Lyfjastofnun varar við töflum sem líkjast OxyContin en innihalda önnur varasöm efni.
Í frétt á vef stofnunarinnar segir að rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands hafi nýlega borist til greiningar töflur sem líktust lyfinu OxyContin 80 mg töflum í útliti. „Að efnagreiningu lokinni er ljóst að þær innihalda ekki oxýkódon, sem er virka efnið í OxyContin,“ segir í fréttinni.
Í töflunum eru hins vegar önnur efni sem geta verið varasöm. „Fölsuðu töflurnar sem líkjast OxyContin 80 mg innihalda ekki oxýkódon, heldur parasetamól, koffín, kódein, klónazepam, bíperíden og ketórólak. Töflurnar sem greindar voru komu frá Norðurlandi og af höfuðborgarsvæðinu,“ segir í fréttinni.
Þá eru töflurnar stimplaðar með „OC“ og „80“ sem sé misvísandi. „Fölsuðu töflurnar eru hins vegar þykkari en þær löglegu, og filmuhúðin er lausari í sér,“ segir í fréttinni. „Efnin sem greind hafa verið í fölsuðu töflunum eru sum hver notuð í lyfjum sem gefin eru við miklum verkjum, önnur við Parkinsonsveiki, enn önnur við flogaveiki. Ekki er ljóst hver samverkan efnanna í fölsuðu töflunum gæti orðið, áhrifin gætu orðið ófyrirsjáanleg og valdið alvarlegum heilsufarsáhrifum.“
Athugasemdir