Fyrir stuttu fékk Volodymyr Selenskí, forseti Úkraníu, bréf frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, þar sem hann krafðist þess að Bandaríkin fengju yfirráðarétt yfir öllum náttúruauðlindum Úkraínu sem greiðslu fyrir hernaðaraðstoð. Að sögn bandarískra stjórnvalda nemur téð aðstoð um 500 miljörðum dala. Úkraínumenn telja þessa upphæð ekki standast og vísa í rannsóknarstofnun (Kiel Institute for the World Economy) í Þýskalandi sem telur upphæðina vera nær 123 miljörðum dala. Hefði Selenskí hins vegar skrifað undir friðarsamninginn á fundinum með Trump og varaforseta hans, J.D. Vance í Hvíta húsinu 28. febrúar sl., hefði endurgreiðsla „lánsins“ fallið niður. Það er ekki einu sinni ljóst hvort um lán eða gjöf er að ræða. Selenskí segir Joe Biden, fyrirrennara Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna, hafa talið þetta gjöf. Trump hefur annan skilning á viðskiptum en Biden og telur að enn eigi eftir að reikna út upphæðina sem á að endurgreiða, og verði hún innifalin í viðauka við samninginn við undirritun. Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, krafðist svara í fyrstu viku aprílmánaðar. Selenskí tilkynnti hins vegar á blaðamannafundi 28. mars að ekkert yrði undirritað innan téðra tímamarka.
„Ómögulegt að finna þá 226 þingmenn sem þarf til að samþykkja hann“
Dagblaðið Le Monde (29.03) greinir frá því að samningurinn hafi verið unnin hjá bandarísku lögfræðistofunni Arnold & Porter en stofan sérhæfir sig ekki í milliríkjasamningum. Jafnframt er tekið fram að ólíklegt sé að Selenskí samþykki samninginn og vísar þar í blaðamann dagblaðsins Evropeyskaya Pravda, Sergei Sidorenko, sem segir ómögulegt að finna þá 226 þingmenn sem þarf til að samþykkja hann.
Með samningnum eru Úkraínu settir afkostir og í reynd greitt náðarhögg því án hans fær Úkraína litla sem enga hernaðaraðstoð. Samkvæmt samningsdrögunum verða allar auðlindir landsins lagðar undir, þar á meðal olía og gas, og allar fjárfestingar sem tengjast nýtingu náttúruauðlinda á einhvern hátt: vegir, járnbrautir, hafnir og námur og vinnslustöðvar verða alfarið á hendi Bandaríkjamanna. Þessir verkþættir munu líka verða þeir fyrstu sem skila hagnaði. Hagnaðurinn fer í sérstakan fjárfestingarsjóð (einskonar mótvirðissjóð sbr. efnahagsaðstoð Bandaríkjamanna hér á Íslandi frá 1948-1979, Marshall-aðstoð, og PL-480 samningurinn) sem mun dreifa tekjunum á milli landanna. Úkraína þarf að leggja til 50% í sjóðinn án þess að hafa nokkuð um rekstur hans að segja, en þrír af fimm stjórnarmönnum verða skipaðir af Hvíta húsinu.
Allur hagnaður fer beint í vasa Bandaríkjanna, auk 4% á ári þar til fyrrnefnd hernaðaraðstoð, sem ekki hefur náðst samkomulag um hver sé í raun, hefur að fullu verið endurgreidd. Hagnaðurinn er greiddur út í erlendum gjaldeyri, og það eykur enn á ógæfu Úkraínu. Úkraínumenn munu ekki geta selt sjaldgæf og verðmæt steinefni án leyfis Bandaríkjanna.
