsfólks „Palestine Action“ sem dæmi um hnignun málfrelsisins, enda leggst Farage gegn því að bresk stjórnvöld viðurkenni Palestínu sem sjálfstætt ríki. Hann vakti hins vegar máls á raunum írska grínistans Graham Linehan, sem var handtekinn nýverið af fimm vopnuðum sérsveitarmönnum á Heathrow flugvelli í kjölfar þess að hafa sagt brandara á samfélagsmiðlum um transfólk. Hvatti Farage til þess að Bandaríkin beittu pólitískum- og viðskiptalegum áhrifum sínum gegn löndum sem ekki virtu tjáningarfrelsið.
En eins og fleiri sér Farage flísina í auga náungans en ekki bjálkann í eigin auga.
Reform, flokkur Farage, fer með völd í sveitarstjórn Nottinghamskíris á Englandi. Formaður sveitarstjórnarinnar lagði á dögunum bann við að sveitarstjórnarfólk ætti nokkur samskipti við blaðamenn dagblaðs svæðisins, Nottingham Post, í kjölfar umfjöllunar blaðsins um starfshætti sveitastjórnarinnar. Er þeim nú óheimilt að veita blaðamönnum viðtöl, senda þeim fréttatilkynningar og bjóða þeim á viðburði á vegum sveitarfélagsins.
Annað hvort eða ...
„Ég fyrirlít það sem þú hefur að segja en ég léti lífið til að verja rétt þinn til að segja það.“ Ekki er langt síðan þessi hugmynd Voltaire um tjáningarfrelsið þótti augljós sannindi á
Vesturlöndum. Trúin á tjáningarfrelsið, líka málfrelsi þeirra sem við erum ósammála, virðist hins vegar á undanhaldi.
Þeir sem sjá handtöku grínista fyrir lélegan brandara á internetinu sem alvarlega aðför að tjáningarfrelsinu kippa sér fæstir upp við það að stjórnvöld nýti sér hryðjuverkalöggjöf til að handtaka ellilífeyrisþega með skilti. Þeir sem sjá handtöku ellilífeyrisþega með skilti sem alvarlega aðför að tjáningarfrelsinu kippa sér fæstir upp við það þótt umdeildur grínisti sem segir brandara um minnihlutahópa á internetinu sé handtekinn af vopnaðri lögreglusveit.
Sótt er að tjáningarfrelsinu úr öllum áttum. Því stafar ógn af andvaralausum stjórnvöldum, óprúttnum popúlistum og Donald Trump svo dæmi séu nefnd. Stærsta ógnin við tjáningarfrelsið er hins vegar sú útbreidda hugmynd að það sé valkvætt hvenær við erum fylgjandi tjáningarfrelsinu og hvenær ekki.
Annað hvort erum við málsvarar málfrelsis eða ekki.
Athugasemdir