Í mars árið 2006, í miðju góðæri, sendi Danske Bank frá sér skýrslu þar sem dregin var upp svört mynd af íslensku efnahagslífi. Spáði bankinn kreppu á komandi misserum.
Upphófst í kjölfarið rógsherferð sem beindist að skýrslunni, Danske Bank og jafnvel Dönum sjálfum. Fyrirsagnir í boði greiningardeilda íslensku bankanna og hagfræðinga fylltu síður blaðanna: „Umhugsunarvert hvað bankanum gengur til“ - „Uppfyllir ekki kröfur um fagleg vinnubrögð“ - „Rætnar vangaveltur“. Ekki leið á löngu uns íslenskir stjórnmálamenn blönduðu sér í málið. Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, sakaði Dani um að láta „samkeppnissjónarmið“ ráða för. Velti hún því fyrir sér hvort „sjálfsímynd Dana“ hefði „eitthvað rispast eftir að Íslendingar fóru að fjárfesta í stórum stíl í Danmörku.“
Við vitum öll hvernig ævintýrið endaði.
Gagnrýnislausar klappstýrur
Í síðasta tölublaði Heimildarinnar mátti lesa yfirgripsmikla umfjöllun um fjöldaferðamennsku hér á landi og áskoranir henni tengdri. Börn manns, sem jarðaður var frá Víkurkirkju í júní, sögðu frá því hvernig tugir ferðamanna hefðu valdið ónæði við athöfnina, tekið myndir þegar kistan var borin inn, reynt að komast inn í kirkjuna og togað í fánann sem var dreginn í hálfa stöng. Íbúar í Vík lýstu áhyggjum af álagi á innviði, einhæfum atvinnumarkaði og stöðu íslenskunnar sem viki fyrir ensku í þorpinu. Erlent starfsfólk í ferðaþjónustu lýsti réttindabrotum, hvernig það væri hýst í þröngum híbýlum og þeim borgað undir töxtum.
Í ár eru fimmtán ár liðin frá því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 kom út. Í skýrslunni var meðal annars fjallað um hve fáir þorðu að tjá sig gagnrýnið um það sem þá var talið íslenska bankaundrið.
Íslenskt samfélag virðist þó lítið hafa lært af skýrslunni því enn á ný rís upp sú krafa að landsmenn gerist gagnrýnislausar klappstýrur heillar atvinnugreinar.
Ofsafengin viðbrögð
Í umfjöllun Heimildarinnar um fjöldaferðamennsku kvað viðmælandi marga hrædda við að gagnrýna ferðaþjónustuna. Ofsafengin viðbrögð hagsmunaaðila við umfjöllun blaðsins sýnir að sá ótti er á rökum reistur.
Í kjölfar umfjöllunarinnar kvað við kunnuglegan tón. Fyrrverandi formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sagði um að ræða „rætna herferð“. Velti hún fyrir sér hvað blaðinu gengi til, „undan hvaða rótum“ skrifin væru runnin. Sveitarstjóri Mýrdalshrepps kallaði skrif blaðsins „pólitíska aðför“. Hann varpaði fram efasemdum um hversu fagleg vinnubrögð blaðsins væru og vísaði í fréttaflutninginn með fyrirvaranum „ef fréttaflutning skyldi kalla“. Minnti hann á að „orð“ hafi „afleiðingar“.
Á góðærisárunum í kringum 2006 og 2007 var eins og þegjandi samkomulag ríkti með þjóðinni: Aðgát skal höfð í nærværu peninga. Allir áttu að tipla á tánum kringum peninga líkt og þeir væru viðkvæmt blóm sem ekki þyldi tramp – eða sofandi ófreskja sem ekki mætti vekja. Við vorum öll á sama báti, góðærisbáti, og honum skyldi enginn rugga með óábyrgu tali, óæskilegri hegðun eins og að spyrja spurninga, segja sannleikann, nota skynsemina eða benda á það þegar keisarinn var nakinn. Helsti ógnvaldur góðærisins voru orð.
Dæmin sýna hins vegar að þegar krafan um þögla samstöðu er hæst er þörfin á sjálfskoðun oft mest.
Af „engri ástæðu“
Í júní árið 2018 birtist eftirfarandi fyrirsögn í fréttamiðlinum sem þá hét Stundin: „WOW air birtir ársuppgjör seinna en í fyrra af „engri ástæðu““.
Ásakanir um rætni, annarlegar hvatir og skort á fagmennsku létu ekki á sér standa: „Það er verið að raða saman sögusögnum og slúðri ... Til hvers er þetta?“ mátti lesa á samfélagsmiðlum. „Ef þeim [sic] vantar hugmyndir að efni til að skrifa um þá er af nógu áhugaverðu að taka þegar kemur að WOW air. Meðal annars hvernig hver einasti starfsmaður lagðist á eitt að byggja upp öflugt flugfélag með jákvæðni, áhuga og eljusemi að leiðarljósi,“ skrifaði annar.
Ekki leið á löngu uns í ljós kom að það var ekki af „engri ástæðu“, eins og Skúli Mogensen orðaði það, að WOW air tafði að kynna ársuppgjör sitt. Við vitum öll hvernig ævintýrið endaði – nokkrum mánuðum síðar fór fyrirtækið í þrot.
Konan mótmælir helst til kröftuglega
„The lady doth protest too much, methinks,“ er sagt í Hamlet um konu nokkra sem heitir því af svo yfirdrifinni staðfestu að hún muni aldrei ganga að eiga annan mann eftir andlát eiginmanns síns að yfirlýsingin þykir ekki trúverðug.
Umfjöllun Heimildarinnar um ferðaþjónustuna bendir til þess að ýmsu sé ábótavant innan greinarinnar. Það eru hins vegar yfirdrifin viðbrögð hagsmunaaðila sem vekja grun um að vandinn sé alvarlegur. Því „konan mótmælir helst til kröftuglega, þykir mér.“
Sveitarstjóri Mýrdalshrepps kvað umfjöllun Heimildarinnar um ferðaþjónustuna „siðlausa“. Í kjölfar drukknunar níu ára stúlku frá Þýskalandi í Reynisfjöru um síðustu helgi er það þvert á móti krafan um þögla samstöðu með greininni sem er siðlaus.
Athugasemdir (3)