Haft er eftir Benjamin Franklin að það eina sem ganga megi að vísu í lífinu sé dauðinn og skattar. Eins og árstíðirnar renna upp ein af annarri líta árlegir tekjulistar nú dagsins ljós. Krýning skattakóngs er orðin jafnfastur liður í árinu og jólin og Júróvisjón.
Hátekjulisti Heimildarinnar var birtur í gær en hann er meðal annars unninn upp úr álagningarskrá einstaklinga sem ríkisskattstjóri veitir náðarsamlegast aðgang að einu sinni á ári. Þeim líður þó ekki alltaf eins og sigurvegara sem hreppir 1. sætið.
1) „Þeim sem kvarta yfir sköttum má skipta í tvo hópa: konur og karla.“ – Höfundur óþekktur.
Margir beita sömu nálgun á skatta og dauðann: þeir reyna að forðast þá.
2) „Skattahagræðing er eina vitsmunalega iðjan sem enn skilar ávinningi.“ – John Maynard Keynes hagfræðingur.
Á næsta ári verða liðin tíu ár frá því að nokkuð almenn skattafælni Íslendinga birtist í hinum svokölluðu Panamaskjölum, þegar upplýsingum um aflandsfélög var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca.
3) „Þú verður að greiða skatta. En engin lög kveða á um að þú þurfir að skilja eftir þjórfé.“ – Auglýsing frá Morgan Stanley.
Í Panamaskjölum leyndust 800 félög sem tengdust 600 Íslendingum. Á topp 10-lista yfir banka heimsins með flesta viðskiptavini í Panamaskjölunum var Landsbankinn í níunda sæti.
4) „Hvorki ég né konan mín höfum átt eignir í skattaskjóli.“ Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í pontu á Alþingi.
Skattafælni fangar hversu ólíka sýn fólk hefur á meginhugsunina að baki skattheimtu.
5) „Eins og mæður eru skattar oft misskildir en aldrei fjarri huga manns.“ – Bramwell lávarður, enskur dómari.
Algengt er að þeir skattafælnu telji að skattfé sé ekki ráðstafað af tilskilinni nýtni.
6) „Ég get aðeins lofað einu um geimáætlunina: Skattfé ykkar mun ná lengra.“ – Wernher von Braun, eldflaugaverkfræðingur sem vann fyrir þýska nasista og NASA.
Þeir virðast að auki halda að skattar séu refsing þeim til handa.
7) „Ríka piparsveina ætti að skattleggja þungt. Það er ekki sanngjarnt að sumir menn séu hamingjusamari en aðrir.“ Oscar Wilde rithöfundur.
Aðrir telja skatta hins vegar frelsa okkur undan lögmáli frumskógarins ...
8) „Skattar eru verðið sem við greiðum fyrir siðmenntað samfélag.“ – Oliver Wendell Holmes, bandarískur hæstaréttardómari.
... og tómlæti dýraríkisins.
9) „Ölmusa er köld, grá og kærleikssnauð athöfn. Vilji hinn auðugi rétta hinum fátæka hjálparhönd á hann að greiða skatta sína með bros á vör en ekki kasta í hann aurum eftir geðþótta.“ – Clement Attlee, breskur forsætisráðherra.
En skattar eru ekki aðeins fjárfesting í þeim sem eiga erfitt með að fóta sig.
10) „Einhver situr í skugga í dag vegna þess að einhver annar plantaði tré fyrir löngu.“ Warren Buffett, viðskiptajöfurinn og milljarðamæringurinn sem vill að fólk eins og hann sé krafið um hærri skatta.
Skattar leika stórt hlutverk í velgengni hinn farsælu.
11) „Enginn í þessu landi varð ríkur upp á eigin spýtur. Byggðir þú verksmiðju? Flott hjá þér. En athugaðu: Til að koma varningi þínum í verð fluttir þú hann eftir vegum sem við hin greiddum fyrir; þú réðst starfsfólk sem við hin menntuðum; öryggi innan verksmiðjunnar tryggðu lögregla og slökkvilið sem við hin bárum kostnaðinn af.“ – Elizabeth Warren, bandarískur öldungadeildarþingmaður.
Dauðinn hefur þó kannski eitt umfram skatta.
12) „Þar var dauði og þar voru skattar, en skattarnir voru verri, því dauðinn henti fólk að minnsta kosti ekki árlega.“ – Úr skáldsögunni „Reaper Man“ eftir Terry Pratchett.
Athugasemdir