Iceland Review, elsti fjölmiðill Íslands á ensku, hætti prentútgáfu sinni í nóvember í fyrra. Forstjóri þess segir tímaritið of dýrt í framleiðslu og hefur undanfarið birt fjölda gervigreindarmyndbanda til að laða að auglýsendur en mörg þeirra birta skrumskælda mynd af Íslandi.
Eitt myndbandið hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum en þar er Hafnarfjörður auglýstur með gervigreindarrödd sem líkir eftir David Attenborough, þul breskra náttúrulífsmynda. Teiknaður víkingur dansar að „fornum víkingasið“ við lútuleik en á skiltum í kring stendur „Vikarrfjóriður“ og „Hnkarrfjórrður“.
„Hvað í ChatGPT fjáranum var ég að horfa á?“ spyr tónlistarmaðurinn Svavar Knútur á samfélagsmiðlinum Bluesky.
Iceland Review hafði verið gefið út á prenti síðan 1963, landkynningarrit með ljósmyndum prentað á gæðapappír. Myndir úr blaðinu hafa ítrekað verið valdar sem fréttamynd ársins. Undanfarna áratugi hefur vefsíða þess einnig birt íslenskar fréttir á ensku og þýsku.

En samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar var prentútgáfu hætt í nóvember í fyrra án tilkynningar. Skipt hefur verið um ritstjóra og áherslan nú á að bóka hópferðir fyrir ferðamenn í gegnum síðuna. Þá hafi forstjórinn boðað innleiðingu gervigreindar hjá fyrirtækinu. Fréttir birtast nú á vefnum á átta tungumálum en bent er á að Iceland Review noti sjálfvirk þýðingartól og því geti „sumar þýðingar innihaldið villur eða misst blæbrigði“.
Í eigu félaga í ferðaþjónustu
Félög á sviði ferðaþjónustu eru helstu hluthafar í Iceland Review. Viktor Ólason er forstjóri og stærsti eigandi fyrirtækisins með tæp 29 prósent en á meðal annarra hluthafa eru ferðaþjónustufyrirtækið Kú Kú Campers og félag Gísla Eylands, framkvæmdastjóra Tröll hópferða.
Þá á Draupnir fjárfestingafélag í eigu Jóns Diðriks Jónssonar, eiganda viðburðafyrirtækisins Senu, um tíu prósent í Iceland Review. Jafn stóran hlut á félag Kristjáns M. Grétarssonar fjárfestis sem hefur átt töluvert í flugfélaginu Play í gegnum tíðina og sömuleiðis félag í eigu Rannveigar Grétarsdóttur, stofnanda Eldingar hvalaskoðunar og félag í eigu Sveins Andra Sveinssonar ráðgjafa.
Einkasamningur við kínverska ríkismiðilinn
Viktor hefur birt fjölda myndbanda á YouTube síðu sinni sem virðist beint til mögulegra auglýsenda Iceland Review. Þau hampa því að miðillinn nái beint til útlendinga sem áhugasamir séu um Ísland.
„Við skiptum út prentvélunum fyrir efnisstjórnunarkerfi“
„Við skiptum út prentvélunum fyrir efnisstjórnunarkerfi,“ segir gervigreindarrödd á ensku í einu myndbandanna. „Skyndilega víkkaði umfang mitt. Ég var ekki lengur bundin við pappír og gat deilt undrum Íslands með leiðum sem ég hafði ekki áður ímyndað mér.“

Myndböndin birta mörg hver undarlega ímynd af Íslandi þar sem útlit Reykjavíkur og Hafnarfjarðar birtist gjörbreytt, landslag og örnefni eru skrumskæld og siðir og menning Íslendinga sýnd á skjön við raunveruleikann.
Í einu myndbandanna segir að samkvæmt könnun í Kína „meðal efnafólks“ hafi 16 milljónir sett Ísland í fyrsta sæti á svokallaðan „bucket list“ um áfangastaði. „Með virkni Iceland Review á kínverskum samfélagsmiðlum og einkasamningi við Kínverska ríkissjónvarpið veitum við þér aðgang til að auglýsa í gegnum Iceland Review inn í Kína og til Kínverja um heim allan,“ segir í myndbandinu. „Bara samningurinn við CCTV+ veitir þér aðgang að 810 lókal fréttastofum innan Kína og 2.513 vefmiðlum sem þjóna kínverskumælandi víða um heim.“
Viktor fundaði með He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, í desember í fyrra. Hvatti He hann til að efla samskipti landanna tveggja á sviði menningar, ferðamennsku og viðskipta í gegnum Iceland Review og samfélagsmiðla þess, að því segir í frétt á vef utanríkisráðuneytis Kína.
Næsta stórþjóð ferðamennskunnar
Í samtali við Heimildina segir Viktor: „Það var orðið of dýrt að framleiða tímaritið,“ um breyttar áherslur. Hann segir að gervigreindin verði notuð í markaðssetningu en að áfram verði unnið ritað efni og myndbandsefni. „Svo erum við að fikra okkur inn í það að hafa einhverjar tekjur af ferðasölu, auglýsingasölu og áskrift. Þetta er ennþá í tapi hjá okkur og við erum að fjárfesta en það er trú okkar á að þetta muni vera framtíðin,“ segir hann.
„Þetta er orðið það sem við köllum margmiðlunarheimur þar sem við erum að fá heimsóknir yfir tveggja milljóna manna í hverjum einasta mánuði. Plús það sem er að gerast í Kína,“ segir Viktor. Þá keppir Iceland Review nú við Meta og Google um auglýsingar.

Viktor segir Kína verða „næstu stórþjóð í ferðamennsku á Íslandi“. Það hafi verið ákveðin forsenda gerðar einkasamningsins við kínverska ríkisfjölmiðilinn. Þá eiga áætlunarflug frá þremur borgum í Kína einnig að hefjast á næsta ári. „Þannig við viljum koma okkur fyrir þarna fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki,“ segir Viktor. Hann segir að í samningnum felist fleiri tækifæri en með honum geti Kínverjar – sem geta ekki notað Facebook og Google – bókað ferðir og keypt vörur frá Íslandi í gegnum vefsíðu Iceland Review.
Gervigreindin fær flesta smelli
Viktor segir að gervigreindin sé „hagkvæm og nýi tíminn.“ Hún hafi reynst tímaritinu vel en hann sé meðvitaður um skiptar skoðanir á notkun hennar. „Það er eins og þegar ritvélin kom, allir einkaritarar voru skíthræddir. Nú eru þeir sem hanna auglýsingar skíthræddir og það má alveg deila um það,“ segir hann.

Viktor segir að smellt sé oftar gervigreindarmyndböndin en önnur myndbönd. „Þetta er spurning um að tekið sé eftir þér,“ útskýrir hann. Blaðamaður spyr hvort það geti ekki talist óvarlegt að birta gervigreindarmyndbönd þar sem íslenskur raunveruleiki sé skrumsældur. Viktor svarar: „Þetta er alveg eins og með álfana og Húsavík. Þetta á að vera í léttari kantinum. Fólk gerir sér grein fyrir því, vídjóið er þannig uppbyggt.“
Hann segir að á vefsíðu Iceland Review sé hægt að finna raunverulegar myndir og myndbönd, til dæmis af Hafnarfirði, en að gervigreindin nái fólki inn á síðuna. „Þetta er til að fá fólk til að klikka á auglýsinguna,“ útskýrir hann.
Athugasemdir (1)