„Hagnaðurinn fer ekki til Úkraínumanna heldur til bandarískra vildarvina Trumps“
Samningurinn mun auk þess hafa ómæld áhrif á efnahag Evrópu, sem hefur lifað um efni fram árum saman og stendur á brauðfótum eftir Covid-19. Allt frá því Selenskí fékk samningsdrögin í hendur hafa bandarísk stjórnvöld krafist eignarhalds á gasleiðslunni (upp í umrædda skuld) sem liggur frá Rússlandi til Evrópu. Þessi leiðsla var upphaflega byggð á tímum Sovétríkjanna og var ein helsta tekjulind landsins þar til hún var sprengd í loft upp í Eystrasalti. Bandaríkin hyggjast taka NordStream 2-leiðsluna í notkun að nýju og selja Þýskalandi ódýrt rússneskt gas. Hagnaðurinn fer ekki til Úkraínumanna heldur til bandarískra vildarvina Trumps. Ætlunin er að sundra Evrópusambandsríkjunum (ESB) enn frekar til að ná tökum á hinum 500 miljóna manna Evrópumarkaði.
Evrópusambandið sem miðast enn við 12 til 15 ríki hefur trassað nauðsynlegar skipulagsbreytingar í kjölfar stækkunar. Nú um stundir nýtir ESB stríðið í Úkraínu sem átyllu til að koma þeim í gegn og breyta ESB úr sambandi fullvalda ríkja í Sambandsríki Evrópu með yfirstjórn í Brussel. Þannig lafir tilvera Evrópusambandsins á því að stríðið í Úkraínu haldi áfram þar til þessar breytingar hafa náð í gegn og því er ólíklegt að í Úkraínu verði friður í bráð.
Bandaríkjamenn ætla ekki að koma nærri öryggismálum í Úkraínu, því veldur óttinn við nýtt Víetnam, en þeir hafa gert drög að skiptingu landsins með Berlín 1945 sem fyrirmynd án þátttöku þeirra; annars vegar milli Frakklands og Bretlands, sem að nafninu til eiga að gæta þar friðar, og hins vegar Rússlands, sem jafnframt mun halda öllum herteknu landssvæðunum. Bandaríkin, í krafti hervalds, ásælast einnig náttúrauðlindir Kanada, s.s. olíu og vatn, og enn fremur sjaldgæf steinefni sem eru til á Grænlandi. Einnig liggur það í loftinu að fjölskyldufyrirtæki Trumps ásamt fasteignamógúlnum Steve Witkoff, sem leynir ekki hrifningu sinni á Pútín, muni fjármagna framkvæmdir um strandbyggð á Gaza og á Krímskaga fyrir miljarðarmæringa.
Kjör Donalds Trump sýnir algert þrot hinnar nýklassísku hagfræði sem ráðið hefur ríkjum í flestum háskólum heims í rúma hálfa öld. Ójöfnuður hefur margfaldast og margar kenningar sem hún byggir á standast ekki. Árið 1987 birti Forbes í fyrsta sinn lista yfir miljarðamæringa og voru þar 140 einstaklingar sem áttu samtals 295 miljarða bandaríkjadali. Japaninn Yoshiaki Tsutsumi tróndi þar efst á blaði með 20 miljarða bandaríkjadali. Í dag á Elon Musk, ríkasti maður heims, meira en 21 sinni þá upphæð, eða 419,4 miljarða bandaríkjadali, sem er um tveim miljón sinnum meira en miðgildi ameríska heimilisins. Fjöldi miljarðamæringa hefur líka margfaldast. Musk er til dæmis 1 af 24 miljarðarmæringum sem eiga meira en 50 miljarða bandaríkjadala og einnig er hann 1 af 16 hinum svokölluðu ofurmiljarðarmæringum en þeir eiga að minnsta kosti 100 miljarða bandaríkjadali hver (WSJ, 25.02).
