Málþingið „Áskoranir fyrir Ísland og önnur smáríki í málefnum flóttafólks,“ sem haldið var þann 1. apríl í EDDU - rými sem tjóðrað er þjóðararfinum táknrænum böndum - var ekki rökræn orðaskipti heldur samhengislaus gjörningur stofnanabundins haturs og valkvæðrar fáfræði.
Einn ræðumanna varaði þungum orðum við að: „albanska mafían rukkar 90 evrur á mánuði fyrir vernd.“ Óljóst var hvort þetta væri viðvörun eða dulin auglýsing. Ef skipulögð glæpastarfsemi—sem er ef til vill skilvirkari en einkavæddi öryggisgeirinn á Íslandi, og kannski betur á nótunum í fjölbreytileika og inngildingu - er komin í samkeppni við Securitas, má ætla að nýr markaður hafi myndast: markaður sem einkennist af áhættublæti og vöruvæðingu almannaöryggis.
Á sama tíma styrkir Rio Tinto—af öllum fyrirtækjum— viðbragðsátak Rauða krossins, Ertu klár? Þrír dagar, væntanlega í herferð til að bæta sína blóðugu ímynd. Átakið var að fyrirmynd sænsks almannavarnarbæklings, In Case of Crisis or War, og markar íslenska útgáfan afturhvarf ríkisins frá ábyrgð á krepputímum, þar sem ábyrgðin er færð yfir á einstaklinga. Spurningin er: hverjar eru afleiðingar þessara kænskubragða að hætti Hobbes, þar sem þau viðkvæmustu eru skilin eftir algjörlega upp á eigin spýtur?
Það er ekki raunveruleiki sem týpur eins og Snorri Másson, Vilhjálmur Árni Vilhjálmsson eða skipuleggjandinn Steinar Ingi virðast geta skilið. Í fyrstu nálgaðist ég viðburðinn með varkárri bjartsýni. Ég vildi skilja ræðumennina, svo ég skoðaði hvað þeir hafa lagt til opinberrar umræðu. Ég uppgötvaði meðal annars að einn mælanda og einn skipuleggjanda hafa enn ekki lokið við BA-ritgerðir sínar, og daður Snorra við rússneska ritþjófa kristinnar dulspeki gefur nokkuð óvænta léttúð í skyn. Afköst Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur reyndust hins vegar enn síður áhugaverðari. Ef vernda á opinbera sjóði ættum við kannski að byrja á því að endurskoða það stjórnmálafólk hvers framlag er hvað mest hverfandi miðað við þau laun sem það þiggur. Eins og viðgengst í öðrum löndum Evrópu sem fylgja OECD eða á hinum Norðurlöndunum.
Maður hefði kannski búist við því að Kolbrún, miðað við daður hennar við utanríkismál, myndi sýna samkennd — að minnsta kosti skilning á því hvað það þýðir að yfirgefa allt, enduruppgötva sjálfan sig undir fjandsamlegum aðstæðum, og byrja upp á nýtt. En ef til vill tapaðist samkenndin líka, einhversstaðar þarna í uppstokkun pólitískra hrakfara.
Vilhjálmur herti á heimsendaspánni með ákalli um kristinn „menningargrunn“ - krossfararfantasíu sem vekti kátínu ef ekki væri fyrir það að hún ber vott um nokkuð ívið skuggalegra. Hefði hann lifað á biblíutímum væri auðvelt að ímynda sér hann taka afstöðu með Rómverjum, fagna krossfestingu Krists og eigna sér hana sem sína eigin hugmynd.
Ég spurði sjálfan mig: hvernig gætu nokkur ræðumanna mögulega sett sig í spor þess sem leggur sig allan fram við að komast áfram með erfiðisvinnu, hugvitssemi og hugsjónum hins frjálsa markaðar? Siðfræði mótmælendatrúarinnar - með rætur í aga og þolgæði - rakst á við afturhaldssama nostalgíu, arfgeng forréttindi og djúpstæða tortryggni gagnvart félagslegri uppsveiflu. Hvaða möguleika hefðu ræðumennirnir, án öryggisnets sinna fjölskyldu- og/eða elítutengslna? Og hvað verður þá um gildi og hugsjónir þess verðleikasamfélags sem þeir segjast verja? Stjórnarhættir auðvaldsins og bitlingapólitík er harðlega gagnrýnd í vestrænum, lýðræðislegum samfélögum, sjá skandal Marie Le Pen.
Þeirra eini raunverulegi ávinningur liggur í því að halda aftur af vel menntuðum og ósérhlífnum innflytjendum—svo þeir neyðist ekki til að keppa á jafnréttisgrundvelli. Hræsnin sker í augu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefði getað notað tækifærið til að ræða nýju stjórnarskrána, 2024 skýrslu OECD um hagsmunagæslu og spillingarhættu, eða GRECO-niðurstöðurnar um útbreidda hagsmunaárekstra innan framkvæmda- og löggjafarvaldsins á Íslandi. Í staðinn hörfaði pallborðið í ágiskanir, í endurvinnslu úreltra evrópskrar óttastýringar sem nær allt aftur til „Tyrkjanna við hlið Vínarborgar“. Athugið rannsókn.
Áhyggjur mínar eru hins vegar byggðar á röksemdum að athuguðu máli, á reynsluþekkingu Snorra og þeirra. Í landi þar sem 20% skattborgara eru innflytjendur sem kosta þennan pólitíska farsa, myndi maður búast við að stefnumál væru byggð á gögnum fremur en arfgengum goðsögnum. Og með gögnum á ég ekki við tölfræði sem fengin er með vafasömum aðferðum rannsakenda sem ákafir skrumskæla hvers konar pólitísk hitamál yfir í gagnamengi. Athugið nýjustu rannsóknina.
Ég missti áhuga á sirkús sem barn þegar ég lærði um dýraníð. Og þó, verð ég að viðurkenna, var þetta uppspunna sjónarspil tilkomumikið - ef ekki gróteskt. Að því sögðu er stjórnmálafræðingnum innra með mér órótt, vegna þessarar rásandi óreiðu sem klædd er í búning alvöru stefnumörkunar.
Rétt eins og Substance Demi Moore - sem ég fer ekki út í hér - myndi ég ekki dirfast til að grennslast fyrir um þekkingafræðilegan grundvöll þessa raka. Mig grunar að ekki sé mikið efni til að afhjúpa og því dýpra sem ég kafa því meir muni ég sjá eftir því. Af orðræðunni að dæma virðist markmiðið vera að hverfa aftur til miðalda.
Mitt á tímum stríða, landflótta og alþjóðlegs óstöðugleika er stefna framsögumanna ekki samheldni heldur sundrung. Hún stillir 80 prósentunum upp á móti 20 prósentunum, vopnvæðir gamlar þjóðssagnir um ótta og hreinleika til að dreifa athyglinni frá eigin mistökum.
Með uppstillingu sem hallast að öfga og (að því er talið) hægri-miðju, bergmálaði farsinn í Háskóla Íslands þann fyrsta apríl það sem Frantz Fanon ([1961] 2004) kallaði meinafræði snertingar - sjónarspil gremjublandinnar vanþóknunar og skrauthverfs rasisma. Skipulögð gagnrýni vék fyrir þreyttum klisjum lýðfræðilegra ógna, hnignun tungumálsins og menningarlegum hreinleika. Íslensk frjálslynd alræðisstefna flutti sinn spectral grammar: kurteisi sem innilokunarstefna, umhyggja sem útilokun, og inngildingu sem fagurfræðilegur gjörningur.
Ákall Snorra um að „vera hörð í garð innflytjenda— jafnvel þótt það hljómi grimmt“ endurvekur hugmyndir um heimsvaldasinnaða löggæslu innan frjálslyndra lýðræðisríkja (Go 2024). Skírskotunin í „þjóðlega samheldni“ sem lækning á nýfengnu frjálslyndi miðlar fasískri nostalgíu fyrir menningarlegum hreinleika og bergmálar gagnrýni Adornos (2006) á bürgerliche Kälte - borgaralegum kulda, þ.e. kalt afskiptaleysi sem réttlætt er sem siðferðileg dyggð. Þráhyggja Snorra fyrir „breytingu frá fjórum upp í tuttugu prósent innflytjenda“ sneiðir framhjá margbreytileikanum í þágu táknræns gjörnings: innflytjendur eru gerðir að umframmagni, ógn og goðsögn.
Í annan stað hittum við fyrir föðurlegar og rasískar klisjur; flóttafólk sem barnslegt, óstýrilátt, nýtanlegt. Ísland, er okkur sagt, „má ekki opna sig um of“ því þá mun „skipulögð glæpastarfsemi“ misnota örlæti okkar.
Slíkar goðsögur eru ekki nýjar af nálinni. Þær fóðra öfgahægrið í Evrópu. Frá árinu 2024 hefur Ísrael verið endurskapað af fyrrum andgyðinglegum flokkum sem vestrænt virki gegn hinu barbaríska austri. Kynjaðar klisjur haldast óbreyttar: frá ísraleskum varðmönnum sem staðhæfa að Palestínufólk „nauðgi heilaga landinu“ að júgóslavneskum rógburði um rithöfundinn Slavenku Drakulić, að „nauðga þjóðinni“. Í dag staðsetur þessi orðræða siðferðilega úrkynjun í annarleikanum á meðan „dyggðir“ hvítleikans eru dásamaðar.
Það sem átti sér stað í Reykjavík var ekki umræða heldur helgisiður - formódernískt drama táknræns ofbeldis sem réttlæti hið væntanlega raunverulega ofbeldi. Eins og Adorno (2001) minnir á þarf opinber orðræða að vekja - ekki svæfa. En þessi viðburður svæfði með skrautyrðum, með kerfisbundnum rasisma íklæddum fagurfræði umhyggjunnar og narsissískum ranghugmyndum um eigin stórfengleika.
