Írski handritshöfundurinn Graham Linehan segist hafa verið handtekinn af fimm vopnuðum lögreglumönnum á Heathrow-flugvelli í Lundúnum á mánudag vegna færslna hans á samfélagsmiðlinum X.
Linehan er höfundur bresku gamanþáttaraðarinnar Father Ted sem naut mikilla vinsælda á tíunda áratugnum en hann er einnig meðhöfundur gamanþáttanna The IT Crowd og Black Books og sem hlutu bæði Emmy-verðlaun og BAFTA-viðurkenningar.
Á síðari árum hefur hann orðið þekktur fyrir andúð sína á málefnum trans fólks og hefur líkt notkun lyfja sem fresta kynþroska við kynbótastefnu nasista.
Channel 4 fjarlægði umdeildan þátt af The IT Crownd af streymisveitu sinni árið 2020 eftir kvartanir um transfóbíu vegna viðbragða persónunnar Douglas við trans manneskju og hatursfullra skoðana Linehan á trans samfélaginu.
Lögreglan í London staðfesti við breska fjölmiðla að karlmaður hefði verið handtekinn við komu frá Bandaríkjunum, grunaður um að hafa hvatt til ofbeldis í færslum á X.
Linehan á að mæta fyrir dóm á fimmtudag í öðru máli þar sem hann er ákærður fyrir áreitni og eignaspjöll gegn trans einstaklingi.
Segir þetta stríð gegn frelsi
„Það er venjan að lögreglumenn á flugvöllum beri skotvopn. Þau voru hvorki tekin upp né notuð við handtökuna,“ sagði í yfirlýsingu lögreglunni í London vegna málsins.
Nigel Farage, bandamaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta og leiðtogi Umbótaflokks Bretlands, sem mælist nú með forystu í breskum skoðanakönnunum, sagðist ætla að vekja athygli á málinu og sambærilegum tilvikum þegar hann kæmi fyrir bandaríska þingið í dag, miðvikudag.
„Mál Graham Linehan er enn eitt dæmið um stríðið gegn frelsi í Bretlandi,“ sagði hann áður en hann kom fram fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildarinnar. „Tjáningarfrelsið verður fyrir árásum og ég hvet Bandaríkin til að vera á varðbergi.“
Starmer vísar í tjáningafrelsi
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, sagði á breska þinginu á dag: „Það er rík hefð fyrir tjáningarfrelsi í þessu landi“ og bætti við að „við verðum að tryggja að lögreglan einbeiti sér að alvarlegustu málunum“.
Lögreglustjórinn Mark Rowley tók í sama streng og sagði að nauðsynlegt væri að breyta lögum. Framvegis myndi lögreglan aðeins rannsaka samfélagsmiðlafærslur „þar sem ljóst er að hætta er á skaða eða óeirðum“.
„Þegar óvissa ríkir bæði um ásetning og mögulegan skaða hefur lögreglan setið föst milli steins og sleggju. Ríkisstjórnir hafa skilið við okkur án annars úrræðis en að skrá slík tilvik sem glæpi þegar þau eru tilkynnt,“ sagði hann og bætti við: „Ég tel ekki að lögreglan eigi að eyða tíma sínum í að stýra eitruðum menningarstríðum.“
Musk sagði Bretland orðið lögregluríki
Linehan sagði að handtakan tengdist þremur færslum sem hann setti inn á X.
Í einni færslunni skrifaði hann: „Ef karlmaður sem skilgreinir sig sem trans fer inn í rými eingöngu ætlað konum, þá er hann að fremja ofbeldisfulla og niðurlægjandi athöfn.“
„Vekið athygli á þessu, hringið á lögregluna og ef allt annað bregst, sparkið í klofið á honum,“ sagði hann.
Handtakan hefur vakið heitar umræður um tjáningarfrelsislög í Bretlandi.
J. K. Rowling, höfundur Harry Potter og þekkt fyrir andúð sína í garð trans fólks kallaði handtökuna „algjörlega hneykslanlega“ og að slíkar handtökur ættu sér aðeins stað í alræðisríkjum.
Elon Musk, milljarðamæringur og eigandi X, sagði Bretland vera orðið að „lögregluríki“.
Zack Polanski, nýr leiðtogi græningja í Bretlandi, studdi hins vegar handtökuna og sagði hana viðeigandi í ljósi efnis færslanna, þó hann bætti við að hann skildi ekki hvers vegna lögreglumenn hefðu verið vopnaðir.
Tjáningarfrelsi hefur verið í brennidepli í Bretlandi að undanförnu eftir að hundruð einstaklinga voru handteknir fyrir að lýsa yfir stuðningi við aðgerðahópinn Palestine Action. Hópurinn var skilgreindur sem hryðjuverkasamtök eftir að meðlimir hans brutust inn á breska flugherstöð og köstuðu málningu á flugvélar.
Umræður blossuðu einnig upp í kjölfar þess að kona var dæmd í 31 mánaða fangelsi á síðasta ári fyrir að hvetja fólk til þess á X að kveikja í öllum gististöðum sem hýsa hælisleitendur.
Athugasemdir