Finnskur dómstóll hefur dæmt nígerískan aðskilnaðarsinna til sex ára fangelsisvistar fyrir hryðjuverkabrot eftir að hann barðist fyrir sjálfstæði Biafra-héraðs með „ólögmætum leiðum“.
Maðurinn heitir Simon Ekpa, er 40 ára gamall og með tvöfalt ríkisfang; bæði í Finnlandi og Nígeríu. Hann var fundinn sekur um að hafa útvegað hópum aðskilnaðarsinna skotvopn og sprengiefni og hvatt fylgismenn sína til að fremja glæpi.
Lykilmaður
Samkvæmt dómi héraðsdóms Päijät-Häme var hann lykilmaður í samtökum og hópum sem börðust fyrir sjálfstæði suðausturhluta Nígeríu, þar sem borgarastyrjöldin 1967 til 1970 kostaði hundruð þúsunda mannslífa.
Í yfirlýsingu sagði dómstóllinn að Ekpa hefði verið sakfelldur fyrir að „taka þátt í starfsemi hryðjuverkasamtaka og opinbera hvatningu til að fremja hryðjuverk“.
Nýtti sér samfélagsmiðla
Hann var jafnframt fundinn sekur um stórfelld skattasvik. Glæpirnir voru framdir í finnsku borginni Lahti á árunum 2021 til 2024. „Hann notaði samfélagsmiðla til að afla sér pólitískra áhrifa og nýtti ringulreið innan aðskilnaðarhreyfingar í Nígeríu til að taka sér veigamikið hlutverk,“ sagði í dóminum.
Hann tók þátt í skipulagningu starfsemi hreyfingarinnar, meðal annars stofnun vopnaðra hópa „sem héraðsdómurinn taldi vera hryðjuverkasamtök“.
„Ekpa útvegaði hópunum vopn, sprengiefni og skotfæri í gegnum tengslanet sitt. Hann var einnig talinn hafa hvatt og tælt fylgjendur sína á samfélagsmiðlinum X til að fremja glæpi í Nígeríu,“ sagði ennfremur.
Neitaði sök
Ekpa neitaði sök og hélt því fram að hann hefði einungis miðlað skilaboðum stjórnvalda og upplýsingum um atburði í héraðinu.
Hann hefur ítrekað ratað í staðreyndakannanir AFP á undanförnum árum vegna rangra eða villandi fullyrðinga sem hann hefur sett fram í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Biafra-hreyfingarinnar í Nígeríu.
Ekpa hefur búið í Lahti frá árinu 2007 ásamt fjölskyldu sinni. Hann lærði finnsku, fékk finnskan ríkisborgararétt og gegndi herþjónustu í finnska hernum árið 2013 í Häme-herdeildinni í Hennala. Hann er einnig skráður í varalið finnska hersins.
Hann hóf afskipti af finnskum stjórnmálum árið 2012 og hefur verið virkur síðan. Hann bauð sig fram fyrir Íhaldsflokkinn Kansallinen Kokoomus í sveitarstjórnarkosningunum 2017 og aftur í svæðiskosningunum 2022.
Athugasemdir