„Þeir sem högnuðust voru fjármagnseigendurnir á Wall Street“
Árið 2024 nam hallinn á viðskiptajöfnuði Bandaríkjanna við önnur lönd 1,2 biljörðum bandaríkjadala, eða um 4% af landsframleiðslu þeirra. Þetta sleppur á meðan bandaríkjadalur gegnir hlutverki varagjaldeyrisforða heimsins (u.þ.b. 60% allra viðskipta fara fram í bandaríkjadal, 20% í evrum og restin í öðrum gjaldmiðlum) en ylli miklum skaða ef dalurinn missti þá stöðu. Þennan mikla viðskiptahalla má að miklu leyti rekja til niðurskurðarstefnu Bills Clinton, 42. forseta Bandaríkjanna 1993-2001. Hann afiðnvæddi Bandaríkin með því að útvista störfum og flytja í miljónavís til láglaunalanda. Mörg fyrirtæki hættu allri framleiðslu í Bandaríkjunum. Samkvæmt kenningunni átti þetta fyrirkomulag að færa landi og þjóð hagsæld og blómlegt bú. Þeir sem högnuðust voru fjármagnseigendurnir á Wall Street. Hins vegar lögðust heilu borgirnar í eyði og verkalýðsfélög dóu drottni sínum.
Nú er markmið ríkisstjórnar Trumps að enduriðnvæða landið (Make America Great Again) og minnka hinn gífurlega ríkisfjárhalla. Til þess þarf að breyta kjörum á erlendri fjárfestingu og fella gengið, sem gerir skuldir sjálfbærari, útflutning samkeppnishæfari og innflutning minni. Þau ríki sem óska eftir hervernd og aðgengi að bandarískum neytendum þurfa að kaupa ríkisskuldabréf án eindaga og taka þar með á sig fjárlagahalla þeirra. Með öðrum orðum verða þau lönd sem óska aðgengis að bandarískum markaði skattlönd Bandaríkjanna en þarlend stjórnvöld stefna á að láta erlend ríki fjármagna „hið opinbera“, eða það sem eftir verður af samneyslunni þegar Elon Musk hefur farið um hana höndum, með tollum í stað hins „illræmda“ tekjuskatts sem lendir að mestu á þeim tekjuhærri. Margir eru efins um um að þessi stefna skili þeim árangri sem stefnt er að. Meira um vert, kostnaðurinn fyrir Ameríku og umheiminn gæti verið sá að við verðum láglaunavöruútflytjendur á kínversku öldinni.
„Stjórnvöld þessara landa kölluðu þá, sem ekki voru viðhlæjendur þeirra, óvini ríkisins, og refsuðu þeim án dóms og laga“
Timothy Snyder segir í nýlegum pistli (15.04) að í Bandaríkjunum ríki ógnarstjórn á pari við Sovétríki Stalíns, Ítalíu Mússólínís og Þýskaland Hitlers. Stjórnvöld þessara landa kölluðu þá, sem ekki voru viðhlæjendur þeirra, óvini ríkisins, og refsuðu þeim án dóms og laga. Einkum voru það hommar, kommar og gyðingar sem hlutu slíka refsingu. Þá eru ótaldir menntamenn og menntastofnanir sem alltaf finna fyrst fyrir fasisma. Ógnarstjórn er hentistefna. Mönnum er refsað án nokkurs tilgangs. Það er alveg nóg að eiga fallegri kápu en erindreki stjórnvalda, eða bara líta betur út, þá blasir við ömurlegur dauðdagi í gúlaginu, hvort heldur í Sovétríkjunum, Þýskalandi, eða í El Salvador.
