Í velþekktri sögu um litla gula hænu er boðskapurinn sá að það sé rétt að verðlauna þau sem unnið hafa fyrir því. Litla gula hænan sem sáir korninu, sér um uppskeruna, malar kornið og bakar brauðið fær að njóta ávaxta erfiðis síns á meðan hundurinn, kötturinn og svínið sem sögðu „Ekki ég“ fá ekki að borða brauðið. Þetta upplifum við á ýmsum aldri sem réttláta niðurstöðu. En er það svona sem hlutirnir ganga fyrir sig þegar um tekjur og auð er að ræða í heiminum sem við búum í? Er það svo að við uppskerum öll í fullu samræmi við það sem við sáum?
Út frá þessu má svo velta fyrir sér hvort það sé þannig að eitt prósent Íslendinga, sem hefur tekjur sem eru kannski hundraðfaldar á við lægstu tekjur, sé þá fólk sem er hundraðfalt duglegra við sáninguna á akrinum. Er það svo að við fáum öll þær tekjur og eigum þær eignir sem við eigum skilið?
Sú hugmynd að við fáum og eignumst það sem við eigum skilið hefur verið kölluð verðleikahugsun og samfélag sem grundvallast á slíku er þá verðleikasamfélag (e. meritocracy). Samkvæmt því á að verðlauna fólk í samræmi við dugnað, vinnusemi, hæfileika og svo framvegis sem á þá jafnframt að vera hvatning fyrir okkur öll til að gera sem best og mest. Þetta hefur þótt réttlátara en ýmiss konar kerfi sem fela í sér klíkuskap og misrétti, sem mismuna fólki eftir ætterni, kyni, kynþætti, eða hverri annarri af þeim fjölmörgu breytum sem mannkynið hefur verið iðið við að finna upp á til að reyna að réttlæta það að sumum sé hyglt á meðan níðst er á öðrum. Verðleikasamfélagi hefur þannig verið hampað sem hinu ákjósanlega fyrirkomulagi og þannig talið réttlátt að hin verðleikamiklu fái meira af gæðum, peningum og ýmsu öðru en þau sem hafa minni verðleika. Gæði eiga samkvæmt þessu að vera í réttu hlutfalli við verðskuldun. Til að fá eitthvað gott þá þurfum við að eiga það skilið. Þessi hugsun kemur mikið við sögu þegar við hugsum um peninga: að fólk verðskuldi þá með því að vinna mikið eða vera með einhverjum öðrum hætti sniðugt og útsmogið í að afla þeirra.
Hvort við búum í raun og veru í verðleikasamfélagi er nokkuð sem virðist fremur ósennilegt þótt við höfum ákveðna tilhneigingu til að trúa því. Það er mjög freistandi fyrir hvert og eitt okkar að trúa því þegar vel gengur að það sé vegna eigin verðleika. Ef mér er boðin stöðuhækkun, launahækkun, nýtt starf eða eitthvað annað sem mér finnst eftirsóknarvert, þá er freistandi fyrir mig að trúa því að ég eigi þetta skilið, ég hafi unnið mér inn fyrir þessu, hafi verið valin fram yfir aðra umsækjendur vegna verðleika minna, og að það sem eigi sér stað sé réttlátt. Hinn möguleikinn, að ég hafi bara verið heppin og að þarna úti sé annað fólk sem eigi þetta ekkert síður skilið en ég en fær ekkert, er miklu óþægilegri. Enn óþægilegri tilhugsun er að ég hafi kannski fengið einhver gæði vegna klíkuskapar eða einhvers misréttis þannig að það hafi jafnvel verið brotið á öðrum til að hygla mér.
„Mörg þeirra sem vinna erfiðustu vinnuna og hafa lengsta vinnudaginn eru meðal hinna fátækustu í heiminum
Finna má gnægð vísbendinga um að peningum heimsins sé ekki í raun og veru skipt í réttu hlutfalli við vinnuframlag eða aðra verðleika. Dreifing á fjármunum og eignum er ójöfn, svo vægt sé til orða tekið, og mörg þeirra sem vinna erfiðustu vinnuna og hafa lengsta vinnudaginn eru meðal hinna fátækustu í heiminum. Þess utan er sólarhringurinn ekki nógu langur, og einstaklingsmunur á mannlegri getu ekki nægilega mikill, til að hægt væri að skýra hinn gríðarlega mun sem er á tekjum fólks með ólíku vinnuframlagi eða útsjónarsemi. Það stenst hreinlega ekki að ein manneskja geti í raun og veru verðskuldað hundrað sinnum meira en önnur, hvað þá þúsund sinnum meira.
Það blasir því við að sá heimur sem við lifum í er ekki sannkallað verðleikasamfélag. Grundvallarskilyrði til að slíkt samfélag sé mögulegt er að öll njóti jafnra tækifæra. Ef sum okkar byrja með forskot á meðan önnur búa við miklar hindranir getur keppnin ekki verið sanngjörn og hið sama gildir auðvitað ef við búum við reglur sem skapa hindranir fyrir sum okkar. Sum börn fæðast inn í vellauðugar fjölskyldur og frábærar aðstæður meðan önnur fæðast inn í fjölskyldur skuldaþræla, bókstaflega. Hvernig gæti okkur dottið í hug að börn úr svo ólíkum aðstæðum gætu vaxið upp í réttlátri samkeppni við hvert annað?
En væri sannkallað verðleikasamfélag eitthvað sem við gætum kallað fullkomið eða í það minnsta samfélag sem fæli í sér réttláta skiptingu? Hugmyndin er að í slíku samfélagi hlyti fólk gæði í samræmi við raunverulega verðleika sína því það hefði allt fengið sambærileg tækifæri og ætti í samkeppni hvert við annað á fullkomnum jafnréttisgrundvelli. Hér er rétt að víkja að uppruna enska orðsins ‚meritocracy‘, sem mun koma úr dystópískri framtíðarskáldsögu breska félagsfræðinsgins Michael Young, The Rise of the Meritocracy, sem kom út árið 1958. Þar segir frá skýrslu ritaðri árið 2034 um verðleikasamfélag þar sem greindarvísitala ákvarðaði röðun fólks í samfélagsstiganum, sem endaði svo með uppreisn lægstu stéttanna. Boðskapur sögunnar er að stéttaskipting byggð á greind væri ekkert réttlátari en stéttaskipting byggð á ættartengslum eða einhverju öðru. Í grein ritaðri árið 2001 lýsti Young áhyggjum sínum af þeirri jákvæðu mynd sem orðið ‚meritocracy‘ væri farið að hafa í hugum fólks: „Það er skynsamlegt að úthluta fólki störfum í samræmi við verðleika. Það er hið gagnstæða þegar þau sem eru talin hafa tiltekna gerð verðleika verða að nýrri stétt sem ekki hefur rými fyrir hin.“1
Gagnrýni á verðleikahugmyndina sem slíka má einnig finna hjá heimspekingnum Michael Sandel,2 og raunar mörgum öðrum líka. Meðal þess sem Sandel bendir á er hve slæm áhrif það hefur þegar hluti fólks trúir því að eigin velgengni sé einungis því sjálfu og frábærum kostum þess að þakka og að þau sem njóta minni velgengni eigi bara ekkert betra skilið og geti sjálfum sér um kennt. Að sama skapi þá ættu þau sem ættu og þénuðu minna bókstaflega að trúa því að skýringin væri bara að þau væru svona kolómöguleg og ættu ekkert gott skilið. Þetta yrði tæplega samfélag sem gæti talist gott, hvað þá til fyrirmyndar.
Líklega eigum við öll alls konar góða hluti skilið, bæði peninga og ýmislegt sem hægt er að kaupa fyrir þá og svo ekki síður þau lífsgæði sem ekki verða keypt. Hversu margar krónur hvert og eitt okkar á skilið að eignast er engan veginn augljóst en víst má teljast að þegar misskiptingin verður tíföld, hundraðföld eða meira þá er óhugsandi að hún endurspegli raunverulegan mun á því sem við eigum skilið.
Athugasemdir