Hugmynd Volinz (2025) um hversdagslegt alræði fangar þetta á fullkominn hátt: þátttökugjörningur útilokunar undir kurteislegum fagurgala. Ákall Snorra eftir „djúpum og gömlum gildum“ er ekki stefnumál, heldur leikrit. Mathiesen (1997) myndi kalla þetta áhorfendasamfélag (synopticon): þar sem rökfræði refsingarinnar er sett á svið fyrir almenning. Þetta sjónarspil nýtir umhyggju ekki til að vernda heldur til að styrkja yfirráð- beitir feminískri siðfræði í þágu útilokunar.
Ég hef komist í kynni við svona æfingu í valkvæðri fáfræði áður, þessari tilraun til að endurskapa hvíta yfirburði sem umhyggju. Aðferðin beitir performatískri útgáfu umhyggjunnar, notar femíníska siðfræði af kostgæfni til að endurreisa status quo og efla núgildandi valdaformgerð, í því skyni að nýta sér þessa orðræðu sem áhyggjufulla borgara.
Lokaviðkvæði viðburðarins - „Við erum frjálslynd og okkur er sama hvaðan fólk kemur, en við erum íhaldssöm hvað varðar okkar gildi“ - opinberar grundvallarþversögn frjálshyggjunnar. Þessi þversögn - opin og lokuð, með umhyggju og grimmd - er kjarninn í fagurfræði frjálslyndrar forræðishyggju. Það sem birtist sem inngilding er í raun réttlæting á misnotkun, kúgun og dulbúnum yfirráðum.
Ofbeldi í þessu kerfi er ekki mistök - það er upphefð. Veblen ([1899] 1994) færði rök fyrir því að auðséð afl verður annars dyggð. Refsigeta ríkisins er metin sem borgaralegur styrkur. Framkvæmd rökleiðslunnar er að finna í kröfu Snorra um „strangar en praktískar aðgerðir“. Veblen áleit blinda bókstafstrúarþjóðrækni með rætur í „íþróttamennsku“, og sem tortímir í siðferðilegu yfirskini, afhjúpa þversagnir í stríði og samfélagslegum gildum.
Kannski Hannes Hólmsteinn ætti að hafa þjálfað sitt lið betur. Hann kynni að hafa fundið innihaldsríkari og skýrari sjónarhorn í einni af ferðum sínum undir miðbaug.
Tillögur Þýskalands, Danmerkur, Svíþjóðar og Eistlands um að svipta innflytjendur ríkisborgararétti og óðagot íslensks dómkerfis vegna venesúlensks flóttafólks eru ekki frávik. Það er framsetning þess sem Neocleous (2000) kallar frjálslyndan tilbúning reglugerða: fegrun fullveldis og útilokunar.
Slíkir gjörningar egna einnig til andspyrnu. Isin (2009) minnir okkur á að jafnvel þau óskráðu geta framkvæmt borgaralegar athafnir - truflanir sem afhjúpa blekkinguna um að tilheyra samfélagi sé óumbreytanleg staðreynd.
Það felst ákveðin vonarglæta í hversu ýkt þessi varnarviðbrögð eru - sem, eftir allt saman, stangast gjörsamlega á við það sem við vitum af hverri einustu grein vísindanna sem rannsakar mannkynssöguna: kyrrseta er frávik, ekki hreyfanleiki. Slík viðbrögð svíkja oft dýpri ótta við umbreytingar, ótta sem ber með sér vísbendingar um að félagslegar og pólitískar breytingar kunni að vera nærri, þótt þær virðist fjarlægar - sérstaklega í litlu samfélagi eins og Íslandi.
Mín spurning til pallborðsins er: við hvað eruð þið svona hrædd? Óttist þið að afstaða ykkar leiði í ljós hið gagnstæða við það sem þið hafið í hyggju? Að í áköllum ykkar um sátt sé ósagðan sannleik að finna: þörfina fyrir fjölbreytileika og verðleikasamfélag - fyrir sjálfa undirstöðu frjálslyndrar og kapítalískrar skipanar þar sem viðskiptahagsmunir, spilling og mismunun eru ekki merki um styrk heldur veikleika?
Þegar allt kemur til alls, það sem átti að vera lýðræðisleg skoðanaskipti var bara leikrit um innilokun og sefasýki - akademískt tómarúm hins hversdagslega alræðis. Spurningin er ekki lengur hvort þessir gjörningar séu sannfærandi, heldur sannfærandi hverjum, hvaða tilgangi þjóna þeir og hver er fórnarkostnaðurinn?
Armando Garcia er fræðimaður við Háskóla Íslands og sérhæfir sig í stjórnmálaheimspeki, stjórnmálaþjóðfræði og gagnrýnni menntun. Rannsóknir hans beinast að mótun pólitískrar sjálfsmyndar, tengslum nýlenduhyggju, valds og nútímavæðingar og félagslegum og pólitískum hornsteinum löggæslu.
Athugasemdir (4)