Jörðin okkar er einstakur staður þar sem líf dafnar og hefur enginn jafnoki fundist. Árið 1990 tók Voyager-1 geimfarið ljósmynd af jörðinni í 6 milljarða kílómetra fjárlægð. Aldrei fyrr höfðu menn séð Jörðina úr slíkri órafjarlægð.
„Á Jörðinni búa allir sem þú elskar, allir sem þú þekkir“
Bandaríski stjörnufræðingurinn Carl Sagan kallaði myndina Fölbláa punktinn og lagði út frá henni á þennan hátt: „Frá þessu fjarlæga sjónarhorni vekur Jörðin kannski ekki neinn sérstakan áhuga. En fyrir okkur er þetta öðruvísi. Þetta er heimili okkar. Þetta erum við. Á Jörðinni búa allir sem þú elskar, allir sem þú þekkir, allir sem þú hefur nokkurn tíma heyrt um… , sérhver ástfangið par, sérhver móðir og faðir, …sérhver öðlingur, sérhver spilltur stjórnmálamaður… samanlögð gleði okkar og þjáning; allt er þetta á þessum litla fölbláa punkti í sólkerfi okkar.“
Carl Sagan sagði að ef til vill væri engin betri sönnun á heimsku og yfirlæti mannfólksins en þessi fjarlæga mynd af hinum pínulitlum heimkynnum okkar. Myndin undirstrikaði þá skyldu mannanna að umgangast hvert annað betur, og varðveita og hlúa að fölbláa punktinum, eina heimilinu sem við höfum nokkurn tíma þekkt.

Þriðja árlega Velsældarþingið, verður haldið í Hörpu 8.-9. maí næstkomandi. Þingið er íslenskt frumkvæði og leidd af dr. Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra lýðheilsu hjá embætti landlæknis. Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er verndari þingsins. Tengin milli Jarðardagsins og velsældarhagkerfis á sér rætur í sameiginlegri framtíðarsýn; um að setja í forgang heilsu og framtíð Jarðar og fólksins sem á henni býr. Velsældarhagkerfið er frábrugðið hinni hefðbundu nálgun á hagkerfið út frá eingöngu efnahagslegum mælingum. Þess í stað eru velsæld og lífsgæði metin út frá fjölmörgum félagslegum og umhverfislegum þáttum ásamt hinum efnahagslegu.
Á Velsældarþinginu í Hörpu verða fulltrúar leiðandi alþjóðastofnana, stjórnmálamenn og sérfræðingar um þróun velsældarhagkerfis. Embætti landlæknis skipuleggur þingið í samstarfi við forsætisráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Wellbeing Economy Governments (WEGo), OECD, UNESCO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina WHO-Europe, Samband íslenskra sveitarfélags, Reykjavíkurborg, Festu-miðstöð um sjálfbærni, Club of Rome, Earth4all og Wellbeing Economy Alliance (WEAll).
Nánar um Velsældarþing: Smellið hér.
Athugasemdir