„Óbreytt ástand stendur ekki til boða“
Sú veröld sem var þegar Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna byggðist á alþjóðarétti. Hún er horfin og kemur ekki aftur. Alþjóðasamfélaginu hefur verið kollvarpað og þau lönd sem áður tengdust vináttuböndum svífa nú í lausu lofti. Brýn og tyrfin verkefni blasa við í öllu alþjóðastarfi. Trump hikar t.d. ekki við að krefja erlend fyrirtæki um að hunsa lög eigin ríkis, sbr. bréf hans sem skipar þeim að banna alla svokallaða jákvæða mismunun í þágu fjölbreytileika og kynjajafnræðis. EES-samningurinn hefur veitt okkur ákveðna tryggingu, en vegna breyttra aðstæðna gæti aðgangur okkar að Evrópusambandinu lokast. Óbreytt ástand stendur ekki til boða. Í reynd eiga Íslendingar þess kost að verða annars vegar hluti af Ameríku Trumps og fá þá sömu stöðu og íbúar Púertó Ríkó, sem William McKinley 25. forseti Bandaríkjanna 1897-1901 tók yfir í spænsk-ameríska stríðinu 1898, en til hans sækir Trump efnahagsstefnu sína. Íbúar Púertó Ríkó njóta ekki fullra borgaralegra réttinda í Bandaríkjunum en eyjarnar tilheyra ekki Bandaríkjunum formlega og þeir hafa ekki kosningarrétt þar. Hins vegar eiga Íslendingar þess kost að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sitja við sama borð og aðrar fullvalda þjóðir og taka þátt í alþjóðasamfélaginu.
„Bandalagið var fyrir bragðið mun veikara en til stóð og er það ein meginorsök seinni heimstyrjaldarinnar“
Ört vaxand uppgangur öfgahægrimanna víða um heim vekur ugg. Þeir ala á ótta og þjóðernishyggju og boða einangrunarstefnu í utanríkis- og efnahagsmálum. Þetta minnir okkur á uppgang fasisma í Evrópu á millistríðsárunum. Hvernig brugðust Íslendingar við þá?
Árið 1937 lagði Einar Olgeirsson, alþingismaður og forystumaður sósíalista um árabil, fram tillögu til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að athuga um inngöngu Íslands í Þjóðabandalagið. Þingsályktunartillaga þess efnis kom fram 1930 en þá var Einar helsti andstæðingur hennar en á aðeins örfáum árum hafði andrúmsloftið í Evrópu gjörbreyst. Þjóðabandalagið var fyrsta alþjóðlega stofnunin sem hafði það að meginhlutverk að viðhalda heimsfriði. Það var stofnað með Versalasamningunum eftir fyrra stríð og á Woodrow Wilson, 28. forseti Bandaríkjanna 1913-1921, allan heiðurinn af því enda fékk hann friðarverðlaun Nóbels fyrir. Wilson dvaldi vikum saman í París til að koma á friðarsamningum. Þegar heim kom og hann taldi björninn unninn höfðu vindar snúist. Repúblikanaflokkurinn, sem aðhylltist einangrunarstefnu, hafði unnið sigur í báðum deildum þingsins. Þingmenn hans höfðu verið algerlega mótfallnir þátttöku Bandaríkjanna í fyrra stríði og voru dauðhræddir við að lenda í enn meiri stríðshörmungum (America first). Þeir lögðust afdráttarlaust gegn friðarsamningnum. Þetta er í fyrsta og eina sinn sem Bandaríkin hafna friðarsamningum. Donald Trump lítur til þessa tímabils og sækir þangað fyrirmyndir sínar. Bandaríkin samþykktu aldrei Versalasamninginn, heldur gerðu sérsamning við Þýskaland tveimur árum síðar, og tóku ekki formlegan þátt í Þjóðabandalaginu. Bandalagið var fyrir bragðið mun veikara en til stóð og er það ein meginorsök seinni heimstyrjaldarinnar.
Í framsögu með þingsályktunartillöguinni sagði Einar m.a.:
Það er orðin það mikil breyting á umheiminum í pólitískum efnum síðan 1918, að við fengum fullveldið, að full nauðsyn er, að við athugum, hvort allt, sem víð byggðum á þá, standist virkilega ennþá. Ástandið í heiminum er svo gerbreytt frá þeim tíma, og ég veit ekki til þess, að nokkurn tíma hafi verið tekið til rækilegrar meðhöndlunar, hvorki af þingi eða þjóð, hvaða öryggi Ísland hafi fyrir sínu sjálfstæði eins og tímarnir eru orðnir.
