Nýlega kynnti mennta- og barnamálaráðherra aðra aðgerðaáætlunin Menntastefnu til 2030 sem gilda á fyrir árin 2025–2027, með fögrum fyrirheitum um samvinnu, lýðræði, sjálfbærni og vellíðan. En þegar grannt er skoðað reynist lítið um raunverulegar aðgerðir, skýra mælikvarða, tímalínu eða úrræði. Enn á ný höfum við í höndum þéttskrifað skjal fullt af hástemmdum yfirlýsingum án raunverulegs innihalds eða skýrra lausna, við fengum enn eitt orðasalatið.
Í aðgerðaráætlunina vantar alla dýpt. Þó markmið og megináherslur fimm stoða menntastefnunnar séu háleitar eru þau sett fram án skýrrar verkáætlunar með tímaramma, fjármögnun og aðferðum. Ábyrgð er oft sett á „alla“ eða „alla aðila skólasamfélagsins“ án þess að það fylgi skýrt hvernig skal framkvæma eða með hvaða úrræðum. Í áætluninni er endurtekið orðað að það þurfi að „styrkja“ eða „auka“ ýmislegt, en hvernig? Með hvaða fjármagni? Með hvaða sérfræðingum? Hvernig á t.d. að fjölga kennurum?
„Getur það farið saman að efla menntakerfið um leið og fjárframlög til menntunnar eru skorin niður?“
Það sem gerir þetta sérstaklega alvarlegt er að á sama tíma og þessi háfleyga áætlun er kynnt, hefur ríkisstjórnin tilkynnt niðurskurð í framlögum til menntamála um 2,5 milljarða króna á næstu árum. Getur það farið saman að efla menntakerfið um leið og fjárframlög til menntunnar eru skorin niður? Hvernig á þessi ágæta menntastefna að raungerast þegar stjórnvöld senda bein skilaboð um að menntun sé ekki fjárfestingarinnar virði?
Sérstaklega vekur athygli að ekki er tekið á brýnum vandamálum eins og kennaraskorti, lestrarvanda barna, breikkandi bili milli hópa í samfélaginu og minnkandi aðgengi að sérfræðiþjónustu innan skólanna þrátt fyrir lög um farsæld barna. Þar hefði þurft að setja skýrar og mælanlegar aðgerðir en ekki einungis að kalla eftir „samstarfi“ eða „heildarsýn“.
Kennarar, nemendur og foreldrar þurfa annað og meira en háleitt orðasalat. Það þarf raunverulega fjárfestingu, ábyrgðarskiptingu og framkvæmdaáætlun með tímalínu semsagt alvöru aðgerðaáætlun. Ef við ætlum í alvöru að efla menntakerfið og búa börnum okkar undir framtíð sem byggir á jöfnuði og tækifærum þá verðum við að krefjast meira af stjórnvöldum en þeirrar aðgerðaráætlunar sem nú er sett fram sem er ekkert annað í raun en gamalt vín á nýjum belgjum.
Aðgerðaáætlun án raunverulegra aðgerða er nefnilega skeytingarleysi í dulargervi. Við sem störfum í menntakerfinu höfum ekki þolinmæði fyrir fleiri óljósum og innihaldssnauðum aðgerðaáætlunum, við þurfum raunverulegar aðgerðir sem fjölga kennurum, bæta kjör þeirra og aðstæður, auka aðgengi að úrræðum og námsefni fyrir nemendur. Við þurfum aðgerðaáætlun sem tryggir að markmið menntastefnunnar verði meira en bara orð á blaði. Er menntakerfið ekki þess virði?
Athugasemdir