Maísumarið hófst á nokkuð indælan hátt. Sólin hefur umvafið okkur geislum sínum, veitt okkur hlýju og yl síðustu daga sem hefur reynst ansi kærkomið fyrir kalda litla þjóð. Miðbærinn hefur iðað af lífi og ég hef trúlega aldrei séð jafnmargt fólk í sólbaði, spilandi kubb og svolgrandi í sig bjór og aperol spritz á Austurvelli áður, og hvað þá á afskaplega venjulegum þriðjudegi. En nú er liðið á vikuna og veðrið farið að sýna sína réttu liti. Gustur og ský hafa tekið við og rigning er í veðurkortunum. Veruleiki kalda íslenska sumarsins hefur tekið yfir. Og kannski veruleiki hins kalda heims líka.
Sama sólríka þriðjudag bárust fréttir frá Sameinuðu þjóðunum þess efnis að 14.000 ungabörn ættu það á hættu að deyja úr hungursneyð á næstu 48 klukkustundum ef aðstoð bærist ekki til Gaza. 14.000 ungabörn yrðu í raun drepin þar sem neyðaraðstoð hefur verið hamlað að koma inn á Gaza af Ísraelsríki síðan snemma í marsmánuði. Nú er sólin horfin á bak við skýin, 48 klukkustundir eru liðnar og ég bíð milli vonar og ótta eftir því að heyra hvort gott fólk hafi getað komið í veg fyrir þessar hörmungar.
Það er til allra heilla stakur sólstafur sem fellur í gegnum þröngt skýjaopið og ég teygi mig í áttina að honum. Öflug mótmæli hérlendis og erlendis og þrýstingur bæði frá almenningi og sumum leiðtogum heimsins hafa áhrif og á miðvikudag neyddist ráðafólk í Ísrael til þess að hleypa 90 vörubílum frá Sameinuðu þjóðunum inn á Gaza. Það er hægt að stoppa hörmungarnar, stríðsglæpina og þjóðarmorðið.
Ég held að við á Íslandi séum einhvers konar meistarar í von. Við trúum því að það komi fleiri gæfir sumardagar. Við trúum því að það birti til að nýju. Kannski gerist það í þetta skiptið.
Athugasemdir