Við lýstum yfir því, þegar við fengum fullveldið 1918, að Ísland ætlaði að vera algerlega hlutlaust og eilíflega hlutlaust í ófriði. Og við byggðum í raun og veru á þeim hugmyndum, sem þá voru uppi, að það gæti verið öruggt fyrir eitt land að lýsa slíku yfir, þannig að slík yfirlýsing yrði virt. Við byggðum á þeim hugmyndum, sem Wilson og aðrir héldu fram á þeim tíma, að það væri hægt að skapa virkilegan alþjóðarétt til þess að koma á varanlegum friði framvegis. Og tryggingin átti að liggja í einhverjum ákveðnum siðferðislegum reglum um tillit til sjálfstæðis og réttar þjóðanna í alþjóðamálum. Við byggðum á hugmyndum, sem spruttu upp af þreytu manna eftir heimsstyrjöldina, og af því, hversu mönnum ógnaði allar þær hörmungar, sem hún hafði leitt yfir mannkynið.
Nú er viðhorfið að heita má algerlega umbreytt. Við stöndum á þeim tímamótum, þar sem ný heimsstyrjöld er að hefjast, þar sem stríð eru að verða algeng í öllum álfum heims, og þar sem þessi nýja heimsstyrjöld virðist muni verða miklu ægilegri en heimsstyrjöldin var 1914–18. Við stöndum nú með okkar hlutleysi og vopnleysi og treystum að einhverju leyti á það, að í þessari afstöðu, að eitt smáríki er hlutlaust og vopnlaust, sé eitthvað, sem geti bjargað okkur, — sem geti forðað okkur frá því, að aðrar þjóðir hremmi okkur eins og nú er komið málum. Hugmyndir okkar um hlutleysi byggðust nú á slíkri yfirlýsingu. Og við nánari athugun verðum við að viðurkenna, að það var í raun og veru fyrst og fremst lögfræðilegt hugtak, réttarfarslegt hugtak, sem við settum fram. Við lýstum yfir, að við myndum ekki segja öðrum þjóðum stríð á hendur né taka þátt í styrjöldum. Þegar við gefum þessa yfirlýsingu, þá er gengið út frá, að það sé til eitthvað, sem heitir alþjóðaréttur, réttur, sem sé einhvers virði. ...
Geta menn virkilega hugsað, að við verðum svo afskekktir, að menn nenni ekki að seilast til okkar? Og það á þeim tíma, sem verið er að leggja loftleið, þar sem Ísland kemur til með að hafa sérstaklega mikla þýðingu? Getum við búizt við, að auðæfi okkar lands séu svo lítil, að engin stórveldi ágirnist og ásælist þau? ...
Ég skal þó taka fram. að það er langt frá því, að ég líti svo á, að sjálfstæði Íslendinga væri fullkomlega tryggt með þátttöku þeirra í Þjóðabandalaginu. Ég býst við, að allir hæstvirtir þingmenn séu sammála um, að það sé mjög gölluð stofnun.
Íslendingar sóttu aldrei um aðild að Þjóðabandalaginu. Málinu var vísað til ríkisstjórnar sem stuttu síðar hrökklaðist frá völdum þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu helmingaskiptaflokkinn, með stofnun Landssambands útvegsmanna, LÍÚ, í ársbyrjun 1939, og það þjóðskipulag varð til á Íslandi sem við búum enn við. Nokkrum mánuðum síðar hófst síðari heimstyrjöldin. Sú styrjöld snerist um yfirráð yfir framleiðslunni og markaðnum eins og sú styrjöld sem nú blasir við. Umræða um öryggismál og það hvernig við tryggjum fullveldið hefur hins vegar ekki enn farið fram, eins og ræða Einars minnir óþyrmilega á.
