Frumvarp Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, um breytingu á lögum um Menntasjóð námsmanna varð ekki að lögum fyrir þinglok.
Með frumvarpinu voru lagðar til breytingar á lögunum frá 2020 í þá átt að stúdentar fengju 20% námsstyrk við lok hverrar annar og 10% styrk við námslok í stað þess fyrirkomulags sem nú er að sækja megi um 30% niðurfellingu láns við námslok ef nám er klárað á tilskildum tíma.
Þá átti frumvarpið að lengja tímann frá námslokum þar til greiðslur hefjast úr einu ári í 18 mánuði. Loks átti að bregðast við þungri greiðslubyrði þeirra námsmanna sem hafa þurft að greiða af fleiri en einni lánategund á sama tíma.
Frumvarpið var í 2. umræðu á Alþingi 26. júní síðastliðinn. Umræðunni var frestað á þeim þingfundi og við tóku umræður um veiðigjöld. Málið komst ekki aftur á dagskrá Alþingis og þarf því að leggja það fram að nýju ef það á að verða að lögum.
„Við höldum áfram að bíða“
Lísa Margrét Gunnarsdóttir, forseti Landssamtaka íslenskra stúdenta, harmar að afgreiðslu frumvarpsins hafi verið frestað. „Málþófið á Alþingi veldur því að þessar bráðnauðsynlegu breytingar á námslánakerfinu sitja á hakanum,“ segir hún. „Þannig að það eru stúdentar sem gjalda fyrir málþóf um veiðigjöld og sitja áfram uppi með íþyngjandi lán og óvissu um hvenær eitthvað verði gert í því að lánakerfið er eins og það er. Við höldum áfram að bíða.“
Hún segir að ef frumvarpið hefði verið samþykkt hefðu verið tekin hæg og örugg skref í átt að betra kerfi. „Mér finnst ótrúlega mikilvægt að þetta dragist ekki lengur því við viljum heildarendurskoðun á lögunum sem átti að fara fram árið 2023,“ segir Lísa. „Auðvitað vonar maður að frumvarpið verði í algjörum forgangi í haust en við héldum að það væri í forgangi núna. Þetta málþóf er búið að taka allan tíma þingsins.“
Athugasemdir (1)