Sextíu ár eru liðin frá því að tónlistarmaðurinn Bob Dylan olli uppnámi í heimi þjóðlagatónlistar er hann lagði frá sér kassagítarinn og mundaði rafmagnsgítar.
Hinn 25. júlí árið 1965 kom Dylan fram á frægri þjóðlagahátíð í Newport. Þegar trúbadorinn og hljómsveit hans birtust með rafmagnshljóðfæri á sviðinu ætlaði allt að verða vitlaust. Daður Dylans við nýjungar var illa séð. Áhorfendur púuðu og Dylan hrökklaðist af sviðinu eftir aðeins þrjú rafmögnuð lög.
Atvikið markaði upphaf nýrra tíma. Nú, sextíu árum síðar, berst Dylan hins vegar gegn nýjum tímum.
Nýverið tilkynnti tónlistarmaðurinn, sem orðinn er 84 ára, að hann hygðist halda í tónleikaferð um Bretland og Írland. Símar eru bannaðir á tónleikunum en tónleikagestum verður gert að geyma símana í læstum pokum meðan á þeim stendur. Vill Dylan að tónlistarunnendur njóti augnabliksins í stað þess að taka tónleikana upp á snjallsíma til að njóta síðar og spilla þannig fyrir upplifun þeirra sjálfra og annarra.
En eru farsímar raunverulega sú ógn við upplifun tónleikagesta og Dylan vill vera láta?
Símar og listir
Í júní síðastliðnum skemmdi ferðamaður aldagamalt málverk í Uffizi safninu í Flórens. Maðurinn hugðist leika eftir stellingu viðfangsefnis málverksins, prinsins Ferdínands 1. de’ Medici, fyrir „meme“-mynd. Ekki vildi þó betur til en svo að hann missti jafnvægið og rak sig í málverkið sem rifnaði. Aðeins nokkrum dögum fyrr hafði snjallsími átt þátt í að demantssleginn stóll, listaverk innblásið af Van Gogh, splundraðist í Veróna þegar túristi settist á hann fyrir myndatöku.
Við fyrstu sýn virðist sem símar og listir eigi illa saman. Sé betur að gáð blasir hins vegar við stærri vandi en nútímatæknin.
Angist af öðrum toga
Foreldrar sem hafa varið sumarfríinu með afkvæmum sínum vita að börn gera mann gráhærðan. Þau halda okkur þó einnig ungum.
Ellefu ára dóttir mín og vinkonur hennar eru duglegar að kynna mæðrum sínum nýjustu strauma og stefnur á sviði dægurtónlistar. Nýverið sannfærðu þær okkur um að fara með sig á tónleika með bandarísku tónlistarkonunni Billie Eilish. Í samanburði við tónleikana sem þær höfðu áður betlað út, heila útihátíð af kóreskum strákahljómsveitum, hljómaði hugmyndin sem söngur í eyrum okkar.
„Það var hins vegar ekki fyrr en Eilish hóf upp raust sína að ljóst varð að upplifunin yrði ekki sú sem við höfðum ætlað“
Eftirvænting mæðranna var næstum jafnmikil og stúlknanna þar sem við stóðum í klukkustundarlangri biðröð til að kaupa stuttermaboli með mynd af söngkonunni, sem þekkt er fyrir drungalega sjálfsskoðun og sálarangist í tónlist sinni.
Með stuttermaboli dætranna í tau-innkaupapokum gengu miðaldra mæðurnar inn í tuttugu þúsund manna tónleikasal og barndóm. Þótt Eilish væri enginn Kurt Cobain þóttumst við þess fullvissar að okkar biði rafmagnað tregarokk, hljómagangur samofinn angist unglingsára okkar, sem kæmi okkur í beint samband við hið liðna.
Okkar beið hins vegar angist af öðrum toga.
Þegar Billie Eilish birtist á sviðinu hóf fjöldinn símana til himna eins og við var að búast. Það var hins vegar ekki fyrr en Eilish hóf upp raust sína að ljóst varð að upplifunin yrði ekki sú sem við höfðum ætlað.
„To take my love away,“ söng Eilish.
Það var þó ekki Eilish sem flutti okkur orðin held skríkjandi smástelpur. Allt í kringum okkur stóðu aðdáendur söngkonunnar sem minntu á villtustu grúppíur Bítlanna þegar frægðarsól þeirra reis sem hæst. Þær kunnu hvert einasta lag og virtust telja sig mættar í karíókí.
Ég hafði greitt fúlgu fjár fyrir að heyra Billie Eilish syngja. Í tvo tíma sat ég hins vegar og hlustaði á aðra tónleikagesti baula lög hennar fullum rómi jafn langt frá laglínunni og sætin okkar uppi í rjáfri voru frá sviðinu.
Tæknileg lygi
Ekki allir tónlistarmenn eru sömu skoðunar og Bob Dylan um að læsa eigi síma tónleikagesta ofan í pokum. Damon Albarn, söngvari hljómsveitarinnar Blur, kvaðst í viðtali ósammála símabanni Dylan. Hann sagði snjallsíma oft geta bætt við upplifun tónleikagesta.
Það er freistandi að skella skuldinni af því sem miður fer í veröldinni á nýjustu tækni. En það var ekki rafmagnsgítarinn sem eyðilagði tónleikana í Newport árið 1965 heldur púandi áhorfendur. Það var ekki síminn sem skemmdi málverkið í Flórens og braut stólinn í Veróna. Það voru áhorfendur sem ollu því að segðist ég hafa heyrt Billie Eilish syngja á tónleikum væri ég tæknilega séð að ljúga.
Aulaháttur mannsins hefur fylgt okkur frá örófi alda. Þangað til við finnum leið til að læsa hann ofan í poka verðum við einfaldlega að lifa með honum.
Athugasemdir (1)