Ísland nær ekki markmiði um 41 prósenta samdrátt í samfélagslosun árið 2030. Miðað er við losun ársins 2005. Þetta kemur fram í bráðabirgðaframreikningi Umhverfis- og orkustofnunar sem tekur til greina núverandi aðgerðir í loftslagsmálum. Stofnunin gaf í dag út bráðabirgðatölur um losun gróðurhúsalofttegunda árið 2024.
Einnig má sjá að skuldbindingar Íslands um samdrátt í losun frá landnotkun á árunum 2026-2030 munu líklega ekki heldur nást með núverandi aðgerðum.
Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi jókst milli áranna 2023 og 2024 í tveimur af þremur flokkum sem metnir eru. Þriðji flokkurinn – landnotkun – stóð nokkurn veginn í stað.
Losun jókst um tvö prósent
Samfélagslosun jókst um tvö prósent á milli ára. Hún er einn af þeim þremur flokkum sem losunarbókhaldinu er skipt í. Hinir eru viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir og landnotkun.
Samfélagslosun felur meðal annars í sér losun frá vegasamgöngum, landbúnaði, urðun úrgangs, jarðvarmavirkjunum og fiskiskipum.

Athugasemdir (1)