Sumarið líður senn undir lok. Haustið gengur í garð sem óskrifað blað með angan af nýydduðum blýöntum og metnaðarfullum áformum.
Samkvæmt bandaríska félagssálfræðingnum Daniel Gilbert nálgumst við framtíðar útgáfuna af sjálfum okkur eins og börnin okkar. „Í hvert sinn sem við sækjumst eftir einhverju – stöðuhækkun, hjónabandi, nýjum bíl, ostborgara – væntum við þess að sú manneskja sem ber fingrafar okkar eftir sekúndu, mínútu, dag eða áratug verði okkur þakklát fyrir þær fórnir sem við færðum,“ segir Gilbert. En viðbrögð þessa framtíðarfólks eru oft önnur en við ætluðum. „Við þrælum okkur út til að veita þeim allt það sem við teljum þau þrá en svo segja þau upp vinnunni, safna hári, flytja til eða frá San Francisco og spyrja hvernig við gátum verið svona vitlaus að halda að þetta væri það sem þau vildu.“
Einhverjir leggja nú drög að framtíðar hamingju. Æ fleiri horfa hins vegar til fortíðarinnar í leit að hinu fullkomna lífi.
Mannfælnir skjáfíklar
Nýtt æði grípur nú um sig hér í London þar sem ég bý. Samkvæmt fréttum njóta námskeið í kjötskurði síaukinna vinsælda. Við fyrstu sýn virðist það saklaus dægrastytting að fólk verji frístundum sínum í slátraraleik. Áhugamálið kann þó að vera birtingarmynd af hættulegum misskilningi.
Í síðustu viku mátti lesa frétt á Vísi af því að Mustafa Suleyman, sem fer fyrir þróun gervigreindar hjá Microsoft, hefði áhyggjur af „auknum fjölda tilvika þar sem einstaklingar virðast hafa farið í geðrof eftir að hafa átt samskipti við gervigreind.“
Í fréttinni sagði frá manni, sem leitaði ráða hjá ChatGPT í kjölfar þess að hann taldi sig hafa orðið fyrir ólögmætri uppsögn. Sannfærði gervigreindin manninn um að hann gæti stórgrætt á bók og bíómynd um þrautir sínar. Maðurinn missti tengsl við veruleikann eftir að ChatGPT „tók undir allt“ sem hann sagði, eins og það var orðað, „í stað þess að draga hann niður á jörðina, en þetta er einmitt það sem gervigreindin gerir; leiðir fólk áfram með því sem það vill heyra.“
Vart líður sá dagur að ekki berist fréttir af því hversu ómögulegur samtíminn er. Af fyrirsögnum að dæma erum við öll orðin mannfælnir skjáfíklar, ástfangin af gervigreind eins og Narkissos af eigin spegilmynd, hokin af tilgangsleysi og kyrrsetuvinnu, einmana, angistarfull og týnd í víðáttu eigin sjálfhverfu.
„Vitlíki af holdi og blóði reyna nú að sannfæra okkur um að skyndilækning við áskorunum samtímans finnist í fortíðinni“
Þessi trú á vonleysið hefur alið af sér ranghugmynd sem ekki er hægt að kenna ChatGPT um. Vitlíki af holdi og blóði reyna nú að sannfæra okkur um að skyndilækning við áskorunum samtímans finnist í fortíðinni. Við eigum að fylgja paleo-mataræði, sofa eins steinaldarmenn, hugsa eins og bronsaldarfólk og ala börnin okkar upp eins og veiðimenn og safnarar. En fortíðarblætið á sér skuggahliðar.
Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna rifti nýverið samningi um styrki til þróunar mRNA-bóluefna. Andvísindahyggja er fylgifiskur nostalgíunnar sem veldur því að hinar myrku miðaldir virðast skyndilega þykja eftirsóknarverður tími. Mislingar sækja í sig veðrið vegna lækkandi tíðni bólusetninga. Gamaldags viðskiptatollum er ætlað að endurvekja forna frægð. Það fjarar undan kvenréttindum, umburðarlyndi og víðsýni.
Stórt, feitt og frumstætt zen
Við teljum okkur vita hver við verðum í framtíðinni. Ályktanir okkar eru þó oftar en ekki rangar. Sama gildir um liðna tíð; við höfum lítinn skilning á sjálfum okkur í fortíð.
Sprönguðu forfeður okkar raunverulega um sléttur á mittisskýlum, hraustir, áhyggjulausir og hamingjusamir? Missti steinaldarmaðurinn aldrei svefn af ótta yfir hvað leyndist í myrkrinu? Kveið veiðimaðurinn ekki því að finna enga bráð? Leiddist fólki aldrei á járnöld? Var fortíðin eitt stórt, feitt, frumstætt og friðsælt zen?
Fólk telur sig í beinu sambandi við náttúrulegan einfaldleika liðinna tíma þar sem það snyrtir steikur á helgarnámskeiði í kjötskurði. En forn einfaldleiki ber einnig með sér farsóttir, ættbálkastríð, víkingaárásir, efnahagsþrengingar, skoðanakúgun og ungbarnadauða.
Mannkynssagan er jafnframt full af samræðum fólks sem segir það sem viðmælandinn vill heyra. „Ég sé ekki þessa nýju hrukku sem þú ert að tala um, elskan.“ „Ég er sammála yfirmanninum.“ „Heil Hitler.“ Hvar höldum við að ChatGPT hafi lært hátternið?
Kannski er kominn tími til að við rifjum upp jákvæðar hliðar þess að neyta forskorinnar og vakúmpakkaðrar steikur úr stórmarkaðinum á meðan við hámhorfum á Netflix.
Athugasemdir