„Helstu andstæðingar aðildar Íslands að ESB eru hagsmunaaðilar í sjávarútvegi sem gera út á gjaldfrjálsan aðgang að auðlindunum og íslensku krónunni“
Ytri öryggismálin standa tæpt. Auk þess eru innri öryggismál íslenska ríkisins alls ekki eins og best verður á kosið. Afmarka þarf valdsvið forseta, ráðherra og alþingis betur en nú er gert og fleira mætti tína til. Þetta kom skýrt í ljós þegar Ólafur Ragnar, þáverandi forseti, neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin. Engum hafði hugkvæmst að annað eins gæti gerst. Guðni, eftirmaður Ólafs Ragnars í embætti forseta Íslands, tók fram að hann myndi aldrei neita að skrifa undir skjöl sem honum bærust til undirritunar. Þá má nefna EES- samninginn en allt frá upphafi hans árið 1994 var þar gert ráð fyrir að þegar lög og reglur Evrópusambandsins (ESB) rækjust á við innlend lög ættu lög ESB að hafa forgang. Þetta hefur ekki gengið eftir eins og frumvarp ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um hina svokölluðu bókun 35 ber með sér. Í báðum tilvikum er ágreiningur um túlkun stjórnarskrárinnar. Deilt er um það hvort téð lagasetning um bókun 35 stangist á við stjórnarskrána, ágreiningur sem ekki hverfur með téðri lagasetningu. Nú er það svo, að helstu andstæðingar aðildar Íslands að ESB eru hagsmunaaðilar í sjávarútvegi sem gera út á gjaldfrjálsan aðgang að auðlindunum og íslensku krónunni. Þessir aðilar hafa nú þegar blásið í herlúðra gegn aðildarumsókn ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur að Evrópusambandinu og breytingu á auðlindagjöldum. Nýja stjórnarskránin tekur á þessum atriðum en þjóðin samþykkti hana í þjóðaratkæðagreiðslu 20. október 2012. Í nýju stjórnarskránni er nýr kafli um utanríkismál, sbr. greinar 109, 110 og 111. Með honum yrði tryggt að lög og reglur ESB fengju það vægi sem gert var ráð fyrir við gerð EES-samningsins.
Nýja stjórnarskránin fjallar líka um auðlindirnar en í 34. gr. hennar segir m.a.:
„Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.“
Núverandi varnarkerfi tryggir ekki fullveldið og kallar á skjót viðbrögð. Ríkisstjórnin þarf að flýta sem mest umsóknarferlinu að ESB. Þjóðaratkvæðagreiðsluna um upphaf viðræðna við ESB mætti t.d. halda samhliða sveitarstjórnarkosningum á næsta ári. Þá má ekkert út af bera. Svo ætti að lögfesta nýju stjórnarskrána og stefna á að halda þingkosningar áður en kjörtímabilinu lýkur til að tryggja aðildina að ESB. Þessi vinnubrögð tíðkast víða þegar mikið liggur við en krefjast mikillar vandvirkni og skipulags. Stuðningsmenn sjávarútvegsgreifanna leynast víða og ólíklegustu menn verða þeim handgengnir þegar á reynir sbr. auglýsingaherferð þeirra í Sjónvarpinu sem minnir ekki á neitt annað en Norður-Kóreu. Auglýsingar af þessu tagi eiga ekki að sjást í sjónvarpi allra landsmanna. Ef útvarpsstjóri grípur ekki í taumana á ríkisstjórnin að gera það. Frönsku járnbrautirnar, SNCF, bönnuðu Jordan Bardella, aðstoðarmanni Marine Le Pen, að auglýsa bók sína á járnbrautarstöðvum landsins því þeir töldu bók hans geyma ósannindi. Ríkisstjórnin er lýðræðislega kjörin og á ekki að líða að forstöðumenn stofnana hafi aðra stefnu en hún sjálf, svo ekki sé nú minnst á forstjóra ríkisfyrirtækja sem í nafni embættis síns gera stefnu hennar tortryggilega.
Vonandi ber þjóðin gæfu til að sjá ljósið í eigin ranni og láta ekki glepjast af skrumi nýrra auðvaldsbófa.
Athugasemdir