Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Vilja vísa strandveiðifrumvarpi frá

Þing­menn Sjálf­stæð­is­flokks, Mið­flokks og Fram­sókn­ar­flokks vilja stöðva áform rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að tryggja 48 veiði­daga til strand­veiða í ár. Á með­an held­ur mál­þóf um veiði­gjöld áfram á Al­þingi og Ís­lands­met í ræðu­höld­um við það að falla.

Vilja vísa strandveiðifrumvarpi frá
Vilja vísa frumvarpi frá Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks segja frumvarp um strandveiðar unnið of hratt og ógna sjálfbærni nytjastofna við Ísland.

Minni hluti í atvinnuveganefnd vill vísa frumvarpi um strandveiðar aftur til ríkisstjórnar. Frumvarpið á að tryggja 48 veiðidaga til strandveiða í ár.

Undir tillöguna skrifa Njáll Trausti Friðbertsson og Jón Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks. Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokks og áheyrnarmaður í nefndinni er einnig samþykkur tillögunni.

Þeir gagnrýna að málið hafi verið unnið hratt og lítill tími til að gefa umsagnaraðilum færi á að koma með athugasemdir. „Ef það verður að lögum verður ráðherra veitt víðtæk heimild til að ráðstafa viðbótaraflamagni til strandveiða umfram þær skorður sem Hafrannsóknastofnun setur og ákveðið er með lögbundinni aflareglu stjórnvalda,“ segir í tillögunni. „Það væri frávik frá skýrum viðmiðum um verndun fiskstofna og skynsamlega nýtingu sjávarauðlinda og gengi gegn markmiðum laga um stjórn fiskveiða.“

Þeir leggja því til að málið fari aftur fyrir ríkisstjórn.  „Með því að lögfesta ráðstöfun aflamagns sem gengur gegn ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og aflareglu stjórnvalda er hætta á því að grafið verði undan sjálfbærnivottun íslensks sjávarútvegs,“ segir í tillögunni. „Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vöruðu við því í umsögn sinni að það kynni að hafa áhrif á markaðsaðgengi, verð og traust neytenda á íslenskum sjávarafurðum. Alþjóðlegar vottanir byggjast á traustri og gagnsærri fiskveiðistjórn en ekki pólitískum ákvörðunum sem fara í bága við ráðgjöf sérfræðinga.“

Íslandsmetið að falla

Málið er ekki það eina sem varðar fiskveiðar sem Alþingi er með til umfjöllunar nú en í dag stendur yfir umræða um fyrirhugaðar hækkanir ríkisstjórnarinnar á veiðigjöldum. Áðurnefndur Njáll Trausti mun í dag flytja sína 60. ræðu um málið en þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa sagts ætla að ræða málið eins lengi og þarf til að stöðva það.

Lengsta umræða á Alþingi síðan þingið var sameinað í eina málstofu árið 1991 var um þriðja orkupakkann árið 2019. Stóð hún í 147 klukkustundir. Veiðigjaldafrumvarpið kemur þar næst á eftir og hafði í gær verið rætt í 142 klukkustundir.

Umræðan um málið hófst kl. 10 í dag og má því búast við að Íslandsmetið falli á næstu klukkutímum og veiðigjaldaumræðan verði sú tímafrekasta í sögu Alþingis í núverandi mynd.

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
1
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár