Fjárlög voru kynnt í vikunni. Í tilefni þess birti Kristrún Frostadóttirfforsætisráðherrammynd af sér á Facebook þar sem hún stendur brosandi fyrir utan Alþingishúsið undir yfirskriftinni: „Gaman í vinnunni.“
Það var þó ekki gaman í vinnunni hjá öllum. Rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir birti af sama tilefni mynd á Facebook af bókasafnshillu. „Bókasafnssjóður höfunda hefur enn verið skertur,“ skrifaði Arndís í færslu þar sem hún lýsir „nöprum kveðjum“ sem rithöfundar fá í fjárlagafrumvarpinu. Það sem Kristrún kallar í Facebook-færslu sinni „tiltekt“ á „ríkisheimilinu“ reiknast Arndísi til að sé 45% skerðing á greiðslum til rithöfunda fyrir útlán bóka sinna af almenningsbókasöfnum frá árinu 2021.
Á Íslandi ríkir markaðshagkerfi. Einn er þó sá hópur sem virðist óvelkominn að veisluborði kapítalismans.
Græðgi og gönur
Árið 2014 kom út bók eftir Braga Ólafsson. Slíkt heyrði vart til tíðinda – Bragi er vinsæll og mikilvirkur höfundur – ef ekki væri fyrir þær sakir að allt varð vitlaust.
Nóvelluna Bögglapóststofan skrifaði Bragi fyrir fjármálafyrirtækið Gamma, sem gaf starfsfólki sínu og viðskiptavinum bókina í jólagjöf. En það sem hefði mátt sjá sem nýbreytni á sviði jólagjafa fyrirtækja og nýstárlega tekjulind fyrir rithöfunda sáu margir sem „uppátæki“ sem Bragi ætti að „skammast sín fyrir“. Bragi var sakaður um að gera „auðstéttinni“ kleift að „aðgreina sig frá fjöldanum, ekki bara efnislega heldur líka menningarlega“, hætta sér „inn á dökkgráa svæðið til að drýgja tekjurnar“, láta „græðgina hlaupa með sig í gönur“ og senda „aðdáendum sínum fingurinn“.
Engin ölmusa
Rithöfundar sitja nú margir sveittir yfir umsóknum um starfslaun listamanna en skilafrestur er handan hornsins. Skoðanir um listamannalaun eru skiptar. Eðlilega – skattgreiðendur ættu alltaf að fylgjast vel með hvernig stjórnvöld ráðstafa fé þeirra og óskandi væri að styrkir á öðrum sviðum, svo sem til helstu atvinnugreina okkar, fengju viðlíka athygli í umræðunni og listamannalaun.
Úthlutun úr bókasafnssjóði er hins vegar engin ölmusa.
„Þetta er bara vara sem ég er að selja,“ sagði Bragi Ólafsson í viðtali í kjölfar þess sem sumir töldu bókmenntahneyksli.
Það er ekki í mörgum atvinnugreinum sem ríkið tekur framleiðsluvöru og afhendir hana hugsanlegum viðskiptavinum einkaframtaksins án endurgjalds. „Bók sem er til útláns á bókasafni ratar til margra lesenda,“ skrifaði Arndís Þórarinsdóttir í Facebook-færslu sinni og benti jafnframt á að „fólk sem les bókina af safninu kaupir hana þá ekki til einkanota“.
Bókasafnssjóður höfunda er smávægilegt afnotagjald, klink sem hent er í höfunda til að bæta fyrir eignaupptöku á framleiðslu þeirra. Nú á að rýra það enn frekar.
Hvað segði tölvuleikjaframleiðandinn CCP ef ríkið keypti eitt notendaleyfi að Eve Online og deildi notendanafninu og lykilorðinu með fjölda fólks, sem þyrfti þar af leiðandi ekki að borga fyrir að spila leikinn? Myndi eigandi bílaleigu líða það að ríkið segðist ætla að greiða upphæð að eigin vali fyrir afnot af bílum fyrirtækis hans?
Híað á sellát
Hraðar tæknibreytingar umturna veröldinni. Streymisveitur gera út af við tekjuöflun tónlistarmanna sem áður gátu margir brauðfætt sig með plötusölu. Stéttin lagar sig hins vegar að aðstæðum og leitar nýrra leiða til að fá greitt fyrir vinnu sína. Ein tekjulind tónlistarmanna er að spila í einkasamkomum á borð við brúðkaup, jarðarfarir, fermingarveislur og árshátíðir. Fáum dettur annað í hug en að dást að hugkvæmni þeirra og framtakssemi.
En þegar kemur að rithöfundum kveður við annan tón. „Bókmenntirnar bjóða ekki upp á boðsmiða og eftirpartí,“ skrifaði virtur bókmenntafræðingur um viðleitni Braga Ólafssonar til að prófa sig áfram með nýja tekjulind. „Þær felast ekki í performans þar sem sumir fá að mæta en aðrir ekki.“ Sagði hann að þótt tilvera listamanna meðal smáþjóða væri sjaldnast „munaðarlíf“ hefði fjöldi fólks „neitað að setja verðmiða á listamannsheiður sinn, neitað að taka að sér aðalhlutverk í samkvæmisleikjum auðstéttarinnar“. Hvatti hann til að „híað“ yrði á „sellátið“.
Stjórnvöldum finnst ekki þörf á að greiða rithöfundum sanngjarnt markaðsverð fyrir afnot af vöru þeirra. Þiggi rithöfundur hins vegar ríkisstyrki er hann afæta. Eigi hann í samstarfi við einkaaðila er hann „sellát“.
Hin rómaða bókmenntaþjóð vill hafa rithöfundana sína fátæka eins og kotbændur forðum og ósérhlífna og óflekkaða eins og móður Teresu. Hún virðist sjá rithöfundastéttina sem sérvitringa, sem best sé að loka af í kommúnu mitt í kapítalísku samfélaginu – eins og Kristjaníu í Köben – þar sem fólk virðir hópinn fyrir sér úr öruggri fjarlægð, bendir, flissar, fussar og fordæmir uns það snýr sér undan til að skoða hversu mikið gengið á hlutabréfunum sem það var að kaupa í Íslandsbanka hefur hækkað.
Hvers vegna mega fyrirtæki ekki gefa viðskiptavinum sérsamda bók í jólagjöf frekar en konfektkassa eða ostakörfu? Hvers vegna má ekki gefa starfsfólki fallega innbundinn skáldskap til að stilla upp á sófaborðinu í staðinn fyrir enn annan Iittala kertastjaka? Hvers vegna má tónlistarmaður spila á árshátíð þar sem „sumir fá að mæta en aðrir ekki“ en rithöfundur má ekki setja saman texta fyrir sama fyrirtæki? Hvernig væri að fyrirtæki hættu að gefa íslenskum börnum þessi forljótu buff sem þau bera öll á hausnum og réðu í vinnu barnabókahöfund sem skrifaði fyrir þau litla bók til gjafa?
Síðasti naglinn í líkkistu bókarinnar
„Ég lít ekki svo á að rithöfundur hafi meiri samfélagslega ábyrgð en myndlistarmaður eða tónlistarmaður eða bara múrari og hvað sem er,“ sagði Bragi Ólafsson í kjölfar nóvellu-uppþotsins. „Þetta er bara eins og verkefni fyrir auglýsingastofu. Ég á bara mjög erfitt með að líta svo hátíðlega á mig að ég sé að gefa lesendum mínum fingurinn eða sé að bregðast einhverri samfélagslegri skyldu sem rithöfundur. Mér finnst það í rauninni bara bull.“
Mikið er rætt um minnkandi læsi og hverfandi bóklestur hér á landi. Þegar lærður bókmenntafræðingur á launum hjá ríkinu með fasta sumarleyfisdaga, veikindadaga og hlunnindi leggst gegn því að sjálfstætt starfandi rithöfundar leiti nýrra leiða til að fá greitt fyrir störf sín getum við alveg eins plantað börnunum okkar beint fyrir framan YouTube og sjálf haldið áfram að skrolla á Instagram.
Síðasti naglinn í líkkistu bókarinnar væri að aftengja framleiðslu rithöfunda markaðshagkerfinu. Því þvert á það sem höfundar fjárlaga halda lifa rithöfundar ekki á loftinu.
Athugasemdir