Enn ein fjárlögin. Enn einu sinni sama röflið í fjölmiðlum. Hækkun skatta segir einn. Engar skattahækkanir segir annar. Í þetta skiptið hef ég ekki tekið eftir tilkynningum um skattalækkanir. Ef það eru einhverjar þá fer allavega mjög lítið fyrir þeim.
Sama fyrirsjáanlega og yfirborðskennda umræðan og venjulega.
Ég hef skoðað fjárlög og fjármálaáætlanir undanfarinna ára svona ágætlega vel – að mínu mati. Það eru nokkur atriði sem ég skoða fyrst. Það er spáin um launaþróun, verðlagsþróun og hagvöxt á næsta ári. Það gefur mér vísbendingu um það hvernig grunnur hagkerfisins er að breytast á næsta ári – með tilheyrandi áhrifum á opinber fjármál. Svo skoða ég breytingar á milli ára, og með tilliti til grunnstærðanna skoða ég hverjar stærstu breytingarnar eru. Þær breytingar fara tilfinnanlega umfram, eða undir launaþróun+verðbólgu. Því næst reyni ég að komast að því af hverju þær breytingar eru að gerast.
En byrjum á þessari yfirborðskenndu umræðu.
Skattar skipta máli
Þó skattar skipti auðvitað gríðarlega miklu máli, þá skiptir meira máli að ræða efnislega hvað stjórnvöld eru að gera við almannafé. Það er hægt að væla yfir skattahækkun á fyrirtæki, almennt séð, en ef afleiðingin er heilbrigðara hagkerfi þá er það góð skattahækkun. Sama getur átt við um skattalækkun. Það er ekki hækkunin eða lækkunin sem skiptir máli heldur afleiðingarnar sem breytingarnar hafa.
Hverjar eru breytingarnar þá í þessu frumvarpi? Fjárlög 2026 fela í sér markverðar skattkerfisbreytingar sem snúa að tekjuskatti heimila (afnám þess að deila persónuafslætti með maka), skattlagningu á notkun bifreiða (kílómetragjald) og verðlagsuppfærslum krónutöluliða. Miðað við spá um 3,2% verðbólgu og hækkun krónutöluskatta um 3,7%, þá erum við að sjá skattahækkun á þeim liðum.
Verða áhrifin á hagkerfið góð eða slæm, og fyrir hvern? Eins og venjulega þá eru greiningarnar ekki aðgengilegar. Kannski eru þær til, en þær eru allavega ekki birtar í fjárlagafrumvarpinu eða fylgigögnum. Nákvæmasta greiningin er vegna kynjaðrar fjárlagagerðar þar sem fjallað er um afnám samnýtingar persónuafsláttar sem hafi farið aðallega til karla – eða 81% til karla og 19% til kvenna.
Semsagt, eins og alltaf – að mestu leyti yfirborðskennd umfjöllun ef frá er talin kynjaða fjárlagagerðin.
Helstu breytingar
Skattar eru annar helmingur hagkerfisjöfnunnar, að minnsta kosti hvað opinber fjármál varðar. Hinn helmingurinn eru útgjöld. Til þess að skilja þróun á opinberum fjármálum á milli ára þá þarf að skoða þróun stærstu áhrifavaldanna. Hver er launaþróun, verðlagsþróun og hagvöxtur á næsta ári? Spáin er 3,2% verðbólga, 2,5% hagvöxtur og 3,8% hækkun á launum opinberra starfsmanna. Gert er ráð fyrir því að launakostnaður ríkisins verði 352.536,7 m.kr. Fjárlagafrumvarp síðasta árs gerði ráð fyrir 329.396,3 m.kr. Samtals er þetta 7% hækkun á milli ára, en gert var ráð fyrir 4,2% hækkun launa.
Eins og er þá er gert ráð fyrir því að það muni 15 ma.kr. á tekjum og gjöldum (gjöldin eru hærri). Það er frávik innan skekkjumarka (1% af heildinni) þannig að við ættum ekkert að fara á límingunum við að sjá svoleiðis mínus. Þetta er í kringum meðaltalshalla fjárlaga þessarar aldar meira að segja.
Í töflunni hér fyrir neðan eru helstu breytingar merktar. Þar má sjá marktækar breytingar á 21 málefnasviði (miðað við að eðlileg breyting verði vegna launa- og verðlagsþróunar). Það þýðir að hækkun er í raun ekki eins mikil og hún lítur út fyrir að vera, en lækkun er í raun meiri.
Málefnasvið |
2025 |
2026 |
%breyting |
01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess |
6 918.0 |
6 999.5 |
1.18 |
02 Dómstólar |
4 273.4 |
4 602.3 |
7.70 |
03 Æðsta stjórnsýsla |
3 098.2 |
3 233.0 |
4.35 |
04 Utanríkismál |
19 225.8 |
23 154.3 |
20.43 |
05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla |
31 199.7 |
29 831.8 |
-4.38 |
06 Hagskýrslugerð og grunnskrár |
3 360.5 |
3 440.5 |
2.38 |
07 Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar |
37 697.1 |
37 186.4 |
-1.35 |
08 Sveitarfélög og byggðamál |
36 803.2 |
39 428.7 |
7.13 |
09 Almanna- og réttaröryggi |
44 467.8 |
50 134.2 |
12.74 |
10 Rétt. einstakl., trúmál og stjórnsýsla dómsmála |
26 160.8 |
23 557.3 |
-9.95 |
11 Samgöngu- og fjarskiptamál |
66 128.0 |
76 217.8 |
15.26 |
12 Landbúnaður |
24 419.9 |
25 566.9 |
4.70 |
13 Sjávarútvegur og fiskeldi |
8 289.6 |
8 900.6 |
7.37 |
14 Ferðaþjónusta |
2 417.3 |
2 402.6 |
-0.61 |
15 Orkumál |
13 820.7 |
11 586.6 |
-16.16 |
16 Markaðseftirlit og neytendamál |
4 216.6 |
4 895.6 |
16.10 |
17 Umhverfismál |
38 148.2 |
40 489.0 |
6.14 |
18 Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál |
25 283.4 |
24 989.7 |
-1.16 |
19 Fjölmiðlun |
7 149.2 |
7 476.0 |
4.57 |
20 Framhaldsskólastig |
49 118.7 |
53 311.4 |
8.54 |
21 Háskólastig |
69 454.0 |
73 170.4 |
5.35 |
22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála |
7 035.0 |
6 873.1 |
-2.30 |
23 Sjúkrahúsþjónusta |
174 322.9 |
192 293.9 |
10.31 |
24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa |
97 067.5 |
102 779.1 |
5.88 |
25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta |
87 561.6 |
93 213.9 |
6.46 |
26 Lyf og lækningavörur |
44 147.4 |
45 269.9 |
2.54 |
27 Örorka og málefni fatlaðs fólks |
112 523.2 |
132 621.8 |
17.86 |
28 Málefni aldraðra |
121 569.9 |
127 566.1 |
4.93 |
29 Fjölskyldumál |
75 711.0 |
82 574.7 |
9.07 |
30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi |
43 863.0 |
46 210.5 |
5.35 |
31 Húsnæðis- og skipulagsmál |
27 851.1 |
25 901.9 |
-7.00 |
32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála |
12 521.0 |
12 973.8 |
3.62 |
33 Fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar |
180 772.8 |
206 398.2 |
14.18 |
34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir |
24 032.7 |
30 562.3 |
27.17 |
35 Alþjóðleg þróunarsamvinna |
15 010.3 |
16 372.5 |
9.08 |
Hér þarf að taka fram að stærstu breytingarnar eru í raun vegna laga sem voru samþykkt á síðasta kjörtímabili. En það er vegna breytinga á örorkukerfinu. Sú breyting tók ekki gildi fyrr en 1. september síðastliðinn og hafði þannig lítil áhrif á fjárheimildir ársins í ár.
Þar sem ég vinn ekki lengur við að greina fjárlög skil ég það eftir sem heimaverkefni fyrir lesendur að komast að því sjálfir af hverju svona miklar breytingar eru innan einstakra málefnasviða. Það yrði frekar leiðinleg grein að fara í slíka upptalningu fyrir ríkisstjórnina. Tilgangurinn hérna er frekar að útskýra hvernig er hægt að nota fjárlagafrumvarpið – hvernig á að lesa það. Næsta skref er sem sagt að velja málefnasvið sem þú hefur áhuga á, finna það í frumvarpinu og lesa kaflann „Breytingar á útgjaldaramma eftir tilefnum“ í hverju málefnasviði fyrir sig. Málaflokkarnir þar fyrir neðan eru svo með enn nákvæmari sundurliðun á breytingum.
Fyrir sérstaklega áhugasama þá opnar maður næst fylgirit með fjárlögum og skoðar útgjöld málefnasviðsins eins og því er skipt niður á einstaka aðila innan málefnasviðsins til næstu þriggja ára. Þar er til dæmis hægt að sjá að samdráttur á málefnasviði 31 Húsnæðis- og skipulagsmál er vegna um 400 milljóna niðurfellingu vegna náttúruhamfara (skiljanlega þar sem það var einskiptiskostnaður) en svo er lækkun á vaxtabótum um 1,3 milljarða króna á næsta ári og svo 800 milljóna lækkun 2027 sem þýðir að vaxtabætur eru að hverfa. Svona finnur maður ástæður þess að útgjöld málefnasviða eru að breytast.
Annað sem er gagnlegt að skoða í þeim málefnasviðum sem maður hefur áhuga á er hin svokallaða útgjaldabrú.
Það er stundum dálítið vesen að fá upphæðirnar til þess að stemma, en það hefur batnað með árunum. Hérna þarf maður að skilja hvað allar þessar súlur þýða. Í grófum dráttum eru „bundin útgjöld“ eitthvað sem ríkið er búið að skuldbinda sig í að gera. Búið að gera samninga eða yfirstandandi verkefni. „Niðurfellt“ eru yfirleitt einhver einskiptis útgjöld sem þurfa ekki fjármögnun lengur. „Aðhald“ eru einhverjar sparnaðaraðgerðir – oft mjög óljóst hvernig útfærslan á þeim verður. „Ný og aukin verkefni“ eru svo áherslur ríkisstjórnarinnar vegna nýrra eða uppfærðra laga eða verkefna. Annað ætti að segja sig sjálft.
Samhengi
Þegar þessu er öllu púslað saman, frá stóru myndinni um hagstærðir, í helstu breytingar á einstaka málefnasviðum og alveg niður í smáatriði þess af hverju breytingarnar eru að eiga sér stað – þá er loksins hægt að púsla saman einhvers konar samhengi milli stefnu stjórnvalda og áhrifa þeirrar stefnu á samfélagið.
Það væri hins vegar svakalega þægilegt ef maður þyrfti ekki að giska á það hver áhrifin af stefnu stjórnvalda eiga að vera. Sérstaklega af því að samkvæmt lögum um opinber fjármál þá eiga stjórnvöld að segja okkur hver áhrifin verða – með því að gera kostnaðar- og ábatagreiningu. Einfaldlega með því að sýna útreikningana eins og maður lærði að gera í grunnskóla. Við erum hins vegar ekki svo heppin – né ættum við auðvitað að trúa því sem stjórnvöld segja. En það væri allavega miklu auðveldara að votta það að útreikningar stjórnvalda standist ef þau þurfa að sýna þá.
Innan ramma
Við eigum heimtingu á því að stjórnvöld segi okkur af hverju þau eru að afnema vaxtabæturnar – sem dæmi. Á hvaða hópa það hefur áhrif og hversu mikil. Það er ekki nóg að segja: „Gert er ráð fyrir að framlag vegna vaxtabóta lækki um 1,3 ma.kr. og falli brott frá og með 1. janúar 2027“ á sama tíma og stjórnvöld segja að bilið milli tekjuhópa á húsnæðismarkaði hafi vaxið. Eða er það sem sagt bara planið?
Galdurinn – eða öllu heldur sjónhverfingin í fjárlögum hvers árs hefur verið notkunin á þeim merka frasa „innan ramma“. Sjáið til dæmis þessa snilld.
Hérna er markmið um að fjölga íbúðum „innan ramma“. Það er að segja, það á ekki að kosta neitt meira en það sem áður var sett í málaflokkinn. Það á sem sagt að byggja fleiri íbúðir fyrir sama pening og var ekki notaður til þess að byggja fleiri íbúðir á þessu ári. Ekki nóg með það, þá lækkar fjárheimild á málefnasviðinu um 2.128,6 m.kr. frá gildandi fjárlögum.
Ég hef ekki hugmynd um það hvernig á að byggja fleiri íbúðir „innan ramma“ fjárheimilda sem fara minnkandi. Það er allavega ekki hægt að finna útskýringu á þeim galdri í þessu fjárlagafrumvarpi. Líklega á einhver annar að borga – en ef það er málið, af hverju er þetta þá stefna stjórnvalda ef það er svo einhver annar sem byggir og borgar?
Nýjar áherslur?
Ég spyr hvort við getum séð nýjar áherslur með nýrri ríkisstjórn. Já, það eru alveg breytingar á hinum og þessum málefnasviðum. En ég er svona gagnanörd og fyrir mér þá lítur fjárlagafrumvarpið nákvæmlega eins illa út og alltaf. Endalaust mikið af orðum en hvergi sýndir útreikningar. Það væri líklega C í einkunnakerfinu í grunnskóla. Rauður ef það er verið að nota litakóðann.
Athugasemdir