„Að mati Ríkisendurskoðunar hefur úrræðaleysi og kerfisleg lausatök einkennt viðbrögð yfirstjórnar heilbrigðismála við áskorunum tengdum mönnun og afkastagetu Landspítala og heilbrigðisþjónustunnar í heild. Eftirlit embættis landlæknis hefur ítrekað staðfest staðan sé bágborin og að það bitni á gæðum þjónustunnar og öryggi sjúklinga. Heilbrigðisráðuneyti þarf að styrkja yfirstjórn sína, bæði í stefnumótun og virkri yfirsýn um heilbrigðiskerfið.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um mönnun og flæði sjúklinga á Landspítalanum. Er því miðlað til heilbrigðisráðuneytisins að ráðast í heildræna skipulagningu á mönnun heilbrigðisþjónustunar.
Til að gera úrbætur á mönnunar- og flæðisvanda Landspítala er kallað eftir því að horft sé í auknum mæli til stjórnunar. Segir í skýrslunni að efla þurfi miðlæga ferla og stjórnunarkerfi spítalans, ekki síst með áherslu á áætlanagerð um mönnun, útfærslu á vinnuskipulagi og samræmda stjórn og eftirlit með mannauðsmálum.
Helstu heilbrigðisstéttir undirmannaðar
Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að frá árinu 2019 hafi sjúklingum sem leitað hafi til Landspítala fjölgað um 20 prósent en starfsfólki um 13 prósent. Rúmum á legudeildum hafi að meðaltali fækkað.
Í fyrra voru helstu heilbrigðisstéttir spítalans undirmannaðar miðað við áætlanir, sérstaklega sjúkraliðar. „Þessari manneklu er mætt með breytilegri yfirvinnu heilbrigðisstarfsfólks og umframfjölda ófaglærðs starfsfólks,“ stendur í skýrslunni. Er þetta bæði á sviði hjúkrunar og umönnunar.
„Skortur á hjúkrunarfræðingum og læknum hefur haft neikvæð áhrif á afköst og gæði þjónustunnar en fjöldi stöðugilda sjúkraliða sem eru ómönnuð eru jafnframt áhyggjuefni. [...] Þegar fjölmennir árgangar sjúkraliða komast á eftirlaunaaldur á næstu árum mun vandinn að óbreyttu aukast enn frekar samhliða öldrun þjóðarinnar og aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu sjúkraliða utan spítalans.“
Mönnun ræðst af fjárhagsáætlun, ekki öfugt
Segir Ríkisendurskoðun að aðgerðir heilbrigðisráðuneytis og spítala til að takast á við mönnunarvandann hafi sumar haft jákvæð áhrif. „En heildaráhrifin hafi verið takmörkuð og því ljóst að frekari aðgerða er þörf.“
„Fjárhagsáætlanir spítalans varðandi stöðugildi heilbrigðisstarfsfólks taka orðið mið af þeim mönnunarvanda sem spítalinn hefur staðið frammi fyrir síðustu ár frekar en æskilegum fjölda“
Bent er á að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir ákveðnum stöðugildum í fjárhagsáætlunum spítalans hafi ekki tekist að manna þau. „Þannig voru 50 stöðugildi hjúkrunarfræðinga, 14 stöðugildi ljósmæðra og 30 stöðugildi lækna ómönnuð árið 2024.“
Í skýrslunni er einnig bent á að mönnunarlíkön spítalans hafi lítið þróast síðastliðin ár. „Er svo komið að mönnunarþátturinn ræðst af forsendum fjárhagsáætlunar hvers árs frekar en að fjárhags- og rekstraráætlanir séu lagðar fram á grundvelli mönnunarviðmiða fyrir þá þjónustu sem spítalinn ætti að veita. Fjárhagsáætlanir spítalans varðandi stöðugildi heilbrigðisstarfsfólks taka orðið mið af þeim mönnunarvanda sem spítalinn hefur staðið frammi fyrir síðustu ár frekar en æskilegum fjölda.“
Útfærðar kröfur eða leiðbeiningar um greiningar á mannaflaþörf og mönnunaráætlanir eru ekki til staðar, bendir Ríkisendurskoðun á. Sú vinna sé þó hafin fyrir tilteknar greinar innan spítalans og heilbrigðisráðuneytis.
Ríkisendurskoðun miðlar því til heilbrigðisráðuneytisins að bæta yfirstjórn sína á mannauði heilbrigðisþjónustunnar. „Afar mikilvægt er að starfsumhverfið verði með þeim hætti að Landspítali og aðrar heilbrigðisstofnanir sem veita lykilþjónustu verði ekki halloka í samkeppni um starfsfólk.“
Þá þurfi bæði Landspítalinn og ráðuneytið að leita leiða til að styrkja mönnun spítalans til framtíðar. Til dæmis með því að styðja í auknum mæli við uppbyggingu sérnáms, sérstaklega þeirra greina sem mest mun mæða á samhliða öldrun þjóðarinnar.
Of fá hjúkrunarrými og plássleysi á legudeildum skapa álag á bráðamóttöku
Úrbætur skortir einnig í tengslum við flæði sjúklinga en samkvæmt skilgreindum innlagnarstigum spítalans ríkti að jafnaði ofurálag allan síðari hluta ársins í fyrra.
Vandinn sem snýr að flæði sjúklinga birtist hvað skýrast á bráðamóttökunni í Fossvogi, þar sem meðallengd komu á bráðamóttöku sem þarfnaðist innlagnar var meira en sólarhringur árið 2024.
Ástæða þessa álags er einkum vegna þeirra sem ekki hægt er að innrita á legudeildir spítalans, þrátt fyrir að hafa lokið þjónustu á bráðamóttöku. Árið 2024 lágu að meðaltali 29 sjúklingar á bráðamóttökunni sem voru tilbúnir til innlagnar á legudeild en komust ekki að.

Þá hafa fá hjúkrunarrými einnig gríðarleg áhrif á flæði sjúklinga á Landspítalanum. Bent er á í skýrslunni að hjúkrunarrýmum hafi ekki fjölgað að ráði frá árinu 2019 þrátt fyrir auknar heimildir til fjármögnunar. Áætlarnir um fjölda hjúkrunarrýma og meðalbiðtíma frá árinu 2019 hefðu „engan veginn staðist.“
„Rými eru tæplega 470 færri en gert var ráð fyrir, meðalbiðtími um 176 dagar og um 500 einstaklingar eru á biðlista. [...] Að mati Ríkisendurskoðunar er töluverð óvissa um hvort fyrirhuguð fjölgun nýrra hjúkrunarrýma samkvæmt fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun nái að svara væntri þörf.“
Vilja eflda stjórn heilbrigðismála
Ríkisendurskoðun telur upp fjölda ábendinga sem miðlað er til Landspítala, heilbrigðisráðuneytis og félags - og húsnæðismálaráðuneytis.
Meðal ábendinga eru innleiðing mönnunarlíkana, það að fylgja eftir innleiðingu gæðastjórnunarkerfis, efla sérnám og að styðja starfsfólk til náms.
Þá er heilbrigðisráðuneytinu meðal annars bent á að það þurfi að efla stjórn heilbrigðismála þvert á málefnasvið. „Heilbrigðisráðuneyti þarf að taka yfirstjórn heilbrigðisþjónustunnar fastari tökum, skipuleggja hana sem eina heild og gæta þess að skilgreind árangursmarkmið og mælikvarðar sem tengd eru fjárveitingum Landspítala endurspegli betur stefnumið til lengri og skemmri tíma.“
Athugasemdir