Skömmu áður en breski fjölmiðlajöfurinn Sidney Bernstein lést árið 1993 staðfesti hann orðróm sem hafði lengi gengið manna á milli í bransanum: Sögusagnir um „týnda kvikmynd Alfred Hitchcock“ voru á rökum reistar.
Sidney Bernstein er þekktastur fyrir að vera stofnandi eins stærsta fyrirtækis Bretlands á sviði kvikmyndagerðar og sjónvarpsþáttaframleiðslu. Á tímum heimsstyrjaldarinnar síðari starfaði Bernstein hins vegar hjá breska upplýsingamálaráðuneytinu og stundaði þar kvikmyndagerð.
Þegar hermenn bandamanna héldu innreið sína inn á þýsk yfirráðasvæði í lok heimsstyrjaldarinnar blasti við þeim fordæmalaus hryllingur útrýmingarbúðanna. Kvikmyndadeild breska hersins var með í för þegar fangar búðanna í Bergen-Belsen voru frelsaðir 15. apríl 1945. Myndavélarnar fönguðu óhugnaðinn; 60.000 fangar, 13.000 lík sem lágu eins og hráviði um búðirnar. „Það var engin leið að sjá muninn á lifandi og dauðum nema þegar einstaka skjálfti lék um eða andvarp barst frá beinagrind sem var með lífsmarki en var of veikburða til að hreyfa sig,“ sagði Richard Dimbleby, einn fyrstu blaðamannanna sem mættu á svæðið.
„Einkunnarorðin „við megum aldrei gleyma“ hafa verið höfð um hin ýmsu voðaverk í mannkynssögunni.“
Bernstein óskaði eftir því við bresk og bandarísk yfirvöld að fá að gera kvikmynd byggða á upptökum hermannanna sem fest höfðu óhugnaðinn á filmu. Myndin átti að vera víti til varnaðar. Átti meðal annars að sýna hana Þjóðverjum, sem margir vissu ekki af hroðaverkum sem framin voru í nafni þeirra. Beiðnin var samþykkt og var verkefnið skilgreint sem „aðkallandi“. Bernstein fékk sjálfan Alfred Hitchcock með sér í lið.
Þann 4. ágúst 1945 barst Bernstein bréf frá utanríkisráðuneytinu. Mynd félaganna þótti ekki lengur samrýmast þeirri hugmyndafræði sem lá til grundvallar uppbyggingu í Þýskalandi. Ekki þótti við hæfi að gagnrýna Þjóðverja eða núa þeim ósigrinum um nasir. „Stefna okkar er sú að hvetja Þjóðverja áfram, örva þá og vekja af sinnuleysi sínu.
Við megum aldrei gleyma
Einkunnarorðin „við megum aldrei gleyma“ hafa verið höfð um hin ýmsu voðaverk í mannkynssögunni. Varnaðarorðin komust í almenna notkun í Bretlandi að fyrri heimsstyrjöldinni lokinni – stríðinu sem átti að binda enda á öll stríð. Líklega tengja þó flestir þetta móralska ákall við Helförina en það komst í almenna notkun í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar er óhæfuverk nasista urðu heimsbyggðinni ljós.
Fjöldi þekktra tilvitnana um mátt minnisins sýnir hve útbreidd sú trú er að leiðin að betrun sé að gleyma ekki misgjörðum okkar og göllum og læra af reynslunni. „Þeir sem kjósa að gleyma fortíðinni eru dæmdir til að endurtaka hana.“ „Sagan endurtekur sig kannski ekki en hún rímar.“
Svo kann þó að vera að máttur minnisins sé ofmetinn.
Dragi veröldin ekki lærdóm ...
Það var hinsta ósk Sidney Bernstein að kvikmynd þeirra Hitchcock, sem sýndi afleiðingar þjóðarmorðs nasista á gyðingum, kæmi fyrir sjónir almennings. Draumur hans varð að veruleika árið 2014 með heimildarmyndinni „Night Will Fall“ – Þá dimmir af nóttu – sem byggir á verki þeirra. Titill kvikmyndarinnar vísar til handrits Bernstein og Hitchcock þar sem segir: „Dragi veröldin ekki lærdóm af þessum myndum, þá dimmir af nóttu.“
Kvikmyndin fékk góðar viðtökur og töluverða athygli þegar hún var sýnd í sjónvarpi víða um heim í tilefni þess að 70 ár voru liðin frá frelsun útrýmingarbúðanna í Auschwitz. „Þegar maður hefur einu sinni séð þessar myndir mun maður aldrei geta gleymt þeim,“ skrifaði kvikmyndagagnrýnandi dagblaðsins Guardian.
„Eitthvað annað en minnið hlýtur því að vera að bregðast þegar veröldin horfir svo gott sem aðgerðarlaus upp á annað þjóðarmorð eiga sér stað“
Síðan eru liðin tíu ár. Í vikunni var þess minnst að áttatíu ár eru frá því að seinni heimsstyrjöldinni lauk formlega með uppgjöf Japana. Stuttu fyrr var haldið upp á sigurdaginn í Evrópu þar sem sigurs bandamanna á Þjóðverjum var minnst. Á alþjóðlegum minningardegi um Helförina við upphaf árs var þess minnst að 80 ár voru liðin frá frelsun Auschwitz.
Þannig er varla hægt að halda því fram að við séum búin að gleyma.
Eitthvað annað en minnið hlýtur því að vera að bregðast þegar veröldin horfir svo gott sem aðgerðarlaus upp á annað þjóðarmorð eiga sér stað.
Myndirnar sem blasa við daglega í fjölmiðlum frá Palestínu eru nýjar; kinnfiskasogin andlit, beinaber börn, örvænting í augum, lík sem hráviði um götur. Við höfum þó séð þær áður.
„Ég er sannfærð um að Helförin geti gerst aftur,“ sagði Miep Gies, ein þeirra sem aðstoðaði fjölskyldu Önnu Frank við að fela sig fyrir nasistum í Amsterdam í síðari heimsstyrjöldinni. „Hún er nú þegar búin að gerast aftur: Kambódía, Rúanda, Bosnía.“
Hún gerist nú á Gaza.
Við höfum ekki þá afsökun
Sú pólitíska ákvörðun Breta og Bandaríkjamanna um að skrúfa fyrir mynd Bernstein og Hitchcock þykir nú orka tvímælis. Það var ekki fyrr en bandaríski sjónvarpsmyndaflokkurinn Helförin var sýndur í Vestur-Þýskalandi árið 1979 sem margir Þjóðverjar gerðu sér grein fyrir hve umfangsmikil illvirki Þriðja ríkis Hitlers voru.
Við höfum hins vegar ekki þá afsökun. Við vitum hvað á sér stað á Gaza.
Í dag verða baráttufundir haldnir víða um land þar sem þjóðarmorði Ísraels í Palestínu verður mótmælt.
Það dimmir af nóttu. Minnsta sem við getum gert er að mæta.
En mesti hálfviti heimsins er sá sem fylgir mesta hálfvita heimsins.
Þjóðernishyggjan er líka sennilega eitt það hættulegasta og trúarbrögðin sem skipta fólki í hópa og hvetja stundum til ófriðar